07.04.1928
Neðri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4531 í B-deild Alþingistíðinda. (3858)

103. mál, Landsbanki Íslands

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Hv. minni hl. fjhn. hefir nú látið ljós sitt skína um stund. Er ekki nema gott eitt um það að segja. Jeg var svo óheppinn, að jeg heyrði ekki alla ræðu hv. 2. þm. G.-K. Jeg gat ekki hlustað á fyrri part ræðu hans, því að jeg var bundinn við önnur störf, er ekki gátu beðið. En jeg hefi heyrt, að hann hafi hálfvegis gert boð fyrir mig. Mun jeg því eiga orðastað við hann síðar lítillega. Jeg geri ráð fyrir, að það megi að allmiklu leyti svara þessum hv. þm. (ÓTh og SE) sameiginlega. Jeg býst sem sje ekki við, að neitt nýtt hafi komið fram í málinu. Að minsta kosti var það svo um ræðu hv. þm. Dal., enda varla við því að búast, þar sem málið er þrautrætt á þingi áður ár eftir ár. Þegar svo er komið, álít jeg eiginlega ekki sjerlega mikið á umræðum að græða. Þeir hafa getið um það, þessir hv. þingmenn, að svo líti út, sem stjórnin mundi helst kjósa, að umræður dyttu niður. Jeg neita því, og jeg skal gera grein fyrir, hvernig jeg lít á þetta sjálfur. Jeg álít óþarfa að hafa mjög langar umræður um þetta mál úr því sem komið er og get fyrir mína parta vísað hv. þm. í það, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál fyr og síðar, bæði í Alþingistíðindunum, sem er að fá í skrifstofu þingsins, og í ræðum þeim, sem jeg hefi haldið á þessu þingi og liggja í handritum skrifaranna frammi í lestrarsal. Og jeg skal skýra nánar, hvers vegna jeg álít ekki þörf á að ræða málið lengur: jeg vil forðast að gefa mælgisýki þessara manna nýja næringu með því að gera þeim það til eftirlætis að andmæla þeim. En úr því að skorað var á mig, skal jeg gera þeim úrlausn.

Fyrst ætla jeg að víkja að hv. þm. Dal. og stend þeim mun betur að vígi gagnvart honum, sem jeg heyrði ræðu hans alla; en aftur á móti á jeg erfiðara með hv. 2. þm. G.-K., ekki af því, að hann sje það hættulegri viðureignar, heldur hinu, að jeg renni þar blint í sjóinn með það, hverju jeg á að svara, því að jeg heyrði ekki, hvað hann sagði. (HStef: Það stendur alt í nál.). Nú, var hann ekki annað að gera en lesa nál. sitt? Því á jeg bágt með að trúa, að hann hafi ekki einhverju bætt við frá eigin brjósti. (ÓTh: Nál. var frá eigin brjósti!).

Hv. þm. Dal. tók það fram, sem hann hefir svo oft sagt áður, að Landsbankinn mætti ekki vera seðlabanki, af því að hann ræki Sparisjóðsstarfsemi, en það gerðu engir seðlabankar aðrir. Þessi mótbára er á engum rökum bygð, og jeg fæ ekki skilið, hvers vegna svo þarf að vera, sjerstaklega vegna þess, að þessar deildir bankans, seðladeildin og sparisjóðsdeildin, starfa algerlega sjerstæðar hvor út af fyrir sig. Að því leyti get jeg ekki sjeð, hvaða hætta seðlabankanum ætti að stafa af sparisjóðsstarfseminni. Það er ómögulegt að ætlast til þess, að hægt sje að sníða starfsemi íslenskra banka eftir útlendri fyrirmynd. Alt er í svo smáum stíl hjá okkur, að það væri blátt áfram hlægilegt að hugsa sjer að hrófa upp margskonar bönkum, sem hver hefði sitt afmarkaða starfssvið, einn ætti t. d. að telja og útbýta nokkrum milj. seðla, sem eru í umferð hjá okkur; annar ætti eingöngu að ávaxta sparifje manna, þriðji annast fasteignalán, o. s. frv. Það yrði eitt óstjórnlegt bankafargan. Og það er fjarri að ná nokkurri átt, að bankinn megi ekki hafa með höndum aðra starfsemi en seðlaútgáfuna, er hann hefir tekið hana að sjer.

