07.04.1928
Neðri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3854)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Eins og bert er orðið af þeim umr., sem þegar hafa farið hjer fram um þetta mál, hefir fjhn. ekki getað orðið sammála um tillögur sínar. Þess er líka getið í nál, meiri hl. á þskj. 698.

Jeg mun ekki fara mikið út í almennar umræður um mál þetta nú, því að slíkar umræður eiga betur við við 1. og 3. umr. málanna. Þó vil jeg víkja stuttlega að undirbúningi bankalaganna á undanförnum þingum, og eins að þeim höfuðbreytingum, sem frv. er ætlað að gera á gildandi lögum. Lög þessi um Landsbanka Íslands fengu mjög rækilegan undirbúning. Þau voru rædd á mörgum undanförnum þingum. Og auk þess var sett milliþinganefnd til þess að athuga bankamálið í heild, og einkum hvernig skyldi fyrir koma endanlega seðlaútgáfurjettinum, og gerði sú nefnd mjög ítarlegar tillögur um málið. Við samþykt laganna í fyrra var að miklu leyti bygt á áliti og tillögum þessarar nefndar, þó að vikið væri frá þeim í sumum allverulegum atriðum. Þá var það svo, að nokkur hluti þingsins vildi hallast að till. milliþinganefndarinnar og var óánægður með, að frá þeim var vikið. Þau atriði, sem um var deilt, voru aðallega tvö. Það fyrra snertir ábyrgð ríkissjóðs á bankanum, hvort ríkissjóður bæri ábyrgð á sínum eigin banka. En hitt var um fyrirkomulag á stjórn bankans. Þær breytingar á bankalögunum, sem felast í frv. þessu, hníga því í þá átt að breyta lögunum til þess horfs, sem milliþinganefndin lagði til og minni hluti þingsins í fyrra vildi hafa. Þar sem því þessi atriði voru rækilega rædd á þinginu í fyrra, mun jeg ekki fara mikið inn á þau nú. Líka var mikið um þau rætt í Ed. núna, svo að ekki virðist ástæða til að fara mikið inn á umræður um þau nú, því að þau hljóta að vera orðin öllum hv. þdm. kunn.

Eins og jeg gat um áðan, eru höfuðbreytingarnar tvær; hinar breytingarnar, sem í frv. felast, eru beint eða óbeint afleiðingar af þeim. Um fyrri breytinguna, að ríkið taki ábyrgð á sínum eigin banka, er það að segja, að það hefir altaf verið í siðgæðismeðvitund þjóðarinnar, að þar sem bankinn væri eign þjóðarinnar, hlyti ríkið að bera ábyrgð á honum. Þetta hafa verið óskrifuð lög í siðgæðismeðvitund þjóðarinnar.

Meiri hluti milliþinganefndarinnar vildi líka hafa þetta svo, að ríkið bæri ábyrgð á sínum eigin banka: En meiri hl. þingsins í fyrra. var því fráhverfur; hann hafði ekki þá siðgæðismeðvitund til að bera, að hann skildi jafnsjálfsagðan hlut sem þennan.

Það verður varla um það deilt, fyrst ríkið á bankann og kannast er við, að það hafi stofnað hann og átt hann frá upphafi, þá hlýtur það líka að hafa siðferðislega skyldu til þess að ábyrgjast skuldbindingar hans. Hitt, að segja og viðurkenna, að ríkið eigi bankann, en beri þó ekki ábyrgð á honum, það er álíka siðgæðistilfinning og kemur fram hjá ófullveðja manni, sem stofnað hefir til skuldar, en vill skjóta sjer undan því að greiða hana, og hefir slík framkoma verið jafnan talin ódrengileg. Og þar sem ekki er talið sæmandi einstaklingum að hirða ekki um að standa við skuldbindingar sínar, þá getur það heldur ekki talist sæmandi fyrir ríkið. Og læt jeg þá útrætt um þetta atriðið.

Hin höfuðbreytingin á lögunum er um stjórnarfyrirkomulag bankans. Það er viðurkent af öllum, að nauðsynlegt sje, að um aðalseðlabanka ríkisins sje sem mest ró og að hann geti verið sem óháðastur snöggum skoðanabreytingum hjá þingi og þjóð. M. a. var það álit milliþinganefndarinnar, að setja bæri fjölmenna nefnd yfir bankann, til þess að tryggja það, að bankinn væri óháður sveiflum stjórnmálanna. Milliþinganefndin fann þetta ekki sjálf upp, heldur hafði hún kynst þessu fyrirkomulagi hjá tveimur þjóðum, einkum þó hjá Svíum, sem hún vildi taka til fyrirmyndar, enda voru Svíar sú þjóðin, sem best stóð af sjer allar sveiflur og byltingar stríðsáranna. Og þetta þökkuðu Svíar því, að bankar þeirra stóðu á traustum grunni. Þessi fjölmenna bankanefnd á svo að velja bankaráðið, en stjórnin skipar formann þess.

Þetta eru þá þessar tvær höfuðbreytingar, sem frv. gerir á lögum bankans frá í fyrra.

Meiri hl. fjhn. hefir lagt til, að gerðar verði lítilsháttar breytingar á frv. eins og það liggur fyrir nú, eftir afgreiðslu þess í hv. Ed., og lúta þær sumpart að því að tryggja enn betur þá ró, sem bankinn þarf að hafa til þess að vera óháður snöggum skoðanaskiftum hjá þjóð og þingi, en sumpart eru þær aðeins leiðrjettingar, sem hv. Ed. hefir skotist yfir að lagfæra.

Jeg ætla þá með fáum orðum víkja að brtt. meiri hl. á þskj. 698.

