20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4228 í B-deild Alþingistíðinda. (3674)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Magnús Torfason:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram örfáar brtt. við frv., á þskj. 246, en nafn flutningsmanns hefir fallið niður, og mun verða bætt úr því innan skamms. Að öðru leyti skal jeg geta þess, að brtt. eru ekki sjerstaklega frá mjer, heldur eru það brtt., sem við forsetar þingsins höfum gert, eftir að hafa athugað frv. saman og borið það saman við kosningalögin frá 1915. Jeg skal geta þess, að jeg tel þetta frv. til mikilla bóta, og hinum unga flutningsmanni, sem flutti það, hv. þm. Ísaf. (HG), til stórmikils sóma. Og jeg þykist líka sjá, að hv. allshn. hafi lagt mikla alúð við að gera þetta frv. sem best úr garði. Jeg vil taka þetta fram, af því þessar brtt. eru orðaðar sem brtt. við brtt. á þskj. 193, en það kom aðeins til af því, að við urðum of seinir að forma þessar brtt., en alls ekki af því að við hefðum neitt sjerstaklega að athuga við brtt. hv. nefndar, því að þær eru yfirleitt til bóta.

Þá skal jeg koma að þessum brtt. Fyrsta brtt. er um það, hvar eigi að koma þessu kjörblaði fyrir. Við forsetar teljum heppilegra, að það sje haft alveg eins og í lögum um kosningar til Alþingis frá 1915. Þar standa þessi orð, er við höfum sett: „kjörblað skal vera svipað þessu“. Okkur þótti fara vel á því, og það getur ekki haft neina þýðingu fyrir frv. Það kemur aðeins fram í prentuninni, og það getur komið til að standa eyða á síðunni á undan. Við sáum því ekki neitt unnið við það að vera að flytja þetta aftur fyrir allar greinarnar, og jeg veit ekki betur en að allir kunni því vel, hvernig þessu er komið fyrir í lögunum frá 1915.

Þá höfum við lagt til, að ný málsgrein komi á eftir 2. brtt. f. hjá nefndinni: „Forðast skal að láta óviðkomandi sjá kjörgögnin“. Það er, eins og við vitum, lagt ríkt á við kjörstjórnir að láta engan óviðkomandi sjá kjörgögnin, en við álítum, að það sje engu síður ástæða til þess að brýna þetta sem rækilegast fyrir öðrum, nema fremur sje.

Að því er snertir 3. tillögugreinina, þá hefir hv. frsm. allshn. upplýst, að eitthvað hafi skolast til með brtt. Hefi jeg borið þetta undir forseta beggja deilda, og töldu þeir, að þar sem komin er brtt., sem bætir úr þessu, gætum við vel tekið okkar brtt. aftur. 3. brtt. er því tekin aftur með þessu fororði, að hin brtt. verði samþykt, því að hún er komin fram út af þeim misskilningi, sem hjer hefir orðið.

Þá er 4. brtt., um að orða 11. gr. dálítið öðruvísi. Þar segir svo: „Að öðru leyti gilda reglur kosningalaganna um kosningar þær, er í lögum þessum getur, að því leyti, sem þær geta átt við“. En það er athugunarvert, hvort þetta orð, „reglur“, er nógu víðtækt, og það er ætíð betra að hafa arðin sem víðtækust, þegar vísað er til laga, og ennfremur vildum við, að bætt væri inn hegningarákvæði, því að það er viðkunnanlegra að sjá það í lögunum sjálfum, að dómarinn þurfi ekki að sækja í önnur lög til þess að vita um, að viðurlög sjeu sett.

5. brtt. er blátt áfram afleiðing af 1. brtt. og er sjálfsögð, ef 1. brtt. verður samþykt.