14.04.1928
Neðri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

129. mál, samstjórn tryggingastofnana landsins

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. þm. Ísaf. gat við síðustu umræðu frv. þessa, í fjarveru minni, nokkurra annmarka, sem jeg tel vera við frv., en jeg þarf að geta annara. Allir þessir annmarkar hafa valdið því, að jeg hefi undirskrifað nál. með fyrirvara, og þótt jeg gangi raunar með því nú, hefði jeg, ef tími þingsins væri meiri, snúist að allróttækum breytingum.

Má fyrst telja laun framkvæmdarstjórans, sem rjettilega á að stjórna öllum ríkistryggingum. Í þetta starf þarf vel hæfan mann, sem getur komið upp tryggingarstofnunum og haft á hendi alla útreikninga, er að tryggingum lúta. Jeg tel, að varla sje hægt að búast við að fá slíkan mann fyrir þau laun, sem frv. gerir ráð fyrir. Erlend og innlend vátryggingafjelög myndu ávalt bjóða betri kjör. Að vísu má segja, að hægt sje að hækka launin, er slíkur maður er fenginn, en rjettara hefði verið að hafa ákvæði um sæmileg launakjör í frv. sjálfu.

Mjer finst, að frv. þetta, eins og það kemur frá hv. flm., sje mjög illa undirbúið. T. d. leiðir af því, að sú stjórn, sem nú er við samábyrgðina og slysatrygginguna, skuli haldast, og hefði þó eins mátt skera þær stjórnir niður eins og framkvæmdarstjórn Brunabótafjelagsins. Sama er um endurskoðendur; um þá á að haldast sama skipun og áður, og virðist þó, að hægt hefði verið að sameina endurskoðun fyrir allar þessar stofnanir. Þetta sýnir, hve málið er lítt hugsað, flausturslega samið og skamt gengið, ef samstjórnin á að vera fullkomin. Þó tel jeg frv. spor í rjetta átt. Vegna þess, hve áliðið er þingtímans, sje jeg mjer ekki fært að bera brtt. fram við frv., eins og jeg hefði annars gert og mun því greiða því atkv. mitt óbreyttu, þótt jeg hefði ekki gert það, hefði öðruvísi staðið á.