28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3649)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Allshn., sem hefir haft þetta frv. til meðferðar, hefir orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. með þeirri breytingu einni, að skýrslugerð þessi nái aðeins til þeirra kaupstaða, sem eru sjerstakt lögsagnarumdæmi. Nefndin leit svo á, að rjett væri að safna skýrslum um atvinnuleysi í þessum kaupstöðum og reyna að bæta úr, ef unt væri. Sömuleiðis lítur hún svo á, að þetta gæti verið til hagræðis, að vita um ástandið, bæði fyrir þá, sem vildu leita sjer atvinnu á þessum stöðum, og eins hina, sem þyrftu að fá fólk í vinnu annarsstaðar á landinu. Frá mínu eigin sjónarmiði vildi jeg benda á, sem leið til að bæta úr atvinnuleysinu, að koma upp iðnaði, sem mikil nauðsyn er á hjer, með því að mikið hráefni er flutt hjeðan óunnið.

Allshn. er sammála í þessu máli, að undanteknum hv. 1. þm. Skagf., sem hefir sjerstöðu í málinu og því óbundnar hendur. Hún telur ekki þörf á að taka fleiri kaupstaði með að svo stöddu, en mætti bæta við síðar, ef þurfa þætti. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti, að hv. deild sjái sjer fært að ljá þessu frv. sitt fylgi.