20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3791)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Björn Kristjánsson):

Hv. meiri hluti fjhn. bar þetta mál fram nokkuð framarlega á þingi, og skýrir hann frá því í athugasemdunum, að hann beri það fram fyrir hönd stjórnarinnar. Ekki er minni hl. kunnugt um, hver af ráðherrunum hefir falið meiri hl. málið, en ekki telur hann líklegt, að hæstv. fjmrh. eigi þar frumkvæðið, þótt bankamálin heyri undir hann.

Eigi verður sjeð, að bankaráð Landsbankans hafi átt frumkvæðið að frv. Er þó beint lögákveðið, að svo eigi að vera, sbr. 37. gr. bankalaganna: Jeg geri ráð fyrir, að það hafi alls ekki vitað um frv., fyr en það var komið á prent og því var útbýtt hjer í deildinni. En þar sem bankaráðið er yfirstjórn bankans, mun það vera samkvæmt fastri venju annarsstaðar, að það eigi frumkvæðið að öllum lagabreytingum, sem bankann varðar, en ekki flokkspólitískir ráðherrar. Máli þessu var svo að lokinni 1. umr. vísað til fjhn., og hefir hún klofnað í tvent, í meiri og minni hluta.

Mál þetta var mjög grandgæfilega rætt og athugað á síðasta þingi og leitt til lykta á mjög sómasamlegan hátt, úr því sem gera var, sem þing og þjóð áttu að vera vel sæmd af. Frv. varð að lögum, og engum datt þá annað í hug en að það væri komið í farsæla höfn og þau lög gætu lengi staðið.

Það var aðeins ein grein í lögunum, sem gat komið fyrir, að þyrfti að breyta, sem sje 5. gr., sem kveður á um það, hversu mikið fje þarf að leggja bankanum til sem eignarfje, til þess að hann gæti orðið fjárhagslega sjálfstæður og að hann gæti unnið sitt ætlunarverk. Meiri hluti fjhn. í Ed. gerði líka ráð fyrir, að þessari grein yrði ef til vill að breyta. ef niðurstaða matsnefndarinnar, sem meta átti hag bankans í hendur bankaráðsins, gæfi tilefni til.

Meiri hl. nefndarinnar í Ed. 1927 farast svo orð um þetta á þskj. 362, bls. 577–578, sem jeg leyfi mjer að lesa hjer upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem eigi liggur fyrir nein úttekt eða mat á hag bankans eins og hann nú er, getur meiri hlutinn ekki sagt neitt ákveðið um, hversu mikið stofnfje verði að leggja bankanum um leið og hann tekur við seðlaútgáfurjettinum, því bæði verður að tryggja það að seðlabankinn hafi nægt eigið fje til að kaupa fyrir nauðsynlegan gullforða, og svo hæfilegan varasjóð í byrjun fyrir sparisjóðinn, sem mun nú vera um 30 miljónir króna.

Nefndin hefir því komið sjer saman um að leggja til, að þetta stofnfje verði fyrst um sinn ákveðið 5 miljónir króna, og er sú upphæð aðeins milj. krónum hærri en bankastjórn Landsbankans hefir skýrt stjórninni frá, að í minsta lagi mætti komast af með.

Þá upphæð mætti svo síðar hækka, eftir því sem niðurstaða matsnefndarinnar, sem gert er ráð fyrir í breytingartillögunum, kynni að gefa tilefni til“.

Fimm manna nefnd var svo skipuð til þess að meta hag bankans, og mun hún hafa afhent ríkisstjórninni mat sitt 16. febr. þ. á.

Það eina, sem stjórnin því þurfti að athuga viðvíkjandi bankalögunum frá síðasta þingi, er hún hafði fengið mat bankamatsnefndarinnar frá síðasta þingi, var, hvort mat hennar gæfi tilefni til breytingar á 5. gr. laganna.

En í staðinn fyrir að doka við eftir matinu, flýtir hún sjer að láta bera þetta frv. fram, og stóð þá vitanlega í sömu óvissunni um hag bankans eins og meiri hl. fjhn. stóð í fyrra.

