23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri opin leið um útvegun stofnfjár, en það er ekki svo eftir stjfrv. Það er beinlínis lagt til að fella hið nýja stofnfje burt, og þótt fram komi brtt. um að heimila þeirri stjórn að leggja til stofnfje, sem sjálf hefir farið fram á að fella það í burtu, þá hefi jeg ekki mikla trú á, að sú stjórn noti heimildina; uppástunga hennar bendir ekki í þá átt.

Hv. 5. landsk. reyndi að færa nokkur dæmi þess, að það hefði verið gert eitthvað líkt eins og sú afsetning bankaráðsmannanna, sem nú er áformuð, en það er ekkert hliðstætt til.

Að því er skipagjöldin snertir, vil jeg benda á, að jeg hafði þegar látið í ljós þann skilning minn, að ríkissjóður ætti þessar tekjur, en ekki þeir embættismenn, sem innheimtu þessi gjöld, og í minni uppástungu er þess vegna ekki farið fram á annað en að slá föstum mínum skilningi, og eftir minni skoðun var ekkert tekið af þeim.

Um að taka stimpilmerkjagjaldið af lögreglustjóranum í Reykjavík er það að segja, að til þess hafði hann engan rjett, því að það er aðeins heimild fyrir stjórnina til að greiða þessi 2%, og sú heimild getur ekki gefið neinum embættismanni rjett til að krefjast þeirra, og því er ekki verið að taka neitt af neinum með því.

Það var breytt um laun hjá sambandslaganefndinni. Laun hennar eru ákveðin í fjárlögum, og þinginu er vitanlega heimilt að setja aðrar upphæðir í ný fjárlög heldur en þær, sem staðið hafa í eldri fjárlögum, ef engir aðrir gerningar eru til um það, hvaða upphæðir það eigi að vera. Loks vísaði hv. þm. til þess, að embættin kynnu að verða lögð niður, og ef farið væri fram á það, þá gætu bankaráðsmennirnir ekki kvartað neitt yfir því. Jeg veit ekkert um það, hvort þeir myndu fara í mál út af því, en jeg vil benda á, að ef það yrði framkvæmt, sem nú er verið að lögleiða, þá yrði hið opinbera skaðabótaskylt, en þetta, að það bakar fremjandanum skaðabótaskyldu, sýnir, að hjer er verið að fara fram á að fremja það, sem er óhæfa fyrir jafnvirðulega stofnun og löggjafarþing hverrar þjóðar er.