Mjer skilst svo, sem menn gæti þess ekki nógu vel, að hjer getur verið um tvenskonar tryggingu á seðlabankanum að ræða. Það getur verið ríkistrygging, sem ein út af fyrir sig hlýtur að vera og á að vera nægileg. En ef hún ekki telst vera nægileg, þá þarf að stuðla að því, að bankinn eignist gullforða. Það er nú algild regla um seðlabanka, að þeir eigi gullforða. En annað mál er það, hversu rjett það er. Getur það verið álitamál, því það leiðir ávalt til þess, að bankinn verður að liggja með þennan gullforða, sem ekki er arðberandi, þar sem hann liggur sem trygging fyrir seðlunum. Tel jeg því í raun og veru ríkisábyrgð sjálfsagða. Hefir það og verið gert hjer áður og gefist vel. Seðlar þeir, sem Landsbankinn hefir gefið út, hafa verið trygðir með ábyrgð ríkissjóðs.

Hv. þm. Dal. hjelt því fram, að engin tilraun hefði verið gerð til að rökstyðja breytingar þær, sem felast í þessu frv. — Annaðhvort hefir háttv. þm. sagt þetta í hugsunarleysi, án þess að íhuga, hvað hann var að segja, eða hann hefir sagt þetta móti betri vitund. Tilgang þessa frv. er búið að margskýra og rökstyðja. Hjer er aðeins verið að færa þetta mál í það horf, sem núverandi meiri hluti þingsins hefir ávalt óskað eftir, að það kæmist í. Einmitt sama horf og milliþinganefndin í bankamálinu áleit eftir gaumgæfilega athugun vera rjetta. Þetta eru því ómakleg ummæli og alveg órjettlát. (SE: Jeg vísa til nál. hæstv. forseta!). Það er engin málsbót að vísa til álits hæstv. forseta. Mjer finst ekki ástæða að ætlast til þess, að meiri hlutinn gangi frá sínu áliti og gangi yfir á álit minni hlutans. Það þýðir ekki að ætla sjer að byggja á því.

Ein af þeim staðhæfingum, sem hv. þm. Dal. kom fram með til þess að gera frv. þetta tortryggilegt í augum þingsins, var sú, að ekki væru nægilega bundnar hendur Landsbankans hvað lántökur snertir, þegar ríkið væri búið að taka ábyrgð á öllum skuldbindingum hans. Hjer er um innlend lán að ræða, því sjerstaka ábyrgð þarf í hvert sinn fyrir hinum erlendu lánum. En hv. þm. virtist gera ráð fyrir því, að útlendar peningastofnanir mundu flytja fje inn í landið, sem Landsbankinn svo gæti tekið að láni án þess að þurfa að leita samþykkis Alþingis. Að þessu leyti áleit hv. þm. hættulegt eða ótrygt að veita bankanum ríkisábyrgð. En jeg sje ekki, hvaða hætta gæti legið í þessu. Jeg tel, að stjórnarfyrirkomulag bankans verði svo tryggilegt, að engin hætta gæti af því stafað, þótt bankinn ætti kost á slíku fje. Fyrst og fremst eru það bankastjórarnir, sem ættu að sjá hag bankans borgið í þessu efni. Þá er það í öðru lagi bankaráðið, með yfirliti bankanefndarinnar að baki sjer, sem mundi líta eftir því, að ekki yrði rasað fyrir ráð fram um slíka hluti. Þessi mótbára er því ærið veigalítil og tel jeg ekki eyðandi fleiri orðum að henni.

Næsta meginatriðið, sem hv. þm. Dal. vildi gera mikið úr, var sú hætta, er hann taldi vera á því, að sparisjóðsfje landsmanna mundi að miklu leyti lenda hjá Landsbankanum. — Jeg veit ekki betur en að mikill hluti sparifjárins sje nú hjá Landsbankanum. Og satt að segja veit jeg ekki, hvar það ætti að vera betur komið en í þjóðbanka landsins. — Það getur reyndar hugsast, að hv. þm. Dal. telji það betur komið í Íslandsbanka. Jeg efast að vísu ekki um, að það myndi vera vel geymt þar. En jeg hygg þó, að þjóðinni sje það ekki sá ávinningur, að það sje geymt þar, að til þess þurfi að gera sjerstakar ráðstafanir, að svo verði gert í framtíðinni. — Áður en lengra er haldið verð jeg að biðja afsökunar á því, ef jeg kann að tala helst til lengi. Jeg er sem sje að reyna að fylgja þræðinum í ræðu hv. þm. Dal. Það er því á ábyrgð þessa hv. þm., ef jeg verð of langorður og of leiðinlegur, því að það kemur til af því, að jeg er að fylgja hans óskemtilega hugsanagangi.