Fjhn. hjer í deildinni tók nú við málinu, og það fyrsta, sem hlaut að liggja fyrir nefndinni, var að fá að vita um niðurstöðu matsnefndarinnar. Sú niðurstaða hlaut að verða grundvöllur undir breytingunni á 5. gr., ef henni þyrfti yfir höfuð að breyta.

Minni hl. fól því formanni nefndarinnar að fara þess á leit við stjórnina, að nefndin fengi að vita um matið eða niðurstöðu þess. Á næsta fundi flutti formaður nefndinni það svar stjórnarinnar, að henni væri óljúft að gefa nefndinni vitneskju um niðurstöðu matsnefndarinnar.

Jeg skal skjóta því hjer inn, af því að þess hefir verið getið, að matsnefndin hafi ekki gefið upp nema eina tölu, og hafi þetta því verið sama sem að ekkert mat hafi farið fram, að ekki er venja, þegar slíkt mat fer fram, að gefa upp annað en niðurstöðuna. Svo var það, þegar Íslandsbanki var metinn; matsnefndin gaf einungis upp eina tölu, niðurstöðuna. Stjórnin tók það gilt og galt nefndinni sitt kaup. Þetta kom líka skýrt fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. Stjórnin tók gilt starf matsnefndar Landsbankans og borgar henni fyrir, þótt hún hafi ekki gefið upp nema eina tölu. En síðan, eftir að stjórnin hafði borgað henni, þá sundurliðar hún þetta nokkuð, að bón hæstv. fjmrh., skýrði frá væntanlegu tapi bankans sjálfs og hvers útibús fyrir sig.

En minni hl. sá sjer ekki fært að eiga meira við málið, þar sem allan grundvöll vantaði fyrir breytingunni á 5. gr. Bæði frumvarpsgreinin sjálf og hvaða breyting, sem lagt yrði til að gerð væri á henni, hlaut að vera á sandi bygð. Og vitanlega urðum við minnihl.menn að vera einnig á móti breytingu frv. við 5. gr.

Kem jeg þá að frv. sjálfu. Í lögunum er sagt í 1. gr. 3. mgr., að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans umfram stofnfjeð, 5 milj. kr. Þessi ábyrgð er fyllilega næg, og af frekari ábyrgð hefir bankinn ekkert gagn. Frv. heimtar, að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, sem nú munu vera um 50 milj. kr., rjett eins og bankinn ætti ekkert til upp í þessar skuldbindingar sínar.

Ef ríkissjóður ábyrgist í byrjun allan reikningshalla bankans og 5 milj. kr. stofnfje að auki, og það gerir hann samkvæmt lögunum frá í fyrra, þá er sú ábyrgð næg.

Menn eiga þó ekki að vera að leika sjer að því að eyða ábyrgð ríkissjóðs; svo mikið hvílir á honum. Og ekki bætir brtt. á þskj. 477 úr. Frvgr. sjálf er þó skýrt orðuð. En brtt. er svo loðin, að því er snertir heimild bankans til að taka lán erlendis án samþykkis Alþingis, að vel má skilja hana svo, að aldrei þurfi að koma til þingsins kasta að samþykkja nýjar lántökur bankans, ef þær ekki fara fram úr því, en lög nr. 10, 31. maí 1927, heimiluðu. En þetta var alls ekki meining þingsins, heldur að heimila bankanum að framlengja þau lán, sem hann þegar var búinn að taka, eða ætlaði þá að taka (ameríska lánið). Þetta virðist ein af fleiri tilraunum stjórnarinnar til að koma bankan um undan öllu eftirliti Alþingis.

Þá kem jeg að 2. gr. frv. Jeg er búinn að tala um hana dálítið hjer á undan, en í frv. felst það, að strika burt þær 3 milj. kr., sem ríkissjóður átti samkvæmt lögunum í fyrra að leggja bankanum til sem gullforðatryggingu.

Þar er aðeins sagt, að innskotsfjeð frá 1913, 2 milj. kr., eigi að teljast stofnfje bankans.