Með 1. brtt. er lagt til, að inn í frv. bætist ný grein, sem verði 3. gr., og má telja það leiðrjettingu. Það var bent á það við 1, umr., að eftir frv. væri landsbankanefndinni ætlað að kjósa endurskoðendur, en það stendur einnig í lögunum og hafði sjest yfir að leiðrjetta það. Nú leggjum við til, að standi áfram eins og það er í frv., en falli niður úr lögunum. Í lögunum stendur, að endurskoðendurnir skuli kosnir til 3 ára, en frv. leggur til, að þeir verði kosnir til eins árs í senn. Á þetta leggur meiri hl. enga áherslu, en telur þó rjett, að höfð sje opin leið til þess að kjósa endurskoðendur árlega, því að altaf má endurkjósa þá, sem landsbankanefndin treystir til starfans.

Jeg vil geta þess, að lýst hefir verið frá forsetastóli brtt. frá meiri hl. nefndarinnar, sem enn hefir ekki verið útbýtt, og er um úrskurð reikninga bankans. Í frv. er gert ráð fyrir, að landsbankanefndin úrskurði reikninga bankans, en í lögunum stendur, að ráðherra eigi að gera það, og hafði gleymst að fella það niður. Nú leiðir af sjálfu sjer, að þetta hvorttveggja getur ekki samrýmst í lögunum framvegis, og því hefir meiri hl. borið fram brtt. til þess að leiðrjetta það, enda virðist rjettara, að það sje í höndum nefndarinnar að úrskurða reikninga bankans.

Önnur brtt. snertir kjörtíma formanns bankaráðsins. Í frv. er lagt til, að hann sje kosinn til 3 ára, en meiri hl. nefndarinnar vill lengja kjörtíma hans upp í 5 ár. Hugsunin er sú, að með því skapist meiri festa og ró um bankann. Það stóð líka svo í frv. upphaflega, að bankaráðsformaðurinn skyldi kosinn til 5 ára, en hv. Ed. færði það niður í 3 ár. Þá breytingu teljum við meiri hl. til spillis og stríði á móti höfuðtilgangi frv. Þess vegna viljum við halda okkur að því, sem upphaflega stóð í frv., að formaður bankaráðsins skuli kosinn til 5 ára.

Þriðja brtt. er við 14. gr. f frv. er ákveðið, að bankaráðsformaðurinn einn skuli hafa daglegt eftirlit í bankanum. Nú er það svo, að formaður bankaráðsins og hinir bankaráðsmennirnir eru ekki tilnefndir af sama aðilja; formaðurinn skipaður af stj., en bankaráðsmennirnir kosnir af landsbankanefndinni. Meiri hl. nefndarinnar þótti rjett, að áskilið væri, að einn bankaráðsmaðurinn ásamt formanninum hafi daglegt eftirlit með störfum bankans.

Fjórða brtt. er við 15. gr. frv. og er viðaukatill. Í 38. gr. bankalaganna undir staflið n. stendur, að það sje eitt af verkefnum bankaráðsins að setja reglugerð um bankann og starfshætti hans, en samkvæmt 15. gr. frv. er landsbankanefndinni ætlað að gera þetta. Nú leiðir það af sjálfu sjer, að hvorttveggja þetta getur ekki staðist, og því er lagt til með þessari viðaukatill., að landsbankanefndin setji bankanum reglugerð eftir till. bankaráðsins.

Fimta brtt. er breyting á framsetningu á sama efni vegna þess að inn er skotið einu atriði. Með frv. er ætlast til, að allir starfsmenn bankans sjeu bundnir þagnarskyldu, og virðist þá einnig rjett, að sú þagnarskylda hvíli á landsbankanefndinni. Nú má gera ráð fyrir, að nefndin fái kannske ekki alt að vita um starfrækslu bankans, en ætti þó að fá það, og virðist því rjett, að þagnarskylda nái einnig til hennar. Þó að brtt. sje sett niður í stafliði — en þannig er greinin ekki orðuð í frv. —, þá er það aðeins formsatriði vegna þessarar einu efnisbreytingar, sem nú er lýst.

Sjötta brtt. er við 20. gr. frv. Í 53. gr. bankalaganna er talað um hlutabrjef bankans og arðmiða af hlutabrjefum. Nú er það vitanlegt, að bankinn á engin hlutabrjef, og því getur ekki verið um neina arðmiða að ræða af hlutabrjefum. Þetta eru leifar, sem stafa frá þeim tíma, er talað var um að gera bankann að hlutabanka. Því virðist ekki nema rjett að fella þetta niður, og er með 6. brtt. lagt til, að svo verði gert.

Þá er 7. brtt. og sú síðasta, og er lagt til, að síðasti málsliður 23. gr. falli niður. Sá málsliður er þannig til kominn, að í hv. Ed. var gerð sú breyting, að staða fjehirðis hjeldist óbreytt á meðan núverandi fjehirðir gegnir starfi sínu. En þar sem taka á þegar upp annað skipulag um alla starfrækslu bankans, þá er það till. meiri hl. fjhn., að þessi eini maður verði ekki undantekinn, og leggur því til, að síðasti málsliðnr 23. gr. falli niður.

Jeg hefi þá minst á allar brtt. meiri hl. fjhn. á þskj. 698 og gert grein fyrir þeim. Og í upphafi ræðu minnar rakti jeg lítilsháttar þau höfuðatriði, sem frv. breytir frá því, sem er í núgildandi lögum um Landsbanka Íslands. Get jeg því látið máli mínu lokið og býst ekki við að þurfa að segja fleira að sinni.