07.04.1928
Neðri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4497 í B-deild Alþingistíðinda. (3852)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annara minni hl. (Ólafur Thors):

Áður en gengið er til dagskrár, vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort það sje eðlilegt og rjett, að mál þetta sje rætt nú þegar, þar sem nefndarálitin eru ekki komin öll fram enn; því eins og kunnugt er, verða þau þrjú, en aðeins eitt er nú þegar komið fram. Mjer virðist nefnilega eftir 18. gr, þingskapanna það geta verið álitamál, hvort ekki beri að bíða með umræðuna, þar til nál. eru komin fram. Í 18. gr. þingskapanna segir svo: „Nefndin lætur uppi álit sitt, og skal prenta það og útbýta því meðal þingmanna á fundi.

Eigi má taka málið af nýju til umræðu fyr en að minsta kosti 2 nóttum síðar en nefndarálitinu var útbýtt.“ Hjer er að vísu talað um nál. í eintölu, og er því ekki um að villast, ef það er aðeins eitt, sem um er að ræða; en mjer finst það samkvæmt þessari grein þingskapanna geta orkað tvímælis, þegar um þrjú nál. er að ræða. Jeg leyfi mjer því að beina því til hæstv. forseta, hvort hann telji það ekki rjett, að beðið sje eftir öllum nál., þegar líka um jafnstórt mál er að ræða og hjer.