20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Haraldur Guðmundsson:

Jeg get yfirleitt verið hv. allshn. og hæstv. forsetum þakklátur fyrir fylgi þeirra við frv., og tel jeg flestar af brtt. þeirra til bóta.

Þó er eitt atriði, sem jeg get ekki verið hv. allshn. sammála um. Það er brtt. hennar við 5. gr. 3. málslið, þar sem kveðið er á um, hvernig ganga. skuli frá atkvæðakassa, sem ætlast er til, að hreppstjórar og kjörstjórar geymi í brjefin. Í frv. er gert ráð fyrir því, að þessir atkvæðakassar sjeu innsiglaðir af kjörstjórn og frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra. Þessu vill hv. allshn. breyta þannig, að láta duga, að kjörstjóri innsigli kassann, og svo sje frambjóðendum heimilt að setja innsigli sín fyrir kassann. Jeg skyldi samþykkja þetta, ef það væri æfinlega trygt, að frambjóðandi setti innsigli sitt fyrir kassann. Hinsvegar finst mjer, að ef ætlast er til þess að fá aukna tryggingu með þessu ákvæði, að kjörstjóri skuli innsigla kassann, þá missi hv. nefnd þar marks. Til þess að tryggja það, að ekki verði farið í kassann, ætlast hv. nefnd til, að kjörstjóri setji innsigli sitt fyrir hann. En það er í raun og veru engin trygging, nema fyrir hann gagnvart öðrum manni. Fyrir kjósendur og frambjóðendur er það auðvitað engin trygging, þótt kjörstjóri innsigli með eigin innsigli kassa, sem er í hans vörslu. Jöfn ástæða er til að tortryggja hann fyrir því. Jeg get heldur ekki sjeð neitt athugavert við það, að kjörstjórn skuli í fyrstu innsigla kassann, því að þegar henni, að liðnum kjördegi, er afmentur kassinn aftur, þá verður það auðvitað hennar fyrsta verk að athuga, hvort hann sje með sömu ummerkjum. Jeg hefi samt ekki komið með brtt. við þetta, og get enda gengið inn á, að seinni hluti greinarinnar verði eins og hv. allshn. leggur til, en mun koma með brtt. við fyrri hlutann við 3. umr. Auk þess mætti skjóta því inn í ákvæðið, að kjósandi, sem kýs utan kjörstaðar, skuli sjálfur leggja atkvæði sitt í kassann, alveg eins og ætlast er til nú við kosningu á kjörstað.

Jeg vildi ennfremur taka undir það með hv. 2. þm. Árn., að jeg kynni betur við, að myndin af kjörblaðinu kæmi inn í lögin á sinn stað, á sama hátt og í hinum almennu kosningalögum.

Þá virðist mjer, að þær brtt., sem hæstv. forsetar lýsa hjer saman, sjeu heldur fyllri en brtt. hv. nefndar, og hefi jeg þess vegna ekkert á móti því, að þær verði samþyktar.