10.04.1928
Efri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4205 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Út af orðum hv. minni hl. vil jeg aðeins taka til athugunar það, sem hann sagði um 2. gr. Jeg get varla skilið, að hv. þm. segi það í alvöru, að ekki sje hægt að hafa tiltrú til verkalýðsfjelaganna í þessu efni og að skýrslur þær, er þau söfnuðu fyrir bæjarstjórnir eða í samvinnu við þær, gætu ekki fengið almenna tiltrú. Jeg veit ekki betur en að í öðrum löndum sje það svo, að þau taki þátt í þessu starfi. Í löggjöf annara þjóða, sem lengra eru komnar heldur en við í þessum málum, held jeg einmitt, að lögð sje viss skylda á verkalýðsfjelögin til að aðstoða bæjarstjórnir í þessum efnum. Það er ekkert nýtt, sem farið er fram á með 2. gr., og hví skyldum við ekki geta borið traust til verkalýðsfjelaganna um heiðarlega skýrslusöfnun, þar sem aðrar þjóðir lögbjóða þeim að hafa hana á hendi? — Það er mesti misskilningur hjá hv. þm., að þessar skýrslur þurfi að verða óáreiðanlegar fyrir þá sök, að verkamannafjelögin aðhyllast að einhverju leyti vissa pólitíska stefnu. Verkalýðsfjelögin hafa einnig þessi atvinnuleysismál með höndum, og hjer í bæ hafa þau stundum verið í samvinnu við bæjarstjórn um skýrslusöfnunina. Mjer þykir það sannast sagt furðu bíræfið af hv. 3. landsk. að væna fjelögin um það, að þau muni gefa út falsaðar skýrslur. En bað liggur beinlínis í orðum hans, að fjelögin muni hegða sjer þannig. Ef hv. 3. landsk. ætti að semja einhverja skýrslu, mundi jeg t. d. ekki vilja fullyrða fyrirfram, að skýrsla hans gæti ekki fengið opinbera tiltrú, enda þótt hann sje pólitískur andstæðingur minn. Jeg hugsa, að það þætti nokkuð hastarlegt að segja slíkt um hv. þm. að óreyndu. En það er þetta, sem hann segir um verkamannafjelögin, af því að þau hafa aðra pólitíska skoðun en hann. Annars get jeg mint hann á það, að til eru í landinu íhaldssinnuð verkamannafjelög, sem jeg býst við, að hann hafi ekki á móti að treysta, t. d. í Ólafsvík og Borgarnesi, þar sem nafnfrægir íhaldslæknar hafa verið formenn. Þau tvö fjelög kæmu að vísu ekki til greina í þessu sambandi, þar sem þau eru ekki í kaupstöðum, en jeg bendi á það vegna þess, hve hv. 3. landsk. hefir verið ákafur að bendla fjelögin við ákveðna stjórnmálastefnu. Starf verkalýðsfjelaganna er í fyrstu röð það, að bæta kjör meðlima sinna, og svo koma stjórnmálin í annari röð. En jafnframt því að vera í verkalýðsfjelögunum eru margir meðlimir þeirra í öðrum fjelagsskap, sem fyrst og fremst hefir stjórnmálin á sinni dagskrá, svo sem jafnaðarmannafjelögum, og máske einstöku í stjórnmálafjelögum íhaldsmanna.