27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4295 í B-deild Alþingistíðinda. (3761)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Þó að fjhn. hafi klofnað í þessu máli, þá var það ekki af því, að það væri svo mikill ágreiningur á milli nefndarhlutanna um aðalatriði frv.

Jeg gat ekki orðið annars var í fjhn. heldur en að nefndin væri í rauninni öll sammála um það, að rjett væri stefnt með frv. Hinsvegar liggur ágreiningurinn, að jeg hygg, aðeins í einu atriði, og það er það, hvort þetta frv. á að koma til framkvæmda nú þegar eða lögin eigi að bíða ónotuð í fleiri eða færri ár. Í þessu, og þessu einu, er ágreiningurinn fólginn.

Það er gefið í skyn í nál. hv. minni hl., að meiri hl. hafi ekki viljað fallast á sumar þær brtt., sem minni hl. nefndarinnar flytur við frv. Þetta er ekki allskostar rjett, og skal jeg þá víkja að þeim tveimur liðum í fyrri brtt. hv. minni hl., þar sem í fyrri liðnum er gerð tillaga um að setja inn ákvæði um, að forstjórinn skuli hafa fullkomna sjerþekkingu á tryggingamálum. Á það atriði var minst í nefndinni, og jeg varð ekki var við, að það væri eiginlega neinn ágreiningur um það, og ef ekkert hefði verið annað til fyrirstöðu um það, að nefndin hefði getað staðið saman, þá hefði þetta sjálfsagt ekki orðið að ágreiningi.

Hitt atriðið er það, að hækka laun forstjórans úr 5000 kr. upp í 6000 kr. Það var líka talað um það í nefndinni, og jeg sem flm. frv. tók það fram, að jeg bindi mig alls ekki við það, sem í frv. væri, jeg hefði sett launin af handahófi, en aðeins ekki viljað fara of hátt, og jeg get líka sagt það nú, að jeg get einnig vel fallist á þessa brtt. hv. minni hl., og vitanlega hefi jeg ekkert á móti því heldur, að sá maður, sem skipaður er forstjóri, hafi fullkomna sjerþekkingu á tryggingamálum, svo framarlega sem við höfum völ á slíkum manni. Það er því, eins og jeg tók fram, eitt atriði, sem skilur nefndarhlutana, og það er hvenær lögin skuli koma til framkvæmda. Meiri hl. getur ekki fallist á annað en að farið verði strax að framkvæma þessi lög, en jeg skal ekki fara langt út í það atriði málsins, því að það er í sjálfu sjer svo einfalt. Jeg sje heldur ekki ástæðu til að ræða frv. eða einstakar greinar þess; jeg læt mjer nægja að vísa til þess, sem stendur í greinargerðinni við frv., og þess, sem jeg sagði við 1. umr., og því get jeg vel látið mjer nægja það, sem jeg hefi þegar sagt, og látið atkvgr. skera úr um málið.