27.02.1928
Efri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3759)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Flm. (Einar Árnason):

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að Brunabótafjelag Íslands, Samábyrgðin og Slysatryggingin verði sameinuð undir eina stjórn og starfrækslan fari fram eins og þetta væri ein stofnun; þó þannig, að hver deild hafi sinn sjerstaka fjárhag. Með þessu er ætlað að vinna tvent. Í fyrsta lagi, að alt eftirlit um umsjón verði betra, og í öðru lagi, að reksturinn verði til muna ódýrari. Að því leyti er þetta sparnaðarmál.

Nú mætti segja, að ástæða væri til að setja fleira undir þessa sameiginlegu stjórn, svo sem vátrygging sveitabæja og væntanlegar búfjártryggingar. Ef það sýnist rjett, er auðvelt að koma því inn í frv. undir meðferð þess í þinginu.

Þá skal á það bent, að oft hafa komið fram raddir um það að stofna til almennra ellitrygginga; er ekki ólíklegt, að að því reki, að framkvæmd verði á því áður en langt líður. Virðist þá sjálfsagt, að sú stofnun hverfi undir þetta skipulag, sem hjer er ráðgert. Í greinargerð frv. er skýrt nokkuð frá rekstrarkostnaði þessara þriggja stofnana, sem frv. ræðir um, og kemur þar í ljós, að hann nemur c. 80 þús. krónum. Þetta er að mínu áliti óþörf eyðsla og mætti spara þarna talsvert fje með sameiningunni. Jeg get að vísu ekki fullyrt, hvað mikið sparaðist, en ekki þætti mjer ólíklegt, að það yrðu 30–40 þús. kr.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um svo einfalt mál og vona, að deildin taki því vel og leyfi því að ganga til fjhn.