12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4323 í B-deild Alþingistíðinda. (3782)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er ekki viss um, að verulega mikill sparnaður verði að því, þó þetta frv. verði samþ. Þvert á móti held jeg, ð þó yfirforstjóri verði settur yfir þetta alt, þá þurfi að minsta kosti einn góðan mann í hverja deild. Erlendis er það svo, að þó menn lesi tryggingafræði, þá eru það fæstir, sem lesa nema örfáar greinar hennar. T. d. les einn aðeins elli-, líf- og persónutryggingar, annar tekur ekki nema bruna- og sjóvátryggingar, og fáir munu þeir vera, er hafa jafna þekkingu á öllum þessum greinum. Hinsvegar er vitanlega ekkert á móti því, þó settur sje yfir þetta alt maður, sem ekki er sjerfróður í öllum þessum greinum. Jeg vildi aðeins benda á, að óvíst er, hver sparnaður verður að þessu, ef sæmilega á að búa um forstöðu þessara tryggingastofnana. Verð jeg og að álíta, eftir þeim upplýsingum, er komið hafa frá hv. 1. þm. Skagf., að það geti verið næsta varhugavert að samþ. þetta frv., þar sem það mun að ýmsu leyti koma í bág við gildandi lög um þessar stofnanir. Fæ jeg ekki skilið í því kappi, sem hæstv. stjórn leggur á að knýja þessi lög í gegn, sem þó aldrei verða annað en pappírslög. Hefði mjer fundist rjettara að taka gildandi lög til rækilegrar rannsóknar, því vitanlegt er, að talsverð óánægja er út af fyrirkomulagi þessara stofnana. Hefði þá mátt gera ýmsar ytri og innri breytingar á þeim í senn.