20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4355 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fjrmh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg álít, að sú heppilegasta aðferð, sem hægt er að hafa við þetta mál, sje það að eyða sem minstum tíma í umræður; vegna þess að það er hægt að ganga út frá því sem gefnu, að lítið muni verða sagt annað en það, sem komið hefir fram í umræðum um þetta mál á þingi í fyrra, og ræður manna mestmegnis endurtekningar á áður sögðu. Enda hefir það líka sýnt sig. Jeg sje ekki betur en hv. 1. þm. G.-K. (BK) hafi átt eitthvað niðursoðið af matvælum í fórum sínum síðan í fyrra og verið sje að bera það á borð fyrir okkur nú. Við það er í sjálfu sjer ekkert að athuga, því að niðursoðinn matur getur verið fullboðlegur, hafi hann í öndverðu verið kjarngóður. En því er ekki að heilsa hjer. Svo maður sleppi öllu gamni, þá veldur því, að jeg get verið stuttorður, auk þessa álits míns, það að hv. frsm. meiri hl. hefir gert svo rækilega grein fyrir áliti meiri hl. og þeirra, er að því standa, að jeg þarf ekki miklu við að bæta frá eigin brjósti. En vegna þess að nál. hv. minni hl. ber allglögg einkenni þess að vera samið af hv. 1. þm. G.-K., sem mjer skilst á því, hve veikt það er í röksemdum, að jeg ekki segi barnalegt, en nálgast það þó, vildi jeg helst hlífast við að rífa það niður, þótt ekki geti það talist neitt þrekvirki. Jeg held, að hv. 3. landsk. hafi átt mjög lítinn þátt í inntaki þess.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að mjer finst undarleg sú staðhæfing í nál., að orðið hafi samkomulag um þetta mál á þingi í fyrra. Mjer væri forvitni á að fá að vita, hverskonar samkomulag það var. Jeg veit ekki betur en sá meiri hl., sem þá var, neytti aflsmunar og ljeti knje fylgja kviði til þess að koma sínum vilja fram: Og það var í raun og veru ekki nema ofur eðlilegt.

Margt er þessu líkt í nál., og er það nóg til þess að sýna, hve óvandvirknislega er frá skýrt og staðhæfingarnar á sandi bygðar.

Það lítur út fyrir, að hv. minni hl. þyki það furðulegt, að nú skuli vera gerð tilraun til þess að lagfæra það, sem meiri hl., sem nú er, þótti miður fara í fyrra um meðferð þingsins á bankamálinu. Það er alveg vitanlegt, og jeg þóttist hafa tekið það glögglega fram, að allar þær breytingar, sem þáverandi meiri hl. þings, með hv. 1. þm. G.-K. í broddi fylkingar, gerði á fyrirkomulagi bankans, voru að áliti minni hl. mjög spillandi. Minni hl. vildi aðhyllast frv. milliþinganefndarinnar í bankamálum með smávægilegum breytingum. Því ætti mönnum ekki að koma það neitt á óvart, þótt meiri hl., sem nú er, vilji neyta aðstöðu sinnar til þess að koma málinu í það horf, er hann telur, að betur mega fara.

Eins og jeg mintist á áðan, þá ríða þessar fullyrðingar í nál. hv. minni hl. ekki við einteyming. Þar stendur meðal annars þessi klausa:

„Minni hlutinn þorir að fullyrða, að hvergi í heiminum sje eins ótryggilega um nokkurn seðlabanka búið eins og verða mundi um Seðlabanka Íslands, hvort sem frv. yrði samþykt óbreytt eða með þeim breytingum, sem meiri hl. leggur til, að gerðar verði á því“.

Hver er svo mikill bankafræðingur, að hann treystist til þess að fullyrða slíkt? (BK: Jeg skal lána . . . . ) Jeg þarf ekkert að fá að láni hjá þessum hv. þm. Hans fróðleikur, þótt kannske sje mikill, hefir ekki ætíð verið notaður á viðeigandi hátt. Og svo mun hjer. Þetta er ekkert annað en fullyrðing út í loftið, og verður ekki sönnuð.

Mjer er nær að halda, að ekki sje hægt að hugsa sjer tryggilegra fyrirkomulag heldur en það, að ríkið taki skilyrðislaust að sjer allar tryggingar vegna skuldbindinga bankans. Það er þungamiðja þessa máls; að bankinn á bæði að vera undir eftirliti ríkisvaldsins og njóta af þess hálfu alls þess stuðnings, er hann þarfnast, svo að aldrei sje uggvænt um, að honum sje treystandi.