Þegar stjórnin samdi þetta frv. og bar það fram, gat hún enga hugmynd haft um, hvort bankinn átti þessar 2 milj. kr. óeyddar eða ekki, sem hún er að vísa á sem stofnfje bankans. Og eftir að hún nú veit um þetta, er hún ekki svo nærgætin við sína fylgismenn, meiri hl. fjhn., að hann fái vitneskju um þetta mikilsverða atriði, sem framlag ríkissjóðsins hlaut að byggjast á. Í vandræðum sínum kemur svo meiri hl. með heimild fyrir ríkisstjórnina til að leggja bankanum til alt að 3 milj. kr. framlag úr ríkissjóði, ef henni sýnist svo, og hyggur, að hann þar með hafi þvegið hendur sínar. En nú veit meiri hl. af stjórnarfrv. sjálfu, að stjórnin ætlar sjer ekki að veita bankanum þetta fje.

Nú á seðlabankinn samkv. bankalögunum, 56. gr. 3. mgr., að ábyrgjast sparisjóðinn með innskotsfje ríkissjóðs, 2 milj. kr., þangað til varasjóður sparisjóðsins er orðinn 10%.

Þó innskotsfje þetta væri til, sem stjórnin á eftir að skýra frá, þá veitir það seðlabankanum engan styrk, þar sem það stendur að veði fyrir annari stofnun, sparisjóðnum. Þess vegna er engrar undankomu auðið, að bankanum sjeu lagðar til minst 3 milj. kr. Annað væru bein svik við þjóðina, bankann og viðskiftamenn hans.

En hvernig mundi dæmið nú líta út, ef bankinn ætti ekki lengur þetta innskotsfje, ef það væri tapað?

Gæti maður þá hugsað sjer, að nokkur þingflokkur vildi bera ábyrgðina á því að samþykkja stjórnarfrv. eins og það er, eða með brtt. meiri hluta?

Jeg spyr.

Breytinguna í 3. gr. frv., við 24. gr. laganna, er sennilegt, að minni hl. gæti fallist á, en þó því aðeins, að nefndin fengi að vita um hag bankans, svo hún geti dæmt um, hvort þörf sje á því, að allur arðurinn, ósnertur, renni í varasjóð. Brtt. meiri hl. við þessa grein að öðru leyti getur minni hl. eðlilega ekki fallist á, að alveg órannsökuðu máli. Það var aldrei tilætlunin að láta bankann greiða neina beina vexti af gullforðanum, því þá gat hann ekki skoðast sem eign bankans, sem verður þó að vera.

Um 4., 5., 6., og 7. gr. get jeg verið stuttorður. Þær ræða um landsbankanefndina, og vísa jeg til þess, sem um hana er sagt í nál. Það virðist hafa verið orðið fullkomið samkomulag á síðasta þingi um að sleppa henni, enda var það gert. Það virðist því ekki vera nein knýjandi ástæða til að breyta lögunum til að koma henni að. Sú tilhögun virðist líka líkjast meir ráðstjórnarfyrirkomulagi en venjulegu bankaráðsfyrirkomulagi, og svo mundi það fyrirkomulag reynast í framkvæmdinni hjer.

8. gr. frv., sem er breyting á 36. gr. bankalaganna, fer aðallega fram á að afnema aðalbankastjórann, strika út trygginguna fyrir nægri þekkingu og reynslu að minsta kosti eins bankastjórans í framkvæmdastjórn bankans. Þá er, eins og skýrt er frá í áliti minni hl., ráðherranum gert hægara fyrir með að segja bankastjórum upp stöðunni, ef ráðherra vill koma sínum fylgismönnum í stöðurnar, því eftir þessu frv. þarf hann engar skriflegar ástæður að gefa fyrir frávikningunni. Ráðherrann, eða bankaráðsformaðurinn, getur hjer eftir gefið ástæðurnar munnlega, upphátt eða í hljóði.

10., 11., 12. og 13. gr. eru afleiðingar af bankanefndarfyrirkomulaginu.

