12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4319 í B-deild Alþingistíðinda. (3779)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Haraldur Guðmundsson:

Einn nefndarmaður, hv. 2. þm. Reykv., hefir skrifað undir nál. með fyrirvara. Hann er hjer ekki við nú, en af því að jeg þykist vita, hvað hann meinti með fyrirvaranum, skal jeg skýra frá því. Hann á þar við ákvæði 3. gr. frv. um laun forstjórans, þar sem gert er ráð fyrir, að þau verði 4000 kr., er hækki á 3 árum upp í 5000 kr. Eins og hv. 1. þm. Skagf, tók fram, eru þessi laun óheyrilega lág, samanborið við laun annara starfsmanna ríkisins. Og jeg fyrir mitt leyti ber kvíðboga fyrir því, að ef tekin verður upp sú regla að greiða lægri laun fyrir störf í þágu ríkisins en einstakir menn greiða sínum starfsmönnum, þá geti það orðið til þess, að ekki veljist eins góðir menn í þjónustu ríkisins. Þarf ekki að eyða orðum að því, hvílíkt tjón gæti af því hlotist. En af því nú að svo stendur á, að mjög er orðið áliðið þings og vafasamt er, hvort þetta frv. yrði afgreitt, ef breytingar á því verða gerðar hjer í þessari hv. deild, þá mun jeg ekki koma með neinar brtt. nú. Jeg tel frv. í heild sinni til mikilla bóta og álít sjálfsagt að sameina þessar stofnanir, þótt ekki væri litið á neitt annað en fjárhagshliðina eina. Hinsvegar verð jeg að játa, að jeg hefi ýmislegt við frv. að athuga, auk ákvæðanna um laun forstjóra, sem jeg áðan drap á. Jeg geri ráð fyrir, að lög þessi eigi fyrir sjer að taka breytingum síðar, og vona því, að þess verði ekki langt að bíða, að bætt verði úr þessum ágöllum.