10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4599 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Guðmundsson: Jeg mun reyna að verða ekki mjög langorður, því að sumum munu þykja umræður þegar farnar að dragast úr hófi. Jeg get ekki annað en undrast, að hæstv. stjórn skuli vinna það til að lengja þingið með því að hraða þessu máli í gegn á þessu þingi. Jeg skil ekki, að því liggi neitt á. Sökin á hinu langa þingi hvílir algerlega á hæstv. stjórn sjálfri og stuðningsflokkum hennar, en ekki á andstæðingum hennar, og veldur því sá mikli fjöldi mála, sem hæstv. stjórn og stjórnarflokkar hafa flutt á þinginu. Einn góður og gegn deildarmaður hefir látið mjer í tje skýrslu um það, hvernig tala þingmála skiftist eftir flokkum. Alls hafa verið borin fram 123 mál; af þeim flytja íhaldsmenn 12 og íhaldsmenn ásamt öðrum 9 eða 10; stjórnarfrv. voru 37; af því leiðir, að frv., sem stuðningssmenn hæstv. stjórnar flytja, eru 64 að tölu. Nú er það athugavert, að mörg þeirra, og það sum stór, hafa fyrst verið borin fram þegar langt var liðið á þing, og því ekki furða, þótt teygist úr umræðum. Jeg vil aðeins benda á þetta til þess að sýna, að það er ekki til að furða sig á, þótt mikið sje talað um frv., sem borin eru fram þegar mánuður er liðinn af þingtímanum, sum nauðalítið og sum alveg óundirbúin. Jeg skal t. d. nefna þetta frv., sem hjer er til umr. Þegar það kom frá hv. Ed. og hafði gengið gegnum allar umræður, sem lög gera ráð fyrir, og verið athugað í nefnd og lagfært sem hægt var, þá voru þó enn þau missmíði á því, að tvennir endurskoðendur áttu að endurskoða reikninga bankans og tvenn stjórnarvöld að úrskurða um þá, og sýnir það, að undirbúningur þess hefir verið með afbrigðum hroðvirknislegur. Og þar við bætist, að þessi lög, sem nú á að breyta, voru á þinginu í fyrra samþykt með miklum atkvæðamun, í Ed. t. d. með 12:2 atkv. og hjer í Nd. með 19:3 atkv. Þetta sýnir, að þótt ekki væru allir ánægðir með einstök ákvæði laganna í fyrra, þá var þó mikill meiri hl., sem fylgdi þeim. Frumvarpafjöldinn sýnir, að ekki er hægt að búast við því, að unt sje að ljúka þinginu á skömmum tíma. Ef það var ákveðið fyrirfram, að þingið ætti ekki að vera langt, þá var það skylda hæstv. stjórnar að sjá til, að svona mörg mál væru ekki borin fram á þeim tíma, sem þinginu var skamtaður. Jeg segi, að sá á meiri sök á lengingu þingtímans, sem lætur bera fram öll þessi frv., heldur en sá, er leyfir sjer að ræða þau. Það er beinlínis skylda að ræða mál hjer á Alþingi, þótt það þyki nú orðið stundum til lítils.

Af því, hve þetta frv. er seint fram borið, vildi jeg kasta fram þeirri spurningu, hver það væri, sem óskaði eftir, að málið, væri rekið fram á þessu þingi. Ekki er það Landsbankinn sjálfur, sem sjá má af brjefi frá bankastjórninni til fjhn. Ed. og prentað er í þskj. Jeg á hálferfitt með að trúa, að það sjeu þeir, sem í fyrra greiddu atkvæði með bankalögunum. Það væru þá helst þeir fáu, sem greiddu atkvæði á móti, sem ættu að hafa hrint þessu máli af stað. Jeg minnist þess, að einn meðal andstæðinga bankafrv. í fyrra var núverandi hæstv. dómsmrh., og get jeg þess vegna til, að hann sje sá maðurinn, sem bak við alt þetta stendur.

Viðvíkjandi stofnfje bankans leyfi jeg mjer að spyrja hæstv. stjórn, af því að aðeins er heimild í frv. til að greiða bankanum 3 milj. kr. viðbótarstofnfje, hvort það sje meiningin að láta bankann fá þá upphæð. Mjer skilst, að það geti ekki annað verið en að hæstv. stjórn sje þegar búin að taka ákvörðun um það atriði, af því að 5 manna nefnd hefir skoðað bankann og gefið stjórninni sitt álit á hag bankans. Jeg spurði við 1. umr., hver væri niðurstