12.04.1928
Efri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3666)

88. mál, atvinnuleysisskýrslur

Jón Þorláksson:

Úr því að hæstv. fjmrh., sem hagstofan heyrir undir, situr í sínum stóli, fyndist mjer, að það hefði átt eins vel við, að hann hefði sjálfur tilkynt þetta. (Dómsmrh. JJ: Stj. þarf engar ráðleggingar frá hv. 3. landsk.). Nei, jeg veit, að hæstv. dómsmrh. þykist ekki þurfa að fara eftir konunglegri tilskipun, sem sett er um verkaskiftingu ráðherranna og hefir sama gildi sem lög væri; hann tekur það hvort sem er ekki svo nærri sjer að brjóta lögin. (Dómsmrh. JJ: Hvernig var það með áfengislögin?). Um þau höfum við talast við áður, svo að jeg sje ekki ástæðu til að fara út í það nú.