23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4435 í B-deild Alþingistíðinda. (3804)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. þá, er hæstv. forseti hefir þegar lesið upp, og vænti þess, að hæstv. stjórn og hv. deild leyfi henni að komast að.

Eins og nú hagar til, eru 3 fastir starfsmenn í Landsbankanum auk bankastjóranna þriggja: aðalfjehirðir, bókari og fjehirðir. Eftirleiðis á að vera aðeins einn fjehirðir við bankann. En í 23. gr. frv. er svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði: „Jafnskjótt sem núverandi bókari og aðalfjehirðir láta af störfum sínum, fer um ráðningu manna í staðinn eftir ákvæðum laga þessara.“ Með öðrum orðum er hjer sleginn varnagli við því, að ákvæði laganna taki til aðalfjehirðis og bókara, en þriðja fasta starfsmanninum er slept. Það hlýtur að vera athugaleysi, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að þeir, sem um þetta hafa fjallað, hafi viljað gera mun á þessum starfsmönnum. Því tel jeg rjett að bæta aftan við 23. gr. þessari setningu: Staða fjehirðis helst óbreytt meðan núverandi fjehirðir gegnir henni. Að öðru leyti ætla jeg ekki að blanda mjer inn í umræðurnar um þetta mál. En jeg tel þetta svo sjálfsagt ákvæði, að jeg skil ekki í, að nokkur hafi neitt við það að athuga.