23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4416 í B-deild Alþingistíðinda. (3801)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg gat þess við 2. umr., að jeg geymdi mjer til 3. umr. að gera að umtalsefni eitt af þeim atriðum þessa frv., sem jeg taldi óhjákvæmilegt að minnast á, og það er um breytingar þær, sem frv. fer fram á að gera á skipun núverandi bankaráðs.

Sú grein, 21. gr., sem um þetta hljóðar í upphaflega frv., var þannig samin, að hún er ekki í samræmi við önnur ákvæði frv. Í þessari grein er gert ráð fyrir því, að kosning í bankaráðið fari fram á Alþingi 1928, en annarsstaðar í frv. er gert ráð fyrir, að Landsbankaráðið kjósi í það. Var því ekki gott að vita, hver tilætlunin var. En nú hefir meiri hl. borið fram brtt. við 21. gr., og er það 5. brtt. á þskj. 477. Eftir henni á að kjósa 15 manna Landsbankanefnd á Alþingi 1928, og þegar þessi lög eru gengin í gildi á að kveðja nefndina á fund og á hún þá að kjósa fjóra menn í bankaráðið, en ráðherrann á að tilnefna formann í ráðið.

Bankaráðið var sett á laggirnar með lögum 1927 og samkv. ákvæðum þeirra laga hefir bankaráðið verið fullskipað, og allir mennirnir eru skipaðir til ákveðins tíma. Af 4 þingkjörnum bankaráðsmönnum eru 2 kosnir til 4 ára og 2 til 2 ára, en hinn stjórnskipaði formaður til 3 ára. Nú stendur hvergi neitt um það í frv., að umboð þessara bankaráðsmanna eigi að falla niður, er frv. verður að lögum. Þegar nú litið er á þessa þögn og ákvæði 21. gr., finst mjer, að þetta verði ekki samræmt öðruvísi en á þann hátt, að ákvæði 21. gr. komi til framkvæmda jafnóðum og sæti losnar í bankaráðinu.

Jeg hafði samt grun um, að sú væri tilætlunin, að sópa núverandi bankaráðsmönnum út úr bankaráðinu, og því vildi jeg ekki taka þetta atriði til ítarlegrar meðferðar fyr en jeg hefði heyrt skilning hæstv. fjmrh. á frv. með brtt. meiri hl. nefndarinnar. Og hvernig er svo sá skilningur?

Hæstv. fjmrh. telur það svo sjálfsagt, að bankaráðsmenn þeir, er Landsbankanefnd kýs og stjórnin skipar eftir brtt. meiri hl., taki sæti strax í bankaráðinu, að hann telur spurninguna óþarfa með öllu (Fjmrh. MK: Ekki er þetta alveg rjett). Það skyldi gleðja mig, ef svo væri ekki. Það má vel vera, að spurningin hafi verið óþörf, því að hv. frsm. meiri hl. hafði lýst ótvírætt yfir því, að hann teldi til einskis að taka upp Landsbankanefnd án þess að skifta um bankaráð. Jeg mun því að sinni beina máli mínu til hv. frsm., nema því aðeins, að hæstv. fjmrh. telji sig samþykkan honum.

Það mun vera einhver hin viðurkendasta grundvallarregla stjórnmálalegs siðferðis, að þótt skifti um menn á löggjafarþingi, þá haldi þingið áfram að vera ein og samfeld stofnun. Því verður að gera þær kröfur til Alþingis, að hver sú skuldbinding, sem það tekst á hendur gagnvart einhverjum öðrum, eigi að standa, hvaða mannaskifti sem kunna að verða þar við kosningar. Nú stendur svo á hjer, að ákvæðin um bankaráðið frá síðasta þingi eru bindandi gagnvart tveim aðiljum: Landsbankanum, sem fær ákveðna menn í ákveðinn tíma, og gagnvart þessum sömu mönnum. Jeg efast um, að þing eða stjórn geti skift um þessa menn á löglegan hátt, áður en tími þeirra er útrunninn, en jeg er ekki lögfræðingur, og skal því ekki fullyrða um það. En jeg teldi það óverjandi hneisu, ef víkja á frá þeirri reglu, að Alþingi sem stofnun standi við gerðir sínar, sem eru bindandi gagnvart öðrum aðilja.