Þá var hið næsta, sem hv. þm. sagði, að sú ábyrgð, sem ætlast væri til, að ríkið veitti Landsbankanum, væri stórhættuleg fyrir það, að hún myndi rýra mjög lánstraust ríkissjóðs í útlöndum. Jeg ímynda mjer, að þá ætti með eins miklum rjetti að vera hægt að segja, að þær ábyrgðir, sem ríkið hefir til þessa gengið í vegna erlendra lána, hafi átt að valda hinu sama. Ekki þá hvað síst hið stóra lán, sem ríkið ábyrgðist vegna Íslandsbanka. En jeg hefi nú ekki orðið var við slíkt ennþá, þegar um það hefir verið að ræða að taka lán erlendis, sem ætluð hafa verið til skynsamlegra fyrirtækja. Og jeg hygg, að svo muni enn fara. Jeg hygg, að þeir, sem veita slík lán, muni leggja þann mælikvarða á okkur, sem þeir fá í hendur við athugun landsreikninganna eða bankareikninganna. Og ef einhver hætta væri á ferðum um afkomu okkar, þá sje jeg þó ekki, hvernig almenn ábyrgð á Landsbankanum gæti rýrt traust ríkisins í fjármálum út á við.

Þá vildi hv. þm. slá því föstu í eitt skifti fyrir öll sem óumþrætanlegum sannleika, að leggja þyrfti bankanum til 5 milj. króna nú þegar. Þetta er sem fleira algerlega órökstudd fullyrðing hjá hv. þm. — Þó þetta væri gert, þá er þó ekki hægt að segja, að það skapi það öryggi, sem ekki geti haggast. Það er nú þegar ráðgert að leggja bankanum til 2 milj. kr. og auk þess veitt heimild að bæta við það 3 miljónum, ef það þykir nauðsynlegt. Sje þetta skoðað frá skynsamlegu og búmannslegu sjónarmiði, þá er engin ástæða til þess, að ríkið taki þessi lán handa bankanum. Hitt er alt eins gott, að bankinn taki þau sjálfur með ábyrgð þingsins. Meðal annars er slíkt hagkvæmara í reikningsfærslu. Sú aðferð, sem gert er ráð fyrir í frv., er því bæði skynsamlegri og hagkvæmari bankanum. Munurinn er aðeins sá, að hv. þm. vill taka strax stórlán handa bankanum, sem svo verður smámjatlað út í lán til viðskiftamannanna. En eftir frv. getur bankinn sjálfur tekið þessi lán á ábyrgð ríkissjóðs, þegar hann þarf þeirra með og er hagkvæmt að taka þau. — Hv. þm. Dal. kvað svo ríkt að orði, að það væri hrein og bein vanræksla að láta Landsbankann ekki fá þær 5 milj. kr. þegar í stað, sem hann ætti að fá samkvæmt lögunum frá í fyrra. Jeg mótmæli þessari fullyrðingu algerlega. Og jeg tel það þörf, vegna þess, að úr henni verður reynt að gera það, hvað ástandið sje ískyggilegt um hag Landsbankans. — Það hefir flogið fyrir, að nefndin, sem skipuð var til að meta hag Landsbankans, hafi komist að þeirri niðurstöðu, að hagur bankans væri ekki svo góður sem æskilegt væri, eða hann mundi tapa svo miklu á lánum sínum, að vafasamt mætti telja um hag hans. En jeg vil þá geta þess, að sá maðurinn, sem fróðastan má telja um þetta, bankaeftirlitsmaðurinn, hefir sjerstöðu um þetta. Hann var búinn að athuga hag bankans rjett áður en nefndin tók til starfa og hefir ekki getað fallist á, að mat nefndarinnar væri rjett. Og þótt nú svo væri, að álit hins hluta nefndarinnar væri ekki fjarri sanni, þá hefir hún þó ekki tekið tillit til þess í niðurstöðum sínum, að bankanum hefir bætst það fje, sem hann hefir grætt á rekstri sínum á síðastliðnu ári og það sem af er þessu ári. Og jeg býst við, að tap bankans muni ekki vera meira en það, sem nemur gróða bankans þetta ár og árið sem leið. Jeg hygg, að það muni vega móti því tapi, sem gert er ráð fyrir við aðalbankann. Jeg hefi tekið þetta fram vegna þess, að verið var að blása að þeim kolum og útbreiða þá skoðun meðal manna, að hagur Landsbankans væri mjög bágborinn. Hv. þm. Dal. og fleiri hafa verið að blása að þeim kolum. (SE: Jeg hefi ekkert talað um það!). Jú, hv. þm. hefir víst verið að gefa það í skyn, — en það er gott, að hann vill nú ekki kannast við það.

