21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

21. mál, lífeyrir starfsmanna Búnaðarfélags Íslands

Magnús Jónsson:

Það voru náttúrlega fögur orð, sem hæstv. fjmrh. (MK) sagði um það, að þegar menn væru búnir að slíta sjer út í þjónustu ríkisins, þá mætti ekki kasta þeim út á kaldan klakann í ellinni. En jeg verð að segja, að þannig er um búið lífeyrissjóð embættismanna, að það yrði að minsta kosti ekki nema jarðneskur sælustaður fyrir þá, sem kæmust undir ákvæði hans. Jeg vil beina því til þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar, — og að rjettu lagi ætti það að vera fjhn. —, hvort hún vildi ekki athuga yfirleitt lögin um lífeyrissjóð embættismanna. Væri svo ekki rjettast, fyrst á annað borð er verið að hreyfa við þessu máli, að taka fleiri menn undir lögin en starfsmenn Búnaðarfjelagsins? Jeg hygg, að það sje athugamál, hvort ástæða sje til að bíða eftir því, að menn gefi sig fram. Jeg vil ennfremur benda hv. nefnd á, að það að taka nýja menn undir ákvæði laganna um lífeyrissjóð embættismanna hefir áhrif á afkomu sjóðsins, vegna þess, að sjóðurinn lifir ekki eingöngu á framlögum, heldur líka á stofnsjóði. Það gæti því þurft að athuga, hvort ekki ætti að hækka stofnsjóðinn. Æskilegast væri, að hv. nefnd vildi athuga kjör starfsmanna ríkisins og hvort ekki væri frekari breytinga þörf en hjer er farið fram á.