Önnur fullyrðing er þessi, hve afarhættulegt það gæti orðið áliti voru og trausti, ef það vitnaðist, að Alþingi hefði kipt burtu úr lögunum svo að segja allri yfirstjórn bankans og öllu eftirliti. Mjer verður á að spyrja: Er þetta virkilega alvara? Jeg held sannast að segja ekki. Hjer mun öllu heldur vera skákað í því skálkaskjóli, að menn sjeu fákænir um þetta og nenni ekki að kynna sjer það. Jeg held, að tryggingarnar reynist alveg eins góðar og öruggar, þó að feld sjeu niður nokkur smá og ómerkileg atriði, sbr. 37. og 39. grein. Þarf ekki annað en að athuga þessar greinar til þess að sjá, hve nauðalitla þýðingu þessi ákvæði hafa. Þessar venjur, sem hv. þm. er að hampa, að hann hafi haft um hönd meðan hann var bankastjóri, er auðvitað ekkert út á að setja. En enginn lifandi maður veit til þess, að þær hafi orðið þjóðinni til nokkurra sjerstakra heilla eða blessunar.

Það er mjög leiðinlegt að þurfa að vera að tína þetta upp og verja til þess löngum tíma að sýna fram á, hvað þetta nál. er óábyggilegt og fult af blekkingum. Það er furða, að minni hl. skuli leyfa sjer að koma fram með annað eins og það, að jeg hafi færst undan að láta hv. fjhn. í tje upplýsingar um niðurstöðuna af mati því, sem kallað er, að fram hafi farið á Landsbankanum. Það gegnir furðu, að komið skuli fram með slíkt, þar sem þeir hv. þm., sem að þessu nál. standa, vita mjög vel, að hægt er að hrinda þessu alveg samstundis. Sannleikurinn er nefnilega sá, að matsnefndin hefir hingað til reynst ófáanleg til að láta stjórninni í tje skýrslu um þetta mat, sem hún þó að sjálfsögðu hefði átt að gera. Stj. hefir mjög litlar upplýsingar fengið frá nefndinni og getur því engan rökstuddan dóm lagt á þetta mat, og mjer liggur víð að segja, að enn sem komið er geti þetta mat ekki talist annað en markleysa. Þá er talað um það hjer, að niðurstaða matsins sje ekki tekin til greina. En hver er þessi niðurstaða? Hvernig er hægt að taka til greina þá niðurstöðu, sem ekki er til, eða að minsta kosti ekki liggur fyrir? Það er að vísu satt, að nefndin hefir slegið fram allhárri upphæð, sem bankinn muni tapa, og með miklum eftirgangsmunum hefi jeg togað út úr nefndinni, hvernig þetta tap muni skiftast milli bankans sjálfs og útibúanna.

Þá er enn eitt furðulegt atriði í þessu nál., — reyndar á það við um alt nál., að það er hreinasta furðuverk (!) hvað allar ályktanir og röksemdafærslu snertir. Þar segir sem sje, að Landsbankinn hafi engan varasjóð átt í árslok 1926, og hv. minni hl. gerir ekki ráð fyrir, að hann hafi eignast hann heldur á árinu 1927. Jeg álít nú, að þetta fari alveg eftir því, hvernig á málið er litið. Það fer auðvitað eftir, hvernig ráðstafað verður gróða bankans á árinu. (BK: Það var ekki hægt fyrir nefndina að vita). Auðvitað, en þess vegna er þetta líka markleysa. Þá er talað um tvær leiðir til þess að veita bankanum nauðsynlegt öryggi. Í fyrsta lagi að afhenda bankanum fje sem hans eiginlega eign, og í öðru lagi að lána eða ábyrgjast honum nægilegt rekstrarfje. Þetta er auðvitað alveg rjett. — Jeg sje annars ekki annað en að allar ályktanir hv. minni hl. hnígi að því, að alt sje í voða um hag bankans, ef honum sjeu ekki lagðar til þessar 3 miljónir króna. En þessi rök eru alveg úti á þekju.

Jeg hleyp nú framhjá ýmsu, því að það mætti æra óstöðugan að rekja þennan feril allan.

Þá er reynt að gera lítið úr þessari fyrirhuguðu landsbankanefnd og telja hana þýðingarlausa og gagnslausa, meðfram og jafnvel einkum af þeirri ástæðu, að hún eigi að vinna kauplaust. Jeg er nú hinsvegar þeirrar skoðunar, að það sje engu síður hægt að vænta góðs af starfi nefndarinnar af þeirri ástæðu. Þetta á nú aðallega að vera trúnaðarstarf og auk þess mjög lítið starf.