Jeg held nú, að jeg hafi yfirleitt minst á alt það, er máli skiftir í ræðu hv. þm. — Hitt þýðir ekki, að fara að eltast við hin skáldlegu ummæli í ræðu hans. Hv. þm. hefir nú gaman af því sjálfur að reyna að vera orðhagur með köflum. Hann sagði t. d., að bankarnir ættu að vera lifandi liðir í lífi þjóðarinnar. Jeg vænti nú þess, að þetta sje rjett skoðað. En jeg veit bara ekki, hvernig getur sjerstaklega átt við að minna á það nú. — Bankinn verður eins lifandi liður í lífi þjóðarinnar eftir þessu frv. eins og eftir frv. því, er drifið var í gegn á síðasta þingi fyrir atbeina íhaldsmanna, þvert á móti vilja framsóknarmanna og jafnaðarmanna, sem nú skipa meiri hlutann. Það er því ekkert nema eðlileg rás viðburðanna, sem veldur því, að þessar breytingar, sem hjer liggja fyrir í þessu frv., eru fram komnar. Jeg álít, að því mætti treysta, að þeir þm., sem mynduðu meiri hlutann á síðasta þingi og ekki virtust sýna minni hl. þá neina meðaumkun, beri sig karlmannlega nú, þótt þeir sjeu í minni hluta um stund í þessu máli og fleirum. (SE: Greiddi Framsóknarflokkurinn ekki atkv. með lögunum í fyrra?). Meiri hluti flokksins var áreiðanlega mótfallinn ýmsu í lögunum, enda þótt einstaka framsóknarmaður hafi greitt því atkvæði sitt út úr þinginu, af þeirri ástæðu, að þeir vildu ekki verða til þess, að það drægist von úr viti að setja lög um seðlaútgáfuna. En fleiri atkv. innan flokksins voru þó áreiðanlega móti frv.

Þá sagði hv. þm. Dal., að bankanefndarfyrirkomulagið væri ekki annað en hjegómatildur, sem ekki yrði nema til bölvunar. Þetta voru orð hv. þm. Er ekki hægt neitt annað um þau að segja en að þau sjeu órökstutt, ógætilegt fleipur, aðeins notuð til þess að viðhafa sterk orð, ef unt væri að slá ryki í augu manna með þeim. — Þá finst mjer það sitja illa á hv. þm. Dal. og öðrum þeim, sem verið hafa að tala um það, að það riði lífið á því, að pólitík kæmist ekki í bankamálin. Þetta er auðvitað ekkert annað en barnaskapur, því hvar er það eiginlega, sem pólitíkin, í orðsins fylstu merkingu, kemst ekki að? Jeg hefi nú nokkuð skilgreint það áður, en svona barnalegar setningar frá hv. þm. sýna það, að hann hefir ekki skilið þetta mál. Einmitt þessi skipun bankanefndarinnar er gerð til þess að setja skjólgarð um bankann, sem verji eftir föngum, að ekki sje drifin ófarsældarpólitík í bankamálunum. Nefndin er öruggasta ráðið til þess, að yfirstjórn bankans verði svo skipuð, að í fullu samræmi sje við þær stefnur um stjórnskipulag, sem með núverandi fyrirkomulagi eru löglegar. Þessi orð hv. þm. um hjegómlegt tildur og að fyrirkomulagið um stjórn bankans muni verða til bölvunar falla því máttlaus til jarðar. Ennfremur virtist hv. þm. Dal. hafa stórar áhyggjur út af því, ef frv. þetta verður samþ., að þá verði farið að kjósa nýtt bankaráð, og þá líklega ekki hvað síst nýjan bankaráðsformann. Jeg held, að þessi ótti hv. þm. sje ástæðulítill. Fyrst og fremst liggja nú engin óyggjandi gögn fyrir um það, að svo vel hafi verið valið í bankaráðið, að jafngóða nje betri menn sje ekki að finna á öllu landinu. En í öðru lagi má nefna það, að engin ástæða er til þess að ætla, að skift verði um þessa menn, þótt frv. verði að lögum. Mjer finst að minsta kosti ástæðulaust fyrir hv. þm. að bera mikinn kvíðboga fyrir því.