En 14. gr. fjallar um hið svonefnda bankaráð. Það atriði er skýrt í nál. minni h1., og er þar sýnt fram á, hversu ótækt og hættulegt það fyrirkomulag er. Formaður bankaráðsins, sem flokkspólitískur ráðherra skipar, á einn, fyrir hönd bankaráðsmannanna, að athuga hag og stjórnsemi bankans; hinir bankaráðsmennirnir mega ekki koma þar nærri, en samt eiga þeir að úrskurða um mál bankans, vitandi ekki neitt annað en það, sem formaðurinn má eða vill segja þeim. Þetta getur ekki leitt af sjer neitt annað en þá örgustu „Korruption“ í landi, sem er svo fáment, að hver þekkir annan, þar sem flokkapólitíkin er svo beitt, eigingjörn og siðlaus, að hvergi munu vera slíks dæmi, og á þeim tíma, sem byltingastefnan er að gera innreið sína í landið og hreiðra sig hjer, jafnvel uppi á æðstu valdatindum.

Kem jeg þá að 15. gr. frv., þar sem á að afnema aðra gjaldkerastöðuna sem. sýslan, eftir að Alþingi að minsta kosti tvisvar er búið að ákveða, að þessi staða sje sýslan, eins og hin gjaldkerastaðan. Nú leyfi jeg mjer að spyrja hv. meiri hl., hvort hann ætlist til, að þessi breyting nái til núverandi fjehirðis bankans. (JBald: Auðvitað). Hvort það er meiningin að skifta um mann í þessari stöðu, eins og í bankaráðsstöðunum, og að þessi breyting sje gerð þess vegna? Allir vita, að ekki er hægt að leggja þetta starf niður. (JBald: Hvað segir bankastjórnin?). Hún segir, að setja þurfi í frv. bráðabirgðaákvæði, svo lögin snerti ekki þann mann, sem nú gegnir stöðunni. (JBald: Hún segir, að staðan sje óþörf). Jeg skal lesa upp það, sem bankastjórnin segir um þetta: „Ennfremur viljum vjer taka það fram, að oss virðist eðlilegt, að eigi sje lögákveðin nema ein gjaldkerastaða í bankanum, eins og gert er í 15. gr. (væntanlegri 43. gr. e.). Hversu framkvæmd á því gjaldkerastarfi verður, er þá í höndum bankaráðs. Sem stendur er önnur lögákveðin gjaldkerastaða, og virðist oss rjettast, að hún haldist, meðan sá maður gegnir henni, sem nú er skipaður í þá stöðu, og að hann haldi þeim rjettindum, sem hann hefir samkvæmt núverandi lögum. Ætti þá að koma um þetta atriði bráðabirgðaákvæði“.

Jeg vona, að hv. frsm. meiri hl. sje fullnægt með þessu. (JBald: Já, já). Þá kem jeg að 9. gr. frv., sem jeg hljóp yfir með vilja, sem er breyting við 37. gr. laganna. Þar er ákveðið, að bankaráðið eigi 1. að grannskoða allar framkvæmdir bankastjórnarinnar og alt það, sem fram fer í hinum ýmsu starfsgreinum bankans, eins og bankaráði er ætlað að gera alstaðar erlendis.

2. að halda fundarbók, sem í skal rita það helsta, sem fer fram á fundum þess.

3. Fundarbók þessa á að leggja fyrir fjárhagsnefndir Alþingis á hverjum tíma til álita, til þess að Alþingi geti fylgst með í gerðum þess.

4. að gefa Alþingi skýrslu um ástand bankans í öllum greinum og hvernig bankanum hefir verið stjórnað, hvort nokkuð hafi verið vanrækt, sem gera hefði þurft, eða hvort nokkru þurfi að breyta.

