26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4471 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

103. mál, Landsbanki Íslands

Sigurður Eggerz:

Eins og jeg tók fram áðan, hefði jeg mjög óskað þess, að umr. um þetta mál hefðu farið fram á öðrum tíma heldur en nú um miðja nótt. Og að jeg fór þess á leit, var af því, að jeg er sannfærður um, að þetta er eitthvert stærsta mál þjóðarinnar. Jeg get ekki látið hjá líða, úr því jeg tala hjer, að minnast á það, sem jeg hefi oft sagt áður hjer á Alþingi, að jeg er sannfærður um, að því miður er ekki ennþá búið að leggja hinn rjetta grundvöll undir peningamál þjóðarinnar. Ljósast dæmi þess er það, að eftir að samþ. hafa verið lög um seðlabanka, skuli eftir eitt ár vera komið með jafnstórvægilegar breytingar og hjer eiga sjer stað. Jeg skyldi nú ekki gráta, þó gerðar væru breytingar á þessu máli, ef þær færu í þá átt, að með þeim væri lagður hinn rjetti grundvöllur undir þessi mál; en því er nú ekki að heilsa.

Jeg skal nú að vísu ekki fara út í gamlar deilur, því jeg býst ekki við, að það verði til neins gagns fyrir þann málstað, sem jeg og fleiri höldum fram, að sje sá rjetti. En mjer finst þó rjett að minna á, að það muni hefna sín að ganga á móti erlendri og íslenskri reynslu í þessu máli. En það hefir verið gert í bankamálinu. Því það er nú svo samkvæmt yfirlýsingum allra þeirra erlendra sjerfræðinga, sem spurðir hafa verið, að framþróunin er sú erlendis, að seðlabankinn verður meir og meir banki bankanna. Jeg hefi heyrt, að koma myndi frá hæstv. forsrh. till. um að koma á fót fasteignaveðbanka, og jeg verð að segja, að það gleður mig. En þó hefði jeg glaðst meira, ef hún hefði komið á þeim rjetta tíma og að þessi banki hefði verið í sameiningu við seðlaútgáfuna. (MG: Þetta verður eingöngu landbúnaðarbanki. — Forsrh. TrÞ: Landbúnaðarbanki fyrst og fremst).

Jeg get vel ímyndað mjer, að þessi breyting, sem nú kernur fram, strax eftir eitt ár, stafi einmitt af því, að undir niðri sjeu menn óánægðir. En eitt er víst, að með þessum breytingum, sem nú er farið fram á, er ekki verið að bæta úr kórvillunni, sem gerð var í þessu máli í fyrra, heldur síður en svo.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um þá miklu hættu, sem stafaði af ríkisábyrgðinni, því hún mundi leiða til þess, að fje streymdi að Landsbankanum frá öðrum bönkum og sparisjóðum. En hvað skapast upp úr því? Hrein bankaeinokun. En af öllum einokunum, svo slæmar sem þær eru, er hún þó sú langhættulegasta. Jeg skal í þessu sambandi geta þess, að jeg sá nýlega í erlendum blöðum, þar sem aðstaða Landmandsbanken var gerð að umtalsefni, að Handelsbanken hafði verið spurður að því, hvernig hann liti á þetta mál. Svar hans var á þá leið, að hann áliti nauðsynlegt að halda Landmandsbanken uppi, því að það væri of lítið að hafa aðeins 2 einkabanka í Danmörku. Við það mundi skapast of mikil einokun í peningamálum þjóðarinnar og þess vegna mættu þeir ekki vera færri en 3. Þetta sýnir, hvað mikil áhersla er lögð á það, þar sem menn eru vel þroskaðir í þessum efnum, að ekki sje einokun í bankamálum.

Eitt er það, sem jeg hygg, að við getum allir verið sammála um, og það er það, að skapa þann frið utan um þennan banka og láta hann hafa þá kyrð í kringum sig, sem honum er nauðsynleg. Síðasta þing ákvað, að ríkissjóður skyldi ekki bera ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum bankans, og er jeg því alveg samþykkur. Því ef bankinn á að verða seðlabanki, eins og alt útlit er fyrir, þá verður að fara aðra leið. Þá verður að láta hann hafa svo mikið starfsfje sem hann þarf, svo að hann geti orðið sterkur banki, banki, sem óhætt er að treysta á. Jeg er sannfærður um það, að höfuðatriðið fyrir hvern Seðlabanka er það, að andrúmsloftið sje sem hreinast kringum hann. Og jeg held, að það yrði ekki til mikillar hamingju fyrir bankann, ef farið væri að setja á hann þetta stóra höfuð, sem nú er gert ráð fyrir.

Með því að þessi umr. er 1. umr., tala jeg aðeins alment um málið, en fer ekki neitt út í einstök atriði. Það verður auðvitað látið fara til nefndar, og þá vísast til fjhn. Jeg veit nú ekki, hvað hv. form. hennar segir, en mjer fyndist mjög hyggilegt, að bætt væri 2 mönnum í nefndina, þar sem um svo mikilsvert mál er að ræða og mikið er undir komið, að tekið sje þeim rjettu tökum. Og með því að þingtíminn fer að styttast og þm. hafa áhuga á því að flýta þinginu, þá fyndist mjer mjög æskilegt, að þessi fjölgun ætti sjer stað, svo málið yrði íhugað sem fljótast og best.

Það er mikill misskilningur, ef einhver hefir ætlað, að ástæðan til þess, að jeg óskaði þess í kvöld, að þetta mál yrði ekki rætt nú, væri sú, að jeg vildi draga þingið á langinn. Það hefir mjer aldrei dottið í hug, og jeg hygg, að fáir hafi jafnmikinn áhuga og jeg á því, að þinginu ljúki sem fyrst. En jeg verð að segja það, að mjer virðist það skifta miklu, að virðing sje borin fyrir ýmsum góðum venjum, sem ráðið hafa hjer á þingi. Ein þeirra er sú, að sýna stórmálum þjóðarinnar svo mikla virðingu að ræða þau ekki þegar aðeins eru 3 til 4 þingmenn viðstaddir. Það er meira að segja farið að tala um það hjer í þessum bæ, að það sje merkilegt þing, er nú sitji, því ef maður komi þangað, sjáist í hæsta lagi 3–4 þm. í salnum. Hvað mundi þá verða sagt, ef þannig er ástatt, þegar verið er að ræða stórmál þjóðarinnar?