Það er rjett, að löggjafarvaldið getur breytt lögum og að lögin eiga að gilda jafnt fyrir alla, en þó eru til undantekningarákvæði. Sum lög gefa tilteknum mönnum eða stofnunum rjett, sem ekki verður af þeim tekinn með nýjum lögum; löggjafarvaldið getur ekki fremur en aðrir riftað gerðum samningum milli sjálfs sín og annara.

Hvað sem nú lagahliðinni viðvíkur og hvort sem þessir menn hafa öðlast þennan rjett með lagasetningunni og kosningunni eða skipuninni frá 1927 eða ekki, þá get jeg ekki sjeð, að Alþingi geti verið þekt fyrir það tiltæki, sem kallast myndi óorðheldni hjá einstaklingum. Jeg vona fastlega, að Alþingi láti sig ekki henda þá ósvinnu, sem farið er fram á í nál. meiri hl., eftir því sem hv. frsm. skýrði frá og hæstv. fjmrh. virtist fallast á.

Þá er að líta á 5. sætið í bankaráðinu, formannssætið. Enginn munur er á frv. og gildandi lögum um þetta efni, nema eftir frv. á að skipa formanninn til 5 ára, en eftir lögunum frá 1927 til 3 ára. — Raunar er einnig sá orðamunur, að í lögunum segir, að „ríkisstjórnin“ eigi að skipa formanninn, en í frv. segir, að sá „ráðherra, sem fer með bankamál“, eigi að gera það. En á þessu er alls enginn efnismunur. — Nú liggur fyrir brtt. frá hv. meiri hl. um að færa þetta til sama horfs og í gildandi lögum er, að bankaráðsformaðurinn sje skipaður til 3 ára. Ef þessi brtt. verður samþykt, gerir frv. enga breytingu á skipun formanns bankaráðsins. Sami aðili á að skipa hann og til sama tíma.

Þó að mannaskifti verði í stjórninni, verður hún að muna, að eftir sem áður heldur hún áfram að vera sama stofnun. Hún er eftir sem áður stjórn landsins, og það, sem ein stjórn hefir gert og er bindandi gagnvart einhverjum öðrum aðilja, verður næsta stjórn að halda, þótt hún sje því ekki samþykk að efni. Því geta formannsskifti í bankaráðinu ekki átt sjer stað, fyr en skipunartími núverandi formanns er útrunninn, nema hann leggi niður embætti sitt af sjálfsdáðum. En þá á varamaður hans að taka við og stjórnin að skipa nýjan varamann. (JBald: Það er þá þessi maður, sem hefir allan rjettinn, en ríkið engan). Svona er búið að ráðstafa þessu um þennan tilsetta tíma. Og jeg vil ekki, að þeim sið sje komið á, að ný stjórn þurfi ekki að standa við skýrar skuldbindingar fyrri stjórnar gagnvart mönnum og stofnunum. Sumar slíkar ráðstafanir mundu ekki standast fyrir dómstólunum. Jeg skal ekki fullyrða, hve dæmt yrði um þetta, sem hjer um ræðir, því að jeg er ekki lögfræðingur. En jeg fullyrði, að það gerir stjórnina ómerkari en hún á að vera og má vera, ef tekin er upp slík brigðmælgi á gefnum loforðum, sem hjer er um að ræða.

Hv. frsm. meiri hl. flutti hjer smápistil um pólitík. Hún væri alstaðar fyrir, svo að það væri ekki annað en tilgangslaus uppgerðarvandlæting að tala um, að hún mætti ekki komast alstaðar að. Hann viðurkendi, að mjer skildist, að þessi ákvæði frv. eru flutt til þess að ná í hendur núverandi stjórnarflokki meiri völdum í bankaráðinu en hann getur haft samkv. gildandi lögum og þeim kosningum og útnefningum, sem fram hafa farið eftir þeim á síðastl. ári. Jeg verð að segja, að mjer þætti fara vel á því, að bæði þessir menn og aðrir kynnu pólitískum kröfum sínum nokkurt hóf. Það lítur ekki vel út, ef menn eru svo óðfúsir að jötunni, að þeir þola ekki að doka við, þangað til þeir eru farnir frá, sem komnir eru að einhverjum starfa samkvæmt ákvæðum, sem ágreiningslaust voru samþykt á síðasta ári. Því að það, að kjósa bankaráðsmenn til 2 og 4 ára, var samþykt ágreiningslaust af hálfu núverandi stjórnarflokka, og eins það, að skipa formanninn til þriggja ára. Í stjfrv. var lagt til, að hann væri skipaður til 5 ára, en því var einmitt breytt samkv. till. þáverandi stjórnarandstæðinga í 3 ár. Með þessu hlaut þeim að vera ljóst, að þeir gerðu ómögulegt að skifta um menn í bankaráðinu fyr en 1929, er tveir menn ganga úr því, 1930, er formaður á að ganga úr, og 1931, er tveir síðari bankaráðsmennirnir eiga að fara frá.

