12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (3777)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil spyrja hæstv. dómsmrh., hvort hann sje mjer ekki sammála um, að frv. eigi einnig að ná til vátryggingar sveitabæja. Eftir frv. að dæma verð jeg að líta svo á, að það nái aðeins til þriggja stofnana, Brunabótafjelagsins, Slysatryggingarinnar og Samábyrgðarinnar, en þó ekki fyr en núverandi forstjóri hennar fellur frá. Þá er eina breytingin, sem frv. hefir í för með sjer fyrst um sinn, sú, að Slysatryggingin og Brunabótafjelagið komast undir eina og sömu stjórn.

Í núgildandi lögum Brunabótafjelagsins er svo mælt fyrir, að áður en lögum þess sje breytt, eigi að leita umsagnar þeirra, sem trygt hafa í fjelaginu.

Þær tillögur, sem fram eru bornar í frv., eru ekki í samræmi víð ákvæði 25. greinar í lögum 1915, og því getur þetta frv. ekki orðið að lögum eins og það er. En ef stjórnin undirbyggi lög í samræmi við þá grein, ættu þau að geta komið til framkvæmda á næsta ári, í stað þess, að ætlast er til, að ákvæði frv. komi til framkvæmda í október í haust og þá falli niður forstjórastaðan í Brunabótafjelaginu. Það munar ekki nema hálfu ári eða þrem ársfjórðungum, þótt málinu sje frestað til næsta þings, og getur ekki talist, að of mikið sje gert vátryggjendum til hæfis, þótt beðið sje þennan tíma, til að brjóta ekki á þeim gildandi lög. Jeg skal játa með hæstv. dómsmrh., að jeg tel hyggilegt að hafa allar tryggingarstofnanirnar undir einum hatti, en mjer finst ekki skifta máli, hvort sú breyting fer fram 6 eða 8 mánuðum fyr eða síðar, þegar um það er að ræða að rjúfa ekki loforð það, sem þingið hefir gefið vátryggjendum í gildandi lögum.

Annars verð jeg að láta þá skoðun í ljós, að jeg tel frv. þetta ekki vera nægilega ljóst um það, hvaða viðhorf skal taka gagnvart einstökum greinum tryggingarstarfseminnar hjer á landi. Frv. er allfljótvirknislega úr garði gert. Jeg er t. d. hræddur um, að maður, sem hafa ætti umsjón með tryggingarmálunum í heild, svo að vel færi, fengist ekki fyrir þau laun, er frv. býður upp á. Hjer er aðeins einn maður með prófi í þessum fræðum, og hann hefir þegar fengið stöðu með hærri launum og loforð fyrir hækkun. Jeg býst því varla við, að hann fengist, þótt jeg skuli ekki fortaka, að leitað hafi verið hófanna við hann.

Það er mikils um vert, að forstjórinn sje fróður í þessum greinum og starfinu vaxinn. Hann þarf að vera fær um að vinna að undirbúningi ýmsra trygginga og koma þeim upp. Það vita allir, hve mikið fjárhagsatriði það er að koma upp inn]endum tryggingum. Mikið fje fer til útlanda á ári hverju vegna þess, að innlendar tryggingar vantar. Það er því engan veginn rjett að hrapa að þessu máli á neinn hátt.

En aðalröksemdin gegn því að samþykkja þetta frv. eins og það liggur nú fyrir liggur í 25. gr. laganna frá 1915, þar sem þingið hefir gefið vátryggjendum loforð, sem það má ekki

rjúfa. Jeg held líka, að það sje rjett, sem jeg sagði áðan, að fullkomin ástæða sje til að endurskoða gjaldskrá Brunabótafjelagsins. Jeg held, að komið sje það efni til að vinna úr í þeirri reynslu, sem er fengin, að hægt sje nú að fá forsvaranlega niðurstöðu, og vona jeg, að hún verði lækkun á iðgjöldum fjelagsins. Er full von, að kaupstaðir þeir og kauptún, sem búa undir lögunum, vilji hafa hönd í bagga um slíka endurskoðun.

Sú eina breyting, sem frv. þetta hefir í för með sjer, ef það verður samþ. — uns forstjóri Samábyrgðarinnar fellur frá — er sú, að Slysatryggingin fer undir sömu yfirstjórn og Brunabótafjelagið. En hvort það verður heilu eða hálfu ári fyr eða síðar, skiftir ekki máli. Jeg vona því, að hæstv. dómsmrh. geti fallist á að fresta málinu til næsta þings.