26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil aðeins minna á það, að þetta mál hefir verið hjer fyrir þrem þingum áður og að það eru að mestu leyti sömu atriðin, sem hjer liggja fyrir og þrautrædd hafa verið áður á þessum þrem þingum. Þetta er 1. umr. málsins, og mjer finst, að vel megi vísa því til 2. umr. og nefndar umræðulaust, eða a. m. k. tafalaust, því að það virðist alveg óþarft að hafa langar umræður um þetta mál, áður en það fer til nefndar. Jeg vildi því aðeins beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann hjeldi áfram þar til umr. er lokið.