26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

103. mál, Landsbanki Íslands

Sigurður Eggerz:

Nú er komið fram á nótt og allir vilja sem fljótast komast heim, verð jeg því að tala lauslegar um þá hluti, sem mjer liggja á hjarta í þessu máli, en ella mundi. Neyðist jeg til í þessari ræðu minni að grípa aðeins á nokkrum höfuðatriðum, sem ræða hv. 1. þm. Reykv. gaf tilefni til.

Mjer þótti vænt um að heyra það frá hv. 1. þm. Reykv., að hann viðurkennir, að framþróunin í bankamálum væri sú, að seðlabankinn væri meir og meir að verða bankanna banki. Sjerfræðingum kemur öllum saman um og telja engan vafa á, að framþróunin fari öll í þessa átt. En hv. þm. segir, að þetta sje að vísu rjett, að seðlabankinn sje annarsstaðar að verða bankanna banki, en við sjeum hinsvegar ekki komnir ennþá á það stig í framþróuninni, að ástæða sje til fyrir okkur að taka upp það fyrirkomulag.

Jeg verð nú gagnstætt þessu að halda því fram, að við verðum að leitast við að haga okkar bankamálum eftir því fyrirkomulagi, sem við teljum best í heimi, og hagnýta okkur alla þá reynslu, sem við sjáum, að þær þjóðir, sem lengst eru komnar, hafa í þessum málum. Það hefir verið tekið fram, að engum dytti í hug að fara að taka upp aftur til fiskiveiða seglskip eins og þau, sem notuð eru í Færeyjum, og leggja niður togarana. En nákvæmlega það sama er farið fram á hjer með því að koma á þessu úrelta fyrirkomulagi, sem menn hafa fyrir löngu horfið frá annarsstaðar.

Ástæðurnar, er vjer færðum gegn því að gera Landsbankann að seðlabanka, eru kunnar. Hann ávaxtar mikið sparisjóðsfje og er bygður yfir mikil áhættuviðskifti. Og enn eru fleiri ástæður, sem ekki er hjer tími til að ræða um.

Jeg hafði minst á það í ræðu minni áðan, að það hefði verið æskilegt að hafa seðlaútgáfuna í sambandi við fasteignabanka. Væri þá nokkurskonar persónusamband milli seðlabankans og fasteignabankans, þannig að seðlabankastjórnin gæti um leið stýrt fasteignabankanum. Á fáu er meiri þörf nú en að koma fasteignalánum í gott horf og fast. Það verður ekki gert á annan hátt betur en koma öllum fasteignalánum undir einn hatt.

Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki vilja gera upp á milli þeirra ýmsu erlendu bankafræðinga, sem spurðir voru álits.

En þó var einn erlendur sjerfræðingur, sem hv. þm. hrósaði sjerstaklega. Og það er norski bankastjórinn Rygg. Hann er ákaflega mikill og merkilegur fjármálamaður og hefir mjög mikla þýðingu fyrir sitt land. En það er einkennilegt við umsögn hans, að þegar hún er lesin niður í kjölinn, kemur það berlega í ljós, að í þeim hlutum norska ríkisins, þar sem bankamálin eru lengst komin, þá er það að sýna, að seðlabankinn er bankanna banki.

Með því að nú líður á nóttina, vil jeg ekki lengja umræður meira en alveg nauðsynlegt er, og mun jeg því ekki fara eins ítarlega inn á þetta efni og jeg í raun og veru æski. Verð jeg að láta mjer nægja að drepa á það, sem óhjákvæmilegt er.

Jeg verð að minna á það glögga rit, sem hæstv. forseti (BSv) ritaði um bankamálið. Og mig langar til þess að biðja hv. deildarmenn áður en þessari umr. er lokið að kynna sjer þá glöggu grein, sem hann gerir þar fyrir afstöðu sinni. Það er í raun og veru það sorglegasta í þessu máli að þurfa að horfa upp á, að þeir menn, sem hafa sett sig vel inn í þetta mál og kynt sjer það svo sem þeir hafa getað, skuli vera ofurliði bornir, að þurfa að horfa upp á, að hjer á hv. Alþingi skuli vera gengið beint á móti þeirri reynslu, sem fengin er, ekki aðeins erlendri, heldur og okkar eigin innlendu reynslu í þessum efnum.

Jeg held það eigi ekki við að tala alt of langt mál um einstök atriði við þessa umr. Að því er snertir það atriði, sem hjer hefir verið vakin eftirtekt á, að nefnd manna hefir rannsakað hag bankans, en álit þeirrar nefndar hefir enn ekki verið látið uppi, þá vil jeg bíða að tala um það, þar til jeg heyri umsögn hæstv. fjmrh., sem ekki er staddur hjer í deildinni. En mjer þykir rjett að benda á, að jeg hefi sem ráðherra komið því í gegnum þingið, að settur var bankaumsjónarmaður. Það vakti fyrir mjer með því, að heppilegt væri, að til væri maður með bankasjerþekkingu, er gæti hvenær sem er rannsakað ástand bankanna án þess að það vekti óróa og umtal. Á þann hátt ætti að vera hægt að fá sem tryggasta vitneskju um hag banka á hverjum tíma án þess að þurfa að vekja ókyrð út af því. Áreiðanlega verður það aldrei tekið nógu oft fram, hve óhemju mikla þýðingu það hefir fyrir peningastofnanir, að menn kunni að umgangast þær. Það er hálft líf hvers banka að fá að vera í friði. Það er áreiðanlegt, að bankar í þessu landi fengju að vera í friði fyrir öllu umróti, ef skilningur á því væri nógu djúpur, hvaða þýðingu bankar hafa og hvaða hlutverk þeim er ætlað að vinna; ef menn vissu, að framþróun atvinnuveganna byggist að stórmiklu leyti á því, að bankinn fór að vinna að framþróuninni. Umfram alt má enginn stjórnmálaflokkur eða meiri hluti, hversu sterkur sem hann er, nota vald sitt og aðstöðu til þess að skapa ókyrð og óvild gagnvart bankanum.

Jeg er þeirrar skoðunar, að nægilegt hefði verið, að bankaumsjónarmaðurinn hefði skoðað bankann. En nú er nefnd búin að skoða bankann, og ef stjórnin vill ekki birta niðurstöðuna af þeirri skoðunargerð, þá ætti hún að gefa yfirlýsingu um, að það, að skýrslan væri ekki birt, stafaði ekki af því, að neytt væri athugavert við bankann. Annars gætu risið ótal spurningar. En jeg vil leggja áherslu á það að lokum, að þótt jeg fylgi því ekki, að tekin verði fullkomin ábyrgð á bankanum, þá er það eingöngu af því, að jeg tel tryggara, að önnur leið sje farin. Jeg vil styðja að því, að Landsbankanum verði veittur svo mikill beinn stuðningur, að engum detti í hug að efast um, að þessi stofnun sje svo sterk sem hún ætti og verður að vera.