Mjer væri í sjálfu sjer alveg sama, þótt núverandi stjórnarflokkur fengi meiri hluta í bankaráðinu. En mjer stendur ekki á sama, þótt tekin sje upp sú stjórnarvenja að brjóta niður lögleg verk fyrri stjórna og þinga. En það virðist mjer gert, ef svo á að skilja þetta frv. sem hv. frsm. meiri hl. túlkáði það. Jeg álít það sjerstaklega þýðingarmikið, að Alþingi og stjórn standi við öll gefin loforð, a. m. k. svo lengi sem ekki er vjefengt, að loforðin sjeu löglega gefin. Ef einhverri stjórn verður það á að gefa loforð út í framtíðina, sem ekki eru lögum samkvæm, eða fara þjóðfjelaginu til óhagræðis út yfir heimildir stjórnarinnar, þá verður að vega það hverju sinni, hvort þau beri að halda. En til þess verður jafnan að taka fult tillit, að virðing hvers ríkis heimtar, að staðið sje við stjórnarloforð. Þetta á við, þegar ræðir um skipun trúnaðarmanna ríkisins ekki síður en um önnur loforð. Það má alls ekki koma fyrir, að slíkum skipunum sje riftað án þess að hlutaðeigandi maður hafi gert eitthvað fyrir sjer. Slíkar athafnir mundu varpa yfir stjórn landsins svip óheiðarleika og óáreiðanleika, sem ekki er við unandi. Á okkur, sem skipað höfum stjórn landsins síðan Ísland varð sjálfstætt ríki, hvílir enn meiri ábyrgð í þessu efni heldur en á öðrum. Á okkur fellur sá vandi að mynda stjórnarvenjur þær, sem framvegis á að fara eftir. Því verðum við ekki aðeins að bera ábyrgð á okkar eigin mistökum, heldur og á þeim mistökum í framtíðinni, sem orsakast af því, að við höfum farið út á villistigu. Reynslan hjer í Norðurálfu hefir og orðið sú, að því landi hefir vegnað best í stjórnarfarslegu tilliti, þar sem lagabókstafirnir eru fæstir, en stjórnarvenjurnar fastastar. Á jeg þar við Stóra-Bretland, sem ekki hefir einu sinni neina skrifaða stjórnarskrá, en stjórnarskipunin hvílir að öllu leyti á gömlum og góðum venjum. Framkvæmd þessa verður auðveld í því landi, þar sem öll þjóðin, hverjum flokki sem hver einstaklingur tilheyrir, telur sjálfsagt að hlýða fornum stjórnarvenjum í hverju einasta máli. — Við höfum hjer það hlutverk, að skapa þær góðu venjur, sem eftir megi fara í framtíðinni. Orðheldni er eitt af því, sem mest á ríður og síst má vanta hjá þingi og stjórn. Vona jeg, að hver sem forlög þessa frv. annars. verða, verði samkomulag um að fella niður 21. gr. Eins og hún er í frv. getur hún ekki staðist, og sama er að segja um hana, þótt brtt. hv. meiri hl. sje samþ. sje greinin feld niður, er öldungis ljóst, hvernig á að haga kosningum í bankaráðið. Jafnóðum og núverandi meðlimir þess hverfa úr því, kýs landsbankanefndin menn í þeirra stað, og landsstjórnin skipar nýjan formann, þegar kjörtímabil hins núverandi er útrunnið.