03.04.1928
Efri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4247 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

62. mál, atkvæðagreiðslur utan kjörstaða við alþingiskosningar

Jón Baldvinsson:

Mig greinir í einstökum atriðum á við hina nefndarmennina, sjerstaklega um brtt. við 6. gr. Ákvæði frv. var sett með það fyrir augum, að kjörstjórn gæti strax í byrjun kjörfundar tekið við atkvæðum þeirra, er koma á kjörstað. Það er oft svo í sjávarþorpum, að í upphafi kjörfundarins kemur fjöldamargt fólk, sem vill ljúka sjer af. Ef byrjað væri því á að lesa upp skriflegu atkvæðin, gæti það dregist svo, að fólkið yrði að bíða tímunum saman. Allir vita, hvað mikið kapp getur þá hlaupið í menn; það er deilt um ýms formsatriði á skriflegu atkvæðunum o. s. frv. Og þess eru dæmi, að þetta hafi gengið í 3–4 tíma. Allan þennan tíma verða kjósendurnir að bíða og er því hentara að fara þá leið, sem stungið er upp á í frv., og láta skriflegu atkvæðin bíða þangað til menn eru hættir að koma inn til atkvgr. Samkvæmt gildandi lögum er kjörstjórn heimilað að slíta kjörfundi stundarfjórðungi eftir að síðasti maður kom. Þá getur kjörstjórnin tekið skriflegu atkvæðin til yfirvegunar, án þess að það tefji fólkið. Vegna þessa ágreinings skrifaði jeg undir nál. með fyrirvara. Þetta atriði er mjög mikilvægt, vegna þess að margt fólk hverfur frá og kemur ekki aftur, af því að það hefir ekki svo mikinn áhuga, að það vilji bíða á kjörstað tímunum saman. Þetta hefir komið fyrir og getur ávalt komið fyrir, þegar verið er að deila um skriflegu atkvæðin.

Í 2. málsgrein 6. gr. segir svo, að skriflegt atkvæði verði ekki tekið gilt, ef kjósandi er staddur innan kjördæmis síns. Þetta er svo í núgildandi lögum, en oft hefir það verið framkvæmt þannig, að taka atkvæði gilt, þótt menn hefðu vitneskju um, að kjósandinn væri staddur innan kjördæmisins. Til þess að draga úr þessu, hefir nefndin borið fram þá brtt., að það væri sett að skilyrði, að kjósandinn væri ekki staddur á kjörstað, og er það skárra en að fella þetta niður. Það, sem vakir fyrir mönnum með því að taka skriflegu atkvæðin ekki gild, er það, að hægt er að fá menn til þess að greiða atkvæði hjá kjörstjóra, en sú kosning fer venjulega fram með minni leynd en á kjörstað. Og því er það brot á anda laganna að taka atkv. gilt. Frv. vill sporna við þessu. Jeg veit, að móti þessu má segja, að menn búist ekki við að vera viðstaddir. Þetta gildir um sjómenn, sem ætla í langa sjóferð. En báturinn getur bilað, og ef þeir eru þá staddir í kjördæmi sínu eða kjörstað, geta þeir greitt atkv. þar, svo að þeim er ekki fyrirmunað að nota atkvæðisrjett sinn eftir 6. gr. frv. Þetta er ástæðan til þess, að jeg er á móti brtt. við 6. gr. Aftur á móti álít jeg, að aðrar brtt. nefndarinnar sjeu til bóta, eins og frv. í heild sinni, sjerstaklega það, að eftir frv. á að vera hægt að hafa eftirlit með kjörgögnum.