Jeg get nú farið að hverfa frá þessum fátæklegu athugunum, sem hv. þm. Dal. kom með máli sínu til stuðnings. Jeg verð þó að nefna eina stóra fjarstæðu enn: Hv. þm. sagði, að með þessari fyrirhuguðu breytingu á bankalögunum væri bankanum hrundið út í þann heitasta eld, sem öllu myndi eyða. Jeg tel þetta bara sem skáldlegar líkingar, sem hv. þm. er svo gjarnt á að slá um sig með, án þess þær eigi nokkurn stað í veruleikanum. Mjer dettur því ekki í hug að taka þessa nje aðrar slíkar setningar hv. þm. neitt alvarlega.

En áður en jeg skilst að fullu við hv. þm. Dal., ætla jeg, þótt óþarft ætti að vera, að endurtaka enn aðalatriði og merg þessa máls, sem hjer um ræðir, enda eru þau ekki mörg:

Fyrst er það stjórnarfyrirkomulag bankans. Jeg hefi áður gert fulla grein fyrir því, að þetta nýja fyrirkomulag miðar að því að skapa meira öryggi, festu og ró um bankann.

Í öðru lagi er aðeins um fyrirkomulagsbreytingu að ræða um þann fjárstuðning, sem samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir, að ríkið veiti bankanum. Munurinn er sá, að núgildandi lög gera ráð fyrir, að nokkur hluti þessa fjár verði tekinn að láni strax og lagður í fjárhirslu bankans, en eftir frv. er ætlast til, að það verði ekki gert strax, heldur eftir þörfum, og er þetta gert af „praktiskum“ ástæðum.

Þriðja atriðið, sem virðist vera minni hlutanum einna mestur þyrnir í augum, er ákvæðið um, að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans í innanlandsviðskiftum. Þetta er heldur ekki annað en fyrirkomulags- eða formsatriði. Enda skilst mjer, að allir þeir hv. þm., sem um málið hafa rætt, telji það sjálfsagðan hlut, að ríkið beri siðferðislega ábyrgð á sínum banka. Það, að gera hjer mun á þeirri siðferðislegu og fjárhagslegu ábyrgð, sýnist mjer hreinn óþarfi. Þetta tvent á og verður að fara saman, að ríkið beri bæði siðferðislega og fjárhagslega ábyrgð á sínum eigin banka. Andmælin gegn þessu eru yfirleitt ekki annað en málþóf, tímatöf og skæklatog, sem ber alt að sama brunni. Það er ekki hægt að sýna fram á, að þessar breytingar sjeu skaðlegar eða hættulegar fyrir hag bankans eða velferð þjóðarinnar, enda mun það ekki í alvöru gert að halda slíku fram hjer á þingi.

Það gleður mig að sjá hv. 2. þm. G.-K. hjer í deildinni aftur, en jeg vildi helst hafa hann á sínum rjetta stað, hið næsta mjer. (ÓTh: Alveg sjálfsagt). Mjer þykir það skemtilegra sakir fornrar vináttu og góðrar samvinnu, sem verið hefir með okkur.

Jeg gat þess áðan, að jeg hefði verið svo óheppinn — eða heppinn — að geta ekki hlustað á alla ræðu hv. 2. þm. G.-K. En ef ekki hafa komið fram í henni önnur rök en í nál. hans, sem jeg hefi lesið gaumgæfilega, þá held jeg, að jeg hafi ekki farið mikils á mis, og verð jeg víst að svo komnu að taka þessu með stillingu.

