10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4201 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það hefir nú verið svo um alllangt skeið í kaupstöðum þessa lands, að fleiri eða færri af íbúum þeirra hafa gengið atvinnulausir mikinn hluta ársins. Hefir það verið mjög erfitt í hinum stærri bæjum að fá yfirlit yfir retta, sökum þess að þar eru kunnugleikarnir minni. Má því segja, að nauðsynlegt sje, að þessi skýrslugerð verði lögboðin. Snemma á þessu þingi kom fram frv. þess efnis, að bæjarstjórnum og hreppsnefndum væri skylt að safna skýrslum um atvinnuleysi. Í Nd. tók þetta frv. allmiklum breytingum, og nú er það svo, að eftir því er aðeins skylt að safna atvinnuleysisskýrslum í kaupstöðunum. Skal skýrslugerð þessi fara fram 1. febr., 1. maí, 1. ágúst og 1. nóv. Skal þetta gert til þess að sjá, hvernig ástandið er og með það fyrir augum, á hvern hátt verði best ráðin bót á því, þegar atvinnuleysi er, því það er af öllum viðurkent að vera það mesta böl, sem þjóðirnar eiga við að stríða. En til þess að hægt sje að bæta úr því, verður að þekkja það, og það er ekki unt nema á þennan eina hátt, að safna skýrslum um það. Sjerstaklega eru þessar skýrslur nauðsynlegar í hinum stærri kaupstöðum, til þess að glögt yfirlit fáist yfir það, hvernig ástandið er. Það er mjög mikið talað um það að reyna að finna einhver ráð til þess að fá fólkið til þess að flytja upp í sveitirnar og mörg ráð höfð til þess að koma því í framkvæmd. En jeg lít nú svo á, að einnig af þeim ástæðum þurfi að fá vitneskju um ástandið eins og það er.

Mig grunar, að því miður sje nú svo komið, að við sjeum með eins háa tölu atvinnulausra manna, í hlutfalli við fólksfjölda, eins og þær af nágrannaþjóðunum, sem verst eru staddar í því efni. En jeg álít, að auðveldara sje að bæta úr þessu hjer en víðast annarsstaðar. Því að þar, sem atvinnuleysið hefir staðið mannsöldrum saman, þar skapast, vegna þjóðfjelagsfyrirkomulagsins, hópar manna, sem ef til vill ekki komast að vinnu árum saman, og þetta ástand leiðir af sjer hinn mesta ófarnað. Og þetta ástand eigum við áreiðanlega eftir að fá í þessu landi, ef ekki er tekið í taumana í tæka tíð. En fyrsta atriðið til að geta eitthvað gert, er að vita, úr hverju þarf að bæta, — vita, hvernig ástandið er.

Meiri hl. allshn. vill samþ. frv. óbreytt, með því að viðbúið er, að það gangi ekki fram á þessu þingi, ef nú er farið að breyta því. En hv. minni hl. ber fram allvíðtækar brtt. Jeg get strax sagt, að jeg tel frv. gereyðilagt, ef þær ná fram að ganga. Ef bæjarstjórnum er ekki beinlínis gert að skyldu að safna atvinnuleysisskýrslum, heldur er aðeins heimilað að gera það, má búast við, að þær hummi það fram af sjer. Það má búast við, að þær vilji ekki sjá sannleikann og fari að eins og strúturinn, — stingi höfðinu niður í sandinn. Ef brtt. hv. minni hl. verða samþyktar, þá er engin breyting gerð á því lagaleysisástandi, sem nú er um þetta, því að vitanlega hafa bæjarstjórnir fulla heimild til að safna skýrslum um atvinnuleysi án leyfis Alþingis. Þær hafa enda oft gert það, en af söfnun með þeim hætti fást ekki þær upplýsingar og það gagn, sem leiðir af skipulagsbundinni skýrslusöfnun með reglulegu millibili. Það er ekki annars hægt að sjá muninn á atvinnuleysinu sumar og vetur eða gera samanburð á því frá ári til árs. — Frv. er gagnslaust með öllu, ef brtt. hv. minni hl. ná fram að ganga. Þá verður ekkert gert í þessum málum fram yfir það, sem nú er.