23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4431 í B-deild Alþingistíðinda. (3803)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg ætla aðeins að minnast nokkrum orðum á örfá atriði í ræðu hv. 1. þm. G.-K. Hann hafði eftir mjer nokkur ummæli, er hann kvað mig hafa haft við 2. umr. þessa máls.

Jeg hafði við 2. umr. sagt það frá sjálfum mjer, að mjer fyndist það vel geta komið til mála að hafa ríkisábyrgð á skuldbindingum Landsbankans, en jeg sló því fram um leið, að jeg vissi, að hjátrúin á gullið væri svo rík, að ekkert mundi þýða að bera fram till. f þá átt. Jeg sló þessu aðeins fram utan við efnið, en hv. frsm. minni hl. hefir víst tekið þetta svo, — að minsta kosti sagði hann frá því svo —, að það væri eins og meiri hl. teldi ríkisábyrgð alveg nóga fyrir bankann. En eins og jeg hefi þegar tekið fram, sló jeg þessu aðeins fram sem hugmynd frá sjálfum mjer, en ekki sem atriði í brtt. við Landsbankalögin. (BK: Það er gott að trúin á gullið stendur). Jeg held, að það hafi ekki verið svo ýkjamargt fleira, sem tekur að svara í ræðu hv. frsm. minni hl. Hann var með nokkur köpuryrði til mín, en jeg get alveg leitt hjá mjer að svara þeim.

Hv. frsm. hefir altaf misskilið það, sem við köllum viðbótarstofnfje í stað „Stofnfje“, og nenni jeg ekki að vera að fara frekar út í það, með því líka að tími er takmarkaður.

Hv. 3. landsk. ljet svo dólgslega við 2. umr. þessa máls, að það leit út fyrir, að menn mættu búast við heljardembu frá honum næst þegar bankamál bæri á góma hjer í deildinni. En það varð lítið úr þessu hjá honum, eins og við var að búast, því að það, sem hann sagði hjer í dag, var að mestu leyti uppsuða úr því, sem hann sagði við 2. umr. Hann reiddi hátt til höggs, en úr varð hið mesta vindhögg, svo sem vonlegt var og við mátti búast, þar sem málstaðurinn var slíkur sem hann var.

Það er ákaflega hlægilegt að heyra hann ásaka núverandi þingmeirihluta fyrir það, að hann skuli vilja koma fram áhugamálum sínum, því að jeg held, að flestir muni segja, að hv. 3. landsk. og hans flokkur hafi reynt slíkt hið sama eftir megni, þegar hann var í meiri hluta. Hjer er ekki um neinar nýjar tillögur að ræða, heldur aðeins þær sömu, sem sömu menn hjeldu fram hjer í fyrra. Það er því alt tómt mas, sem hann sagði um þessar fyrirhuguðu breytingar á bankanum, þar sem hann kallaði þær „óverjandi“, „óorðheldni“, „blett á Alþingi“ o. s. frv.

Þá segir hann, að bankaráðið sje skipað samkv. núgildandi lögum, og efast því um, að hægt sje að skipa nýja menn í það nú eftir nýjum lögum. En þetta er herfilegur misskilningur hjá honum. Jeg veit ekki annað en að þingið geti breytt gildandi lögum. Það hefir margoft breytt einmitt Landsbankalögunum; t. d. má nefna þá breytingu, sem gerð var á þeim 1917. Og yfirleitt er þetta svo algengt í löggjöfinni, að það er óþarfi að nefna þess dæmi, þótt þau mætti fjölmörg finna.

Það, sem hv. 3. landsk. sagði um „pólitík“ í þessu sambandi, tekur enginn alvarlega. Það er svo fjarstætt, að hann skuli vera að finna að því, að núverandi meiri hl. skuli halda fram því sama, sem hann hefir áður haldið fram. Það hefði ef til vill heldur verið ástæða til þess fyrir hann, ef meiri hl. hefði fallið frá fyrri skoðunum sínum, því að það hefði verið aðfinsluverður heigulsskapur.

Jafnfjarstætt er það, sem hann heldur og fram, að alt, sem Alþingi gerir, sje bindandi fyrir það um allan aldur gagnvart mönnum. (JÞ: „Alt, sem Alþingi gerir og er bindandi“, sagði jeg). Fyrst hv. 3. landsk. vill orða það svo, þá lítur út fyrir, að gerðir þingsins sjeu aðeins bindandi gagnvart vissum mönnum, þegar bær koma fram sem nokkurskonar samningur við menn, eins og þegar prófessor Guðmundur Finnbogason er skipaður með nafni í landsbókavarðarstöðuna. En ekkert slíkt er um að ræða í þessu máli. Ákvæðið í Landsbankalögunum er algerlega ópersónulegt. Það segir ekki, að Sigurður Briem, Magnús Jónsson, Jón Árnason o. s. frv. skuli skipaðir í bankaráðið. Ef því þessu ákvæði bankalaganna er breytt, þá falla þessar skipanir niður jafnskjótt og ný lagaákvæði þeim viðvíkjandi ganga í gildi. Þetta er rjettur og vald þingsins, að breyta með löggjöf stjórn þeirrar stofnunar, sem það ræður yfir.

Þá talaði hv. 3. landsk. um, að það, sem ein stj. hafi gert og sje bindandi gagnvart einum aðilja, það verði næsta stjórn að halda. Þetta segir hv. 3. landsk., þótt það hafi komist upp um hann, að hann hefir brotið þau loforð, sem næsta stjórn á undan honum hefir gefið, og það enda þótt sami maður, sem þessi loforð gaf, væri enn í stj., og meira að segja forsrh.

Jeg skal ekki fara frekar út í það atriði nú, en aðeins benda á dæmið um Hjeðin Valdimarsson og ráðningu hans sem embættismanns við hagstofuna.

Jeg hefði gjarnan viljað fara nánar út í ýmislegt, sem hv. 3. landsk. sagði. Jeg hefi aðeins drepið á það, sem gekk eins og rauður þráður gegnum alla ræðu hans, sem sje það, að hann vildi neita Alþingi um rjett til þess að breyta Landsbankalögunum með nýrri löggjöf, og skipa þar með nýja framkvæmdarstjórn. Háttv. 3. landsk. veit þó, að valdið til þessa er í höndum Alþingis, og hann veit ennfremur, að hver þingmeirihluti neytir valds síns til þess að koma fram því, sem honum er hugleikið og hann telur rjettast. Og hjer er ekki um neinar nýjar uppfyndingar að ræða, heldur má skírskota til þess, að núverandi meiri hluti, sem í fyrra var minni hl., hjelt í fyrra fram því sama og hann heldur nú fram, og sama er auðvitað að segja um minni hlutann nú, sem þá var meiri hluti. En það er auðvitað hægt að skilja gremju hv. 3. landsk., sem kemur af því, að hann hefir ekki fyllilega áttað sig á því ennþá, og því síður sætt sig við það, að hann er nú í minni hluta og ræður ekki lengur lögum og lofum hjer á Alþingi.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í ræður þeirra hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. G.-K., enda tók hæstv. fjmrh. þær til svo rækilegrar meðferðar. Jeg vil heldur ekki nota tækifærið og fara rækilega út í það, svo sem verðugt væri, að rifja það upp, hvernig hv. 3. landsk. misbrúkaði það vald, sem honum var falið á sínum tíma. En hæstv. forseti hjelt fundinum áfram í því trausti, að þetta yrði stutt hjá mjer, og skal jeg því ekki hafa það lengra í þetta sinn.