Mjer skildist, eftir að jeg kom í deildina í morgun, að aðalákæruefnið væri það, að stj. forðaðist að vera hje viðstödd umr. Þetta á ekki við um mig, það verð jeg að segja. Jeg get sagt eins og karl einn karlægur komst að orði: „Berið mig þangað sem slarkið er.“ Jeg hefi ekki annað en ánægju af að ræða við hv. þm. hjer í deildinni, og ekki síst hv. 2. þm. G.-K., en jeg tel mjer þó oft standa nær að vera á fundum hv. Ed., þar sem jeg á þingmannssæti. Hinsvegar mega menn ekki kippa sjer upp við, þótt við eyðum nokkrum tíma til hinna daglegu stjórnarstarfa, eftir því sem nauðsyn krefur og við verður komið. Af þessum ástæðum má vera, að jeg sje ekki eins tíður gestur hjer í deildinni eins og háttv. 2. þm. G.-K. helst hefði óskað, og þykir mjer það að vísu leitt, en tek mjer hinsvegar til „inntekta“, að hann hefir þvílíka ánægju af að sjá mig.

Annars þótti mjer mjög miður að heyra hv. þm. svívirða Alþingi sjálft. Mjer þótti það líka koma úr hörðustu átt, því að þær ásakanir, sem hann bar á þingið, koma ekki síður niður á honum en öðrum hv. þm. Hann sagði, að vinnubrögðin hjer hjá okkur væru á þá leið, að þau væru þinginu til skammar. Jeg veit satt að segja ekki, hvert stefnir fyrir þeim hv. þm., sem tekur sjer þetta og þvílíkt í munn, því að allir vita, að þetta er ekki annað en órökstutt, staðlaust fleipur. Það gæti verið skiljanlegt, að einhver strákur eða taugaveiklaður blaðasnápur færi með slíkt, en að einn hv. þm. skuli láta sjer slíkt sæma, það gengur alt lakar að skilja. En hann virðist hafa talað fyr en hann hugsaði. Þetta verð jeg að átelja harðlega, og jeg vona, að hann taki mjer það ekki illa upp, þó að jeg áminni þennan framgjarna, stórláta og mikilhæfa þm. um, að hann láti sig ekki slíkt henda framvegis.

Hv. þm. sagði, að mjög tíðar lagabreytingar mættu ekki eiga sjer stað á Alþingi. Jeg verð að álíta, að það sje fullmikið af því góða íhaldi og afturhaldi, sem lýsir sjer í þessu. Hv. þm. ætti að láta sjer skiljast það, að tíðar lagasetningar bera einmitt vott um framþróun. Þá erum við að nema úr gildi það úrelta og óhæfa og setja eitthvað betra í staðinn. Jeg ætla ekki út af þessu að velja þau orð, sem mjer finst, að liggi næst, en vil aðeins segja það, að jeg álít, að hv. þm. hafi sagt þetta án verulegrar íhugunar að minsta kosti.

Jeg þykist ekki þurfa gagnvart þessum hv. þm. að fara inn á einstök atriði frv. Jeg hefi rakið efni þess rækilega bæði fyr og síðar og jeg vona, að hann láti sjer nægja svar mitt til hv. þm. Dal, að því leyti.

Sami hv. þm. (ÓTh) kvartaði sáran um vinnuhörku hjer á þingi og sagði, að hjer væri unnið nótt og dag. Jeg verð að álíta, að hann eigi sinn þátt í því með sínu málþófi að tefja tímann um of að óþörfu, svo að dagsverkin ganga fram á nætur. Hv. þm. ætti að reyna að komast að samningum við sjálfan sig um að færa þetta í lag. Þá er á hitt að líta, hvort vinnuharkan er í raun og veru óhæfileg. Þegar talað hefir verið um vinnubrögðin á togurum þessa hv. þm., hefir hann ekki talið eftir sjómönnunum að vinna erfiðisvinnu 16–18 tíma á sólarhring, og jeg get alls ekki talið eftir hv. þm. að sitja á fundum nokkuð fram yfir venjulegan fundartíma stöku sinnum.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta að sinni, en mjer þykir ekki ósennilegt, að jeg segi nokkur orð síðar, ef jeg gæti orðið viðstaddur.