27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4280 í B-deild Alþingistíðinda. (3738)

82. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er rjett hjá hv. 3. landsk., að nokkur hluti 13. gr. hefir fallið niður við endurprentun. Frv. var að vísu lesið gaumgæfilega yfir áður en þvi var útbýtt, og fanst þá þessi ágalli. Kannaðist skrifstofustjóri þegar við hann, og gat þess, að þetta væri þegar leiðrjett í skjalaparti þingtíðindanna. Hinsvegar var svo mikill kostnaður fyrirsjáanlegur við að prenta frv. aftur upp, að ekki þótti rjett að gera það. En varla getur þessi vöntun valdið miklum misskilningi. Er auðvelt að átta sig á, hvað það er, sem bæta þarf inn í gr. eins og hún liggur hjer fyrir, því að það er 11. brtt. meiri hl. á þskj. 535. Vænti jeg því, að þetta skifti ekki miklu máli.

Þá skal jeg víkja að brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 604, um að fella niður 13. gr. frv. Hann telur greininni mjög spilt með brtt. meiri hl., þeirri, er samþ. var við 2. umr. Gekk hann jafnvel svo langt að halda því fram, að ákvæði um heimilisrannsókn án undanfarins dómsúrskurðar ætti samkv. henni við öll brot eða grun um brot á hvaða lögum sem væri. Þetta er að mínu viti slík fjarstæða, svo að jeg noti ekki sterkara orð, að það kemur ekki til nokkurra mála, því að í upphafi greinarinnar er skýrt tekið fram, við hvaða brot sje átt, nefnilega brot, sem framin eru gegn áfengislögunum í hagnaðarskyni.

Brtt. meiri hl. gerðu greinina að vísu nokkru víðtækari en áður. En það liggur í því, að sá, sem grunaður er um óleyfilega meðferð áfengis — um aðra er alls ekki að ræða —, falli undir ákvæði hennar, hafi hann áður brotið gegn áfengislögunum. Og jeg fæ ekki annað sjeð en það sje í alla staði rjettmætt, því að slíkum manni er jafnan varlega treystandi. En í hvert skifti er það á valdi hlutaðeigandi valdsmanns, hvort hann beitir ákvæðinu. Hitt gæti verið talsvert athugavert, ef kærandi gæti skilyrðislaust heimtað húsrannsókn. Jeg held því, að hvernig sem á þetta er litið, hafi það tekist, sem vakti fyrir flm. og meiri hl. nefndarinnar, að gera greinina fullkomnari en hún var upphaflega. Virðist mjög sanngjarnt að miða heimildina við þau tilfelli, þegar hinn grunaði er talinn hafa brotið lögin í hagnaðarskyni, eða áður orðið sekur við þau.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að vitna í það, að þessi ákvæði sjeu óþörf vegna væntanlegrar skipulagsbreytingar á meðferð þessara mála hjer í Reykjavík. Sjerstaklega kemur mjer undarlega fyrir sjónir, að hv. 3. landsk. skuli vitna í hana, því að hann hefir sjálfur lagst á móti henni. Jeg ætla fyrir mitt leyti engu að spá um það, hvort hún muni verða samþ. En þó að svo færi, sje jeg ekki, að neinu væri spilt með þessu ákvæði. Það er sjálfsagt mál, að geti hlutaðeigandi valdsmaður kveðið upp úrskurð án þess að það tefji rannsóknina, þá gerir hann það, en hinsvegar er gott að geta gripið til heimildarinnar, ef á þarf að halda. Sje jeg svo ekki þörf að lengja meir mál mitt, en vona, að brtt. á þskj. 604 verði feld, en 13. gr. fái að standa óbreytt.