Þá er því haldið fram, að ábyrgðarlausir menn muni standa að baki og hafa sín áhrif á nefndarmennina, sem verði háðir ráðríkum flokkspólitískum ráðh. Annars gengur þetta eins og rauður þráður í gegnum þetta merkilega nál., þetta, að pólitík sje svo hættuleg, að búast megi við öllu illu þar sem hún kemst að. Jeg verð nú að segja, að mjer finst þetta næstum barnalegt hjal og barnaleg hugsun, ef hún væri tekin í alvöru, þetta, að halda, að hægt sje að komast hjá pólitík í þessu máli. Jeg man nú heldur ekki til, að mikið bæri á þessum ótta í fyrra, þegar þessir hv. þm. (JÞ og BK) rjeðu hjer lögum og lofum. Nei, allar þessar miklu umbúðir nægja ekki til þess að hylja hugsunarháttinn og innrætið, sem hv. minni hl. hefir látið stjórnast af í þessu máli.

Þetta er alt vitanlega ekki annað en svæsnasta aðdróttun að stj. og meiri hl. þingsins um, að hann muni misbeita valdi sínu í þessu efni. Og þetta leyfa þessir hv. þm. sjer að koma fram með, þótt þeir hljóti að sjá í hendi sjer, að það hlýtur alt að hrynja til grunna um leið og hróflað er við því. Það er í raun og veru bæði broslegt og sorglegt um leið, að nú skuli vera komið fram með aðra eins fjarstæðu og þessa, einungis af því, að nú eru aðrir menn teknir við stjórn landsins.

Þá taldi hv. frsm. minni hl., að mjög mikil trygging væri í því ákvæði, sem honum tókst að koma inn í lögin á síðasta þingi, að enga ákvörðun mætti taka í bankanum, ef einn bankastjórinn væri mótfallinn henni. (BK: Það er ekki svo orðað). En þetta gæti auðveldlega orðið til þess, að enga ákvörðun væri hægt að taka í bankanum, eða með öðrum orðum, að minnihlutavald væri skapað.

Svo þetta, að fjarverandi bankastjóri beri ábyrgð á því, sem fram fer í fjarveru hans, nema því aðeins, að hann skrifi athugasemd um það í dagbókina, er hann kemur heim. — Jeg tek þessi atriði aðeins til dæmis um það, hvað hugleiðingar hv. minni hl. eru allar í molum og standast enga gagnrýni. Þá átti það að vera ákaflega mikið atriði, að hafa einn aðalbankastjóra, en jeg gerði því þau skil á síðasta þingi, að jeg læt nægja að vísa til þess, sem jeg sagði þá um það atriði. Það er varla hægt að lesa yfir eina málsgrein í þessu nál. án þess að sjá djöfulinn alstaðar málaðan á vegginn; alstaðar kemur fram þessi mikli ótti við það, að ráðríkur flokksrh. hafi alt í sinni hendi. Jeg veit ekki, hvort þessi mikli ótti stafar af því, að jeg nú gegni þessu starfi í bili, en jeg get ekki betur sjeð en að hættan hafi verið alveg sú sama meðan hv. 3. landsk. (JÞ) var fjmrh. Jeg álít, að hvorugur okkar muni beita sjer svo þrælslega sem nál. gerir ráð fyrir.

Jeg get ekki verið að eyða orðum um svo lítið atriði eins og það, að frv. gerir ráð fyrir aðeins einum gjaldkera; jeg geng framhjá því að þessu sinni. Yfirleitt er í nál. samandregin sú hugsun, að núverandi þingmeirihluta og núverandi stj. sje á engan hátt treystandi til að ráða þessu máli til farsælla lykta. Jeg skal nú ekki fjölyrða um þessa hugsun, en hún virðist vera bygð á veikleika, sem ekki sje ástæða til að taka alvarlega. Eins og jeg tók fram í upphafi, var það tilætlun mín og von, að flokksmenn mínir og samherjar mundu líta svo á, að allar málalengingar væru tilgangslausar og óþarfar. Hv. frsm. meiri hl. (JBald) gerði nána grein fyrir þeim væntanlegu breytingum á bankalögunum, sem hjer er um að ræða, og þetta mál hefir verið svo þaulrætt á undanförnum þingum, að menn ættu að vera búnir að átta sig á, hvernig það liggur fyrir. Jeg skil því ekki fullkomlega ástæðuna til þess, að hv. frsm. minni hl. (BK) kom fram með ósk um það, að atkvgr. yrði frestað um málið. Jeg sje satt að segja enga ástæðu til þess. Jeg sje ekki, að það sje nema augnabliksverk að átta sig á þessu nál. hv. minni hl., og jeg fyrir mitt leyti er reiðubúinn til að ganga til atkv. um málið nú þegar.