Alt þetta á að strika út, og ennfremur samkvæmt 16. gr. frv. allar tryggingarráðstafanirnar í 39. gr. laganna, sem snerta bankastjórnina. En þær tryggingarráðstafanir eru í 9 liðum, eins og nál. minni hl. ber með sjer. Jeg veit ekki, hvort jeg þarf að lesa það upp. Ef ekki yrði gengið til atkvæða nú í dag, þyrfti jeg þess ekki. En jeg býst ekki við, að hæstv. forseti treystist til að fresta atkvgr. til morguns, svo þingmenn fái tíma til að lesa nál. minni hl., ef umr. verður lokið í dag. Þess vegna ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þann kafla nál., sem þar um ræðir. Þar segir svo:

„Þá er lagt til í frumvarpinu að strika út 39. gr. bankalaganna, en í þeirri grein felst þetta:

1. að aðalbankastjóri hafi víðtæka þekkingu og reynslu í viðskiftamálum.

2. að framkvæmdarstjórnin haldi fundarbók, eins og verið hefir, sem í sjeu ritaðar allar ályktanir, sem gerðar eru á fundum hennar.

3. að eigi minna en 2 bankastjórar geti gert ályktun.

4. að að jafnaði skuli engar meiri háttar ráðstafanir gerðar, ef einn bankastjóri mótmælir.

5. að bankastjóri megi rita rökstutt ágreiningsatkvæði sitt í gerðabókina, ef einhver ályktun er gerð á móti hans vilja.

6. að viðstaddir bankastjórar undirskrifi fundarbókina í hvert skifti, er fundur er haldinn.

7. að hver deild bankans haldi sína dagbók.

8. að fundarbók bankastjóranna og dagbækurnar sjeu daglega lagðar fyrir bankaráðið, og

9. að fjarverandi bankastjóri beri ábyrgð á því, sem framkvæmt hefir verið í fjarveru hans, nema hann skrifi ágreiningsatkvæði um það, sem hann er ósamþykkur, í fundarbókina eða dagbækurnar“.

Þetta er það eftirlit, sem gert er ráð fyrir í lögunum, að haft sje með bankastjórninni. Allar þessar tryggingarráðstafanir eru taldar óumflýjanlegar við seðlabanka í öðrum löndum, t. d. í Noregi. Og þar eru þó tryggingarreglurnar enn ákveðnari. Þar er t. d. í lögum ákveðið, að ef 1 bankastjóri af 5 flytur rökstudd mótmæli gegn því, að lán sje veitt, þá má ekki veita það. Svo strangar tryggingar eru þar. Tryggingarákvæðin í okkar lögum eru að mestu sniðin eftir norsku tryggingarreglunum, þótt þau sjeu ekki fullkomlega eins ströng og þar. Það var því engin vitleysa, sem farið var fram á á síðasta þingi. Það voru ekki nema sjálfsagðar tryggingar fyrir þjóðina, sem þá voru settar.

Nú er svo að sjá, að það sje stefna hæstv. stj. að gera eftirlitið með embættis- og sýslunarmönnum enn öruggara og strangara en verið hefir. Hvers vegna vill hún þá upphefja alt eftirlit með lífæð þjóðarinnar, Landsbankanum? Það er lítið samræmi í því hjá hæstv. stjórn. Og hvað ætli útlendir fjármálamenn segi, þegar alt þetta drasl er orðið að lögum?

Ekki sje jeg, hvað lánsheimildin í 7. brtt. háttv. meiri hl. á að þýða, þar sem hún er skýlaust ákveðin í lögunum sjálfum, í 62. gr. (JBald: Háttv. þm. hefir ekki skilið, hvað um er að ræða).

Jeg hefi nú gert stutta grein fyrir mótmælum minni hl. gegn frv. þessu, og vona jeg, að þjóðin afsaki, þótt mótmæli komi fram í þinginu, þegar hún sjer, að bankastjórnin öll er í meginatriðum sammála minni hl. fjhn. og meiri hluti bankaráðs er minni hl. nefndarinnar sammála líka, að svo miklu leyti, sem álit þessara aðilja nær. Það er vitanlega ekki eðlilegt, að t. d. bankaráðið fari að segja nokkuð um þau atriði, sem það snerta. Og eins er um bankastjórnina. Sameinuð bankastjórn og meiri hluti bankaráðs mæla á móti flestu í frv., og mjer er óhætt að segja allir þeir hv. þingmenn í báðum deildum, sem öðrum fremur bera skyn á fjármál og bankamál landsins. Að þessu athuguðu ætti það að vera afsakanlegt af okkur, þótt við komum fram með mótmæli.

Þar sem nál. minni hl., sem er alllangt, hefir ekki verið útbýtt fyr en nú á fundinum (Forseti: Fyrir fundinn), þá eru það tilmæli mín, að hæstv. forseti fresti atkvgr. til morguns, svo að háttv. deildarmenn hafi tækifæri til þess að lesa nál. og melta það með sjer. (Dómsmrh. JJ: Það er nú ekki svo þungmelt, svo að það ætti að vera hægt á stuttum tíma).

Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að svara hv. frsm. meiri hl. (JBald). Það, sem hann sagði, var svo þunt og málinu óviðkomandi, að jeg get varla lagt út í að eiga við það. Hann sagði meðal annars, að það væri allra landsmanna krafa, að ríkissjóður tæki að sjer ábyrgð á Landsbankanum. Jeg hefi aldrei heyrt neitt um þetta fyr og jeg leyfi mjer að fullyrða, að þessi staðhæfing hans er sögð alveg út í bláinn. Það var þó svo á síðasta þingi, að samkomulag varð um þetta atriði; annars hefði bankamálið ekki komist fram. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að Seðlabankinn þyrfti að vera sterkur banki. Jeg held það geti ekki verið meining hans, því að alt hans tal og tillögur ganga út á það að veikja hann.

Um það, að jeg hafi haft villandi frásögn um undirtektir landsstjórnarinnar um að gefa upplýsingar um niðurstöðu matsins, er það að segja, að jeg hermdi þar alveg rjett frá. Jeg vitnaði í hv. 3. landsk. (JÞ), sem hlustaði á eins og jeg. Ef hæstv. stjórn vill afhenda bankanefndinni þetta mat, þá er jeg altilbúinn að taka höndum saman við háttv. meiri hl. til þess að lagfæra 5. gr.

Hv. frsm. meiri hl. fjölyrti mjög um bókfærslu bankans, alla þessa óskapa skriffinsku, sem honum fanst vera, að bankinn ætti að halda 3 dagbækur, þ. e. a. s. sjerstaka dagbók fyrir hverja deild. Nú hefir verið haldin dagbók við bankann síðan 1909. Að minsta kosti var svo í minni tíð þau 9 ár, sem jeg var bankastjóri, að haldin var dagbók yfir öll lán og lánssynjanir. Bankastjórnina munar ekkert um, hvort hún skrifar þetta upp á eitt blað eða í þrennu lagi. Einhver starfsmaður bankans er síðan látinn færa lánbeiðnirnar af þessum blöðum inn í dagbækurnar daginn eftir; það er sama verkið hvort þær eru ein eða þrjár. Það er eðlilegt, að svo sje ákveðið, að bækurnar skuli vera 3, því að gert er ráð fyrir, að þessar stofnanir verði ef til vill síðar skildar frá bankanum sjálfum, og er þá heppilegra, að hver deild hafi sína bókfærslu og eignist þannig sína sjerstöku sögu. Með hliðsjón af því er það gert að hafa dagbækurnar þrjár í stað einnar. Og eins og jeg hefi sýnt fram á, tefur það ekki nærri eins mikið og háttv. frsm. meiri hl. vill gera úr því. Hann talar rjett eins og allur tíminn hljóti að ganga í það að færa bækur og gera athugasemdir. Hvernig heldur hv. þm., að fari í Noregsbanka, þar sem bókhaldið er enn meira sundurgreint og skilyrði rýmri fyrir bankastjórana að gera ágreiningsatkvæði sín gildandi?

Jeg vil að síðustu minna á eitt, sem reyndar er vikið að í nál. okkar hv. 3. landsk., að alt eftirlit með bankanum frá þingsins hálfu er alveg afnumið með frv. Jeg vil vekja athygli á þessu og leggja áherslu á, að menn athugi það, hvort háttvirt Alþingi vill afsalá sjer öllum rjetti til þess að hafa eftirlit með þessari lífæð þjóðarinnar, Landsbankanum.