26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er hissa á því, að hv. þm. V.-Ísf. skyldi engan mun finna á þeim tveim ábyrgðum, sem hjer ræðir um. Það er alment álitið hættuminna að ganga í þá ábyrgð, sem menn vita fyrirfram hver er, heldur en í ábyrgð fyrir óákveðinni upphæð, sem ekki kemur á daginn fyr en síðar, jafnvel eftir áratugi, hve stór verður. Eins og gengið var frá Landsbankalögunum í fyrra, ber ríkissjóður ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum manna, þar til sparisjóðurinn hefir myndað sjer ákveðinn varasjóð, en ekki lengur. En með þessu frv. er fyrst og fremst gefin ríkissjóðsábyrgð á öllum skuldbindingum bankans innanlands, og hún hlýtur að verða þeim mun meiri, sem sparisjóðsfje hans hlýtur að aukast að miklum mun, einmitt vegna ábyrgðarinnar. Einnig skapar það bankanum sjálfum verri aðstöðu, að ryðja þannig inn á hann máske öllu innlánsfje landsmanna. Með þessu er sparisjóðunum úti um land bundinn helskór, og þeir hljóta að leggjast niður eftir að næsta fjárhagskreppa er hjá liðin, ef frv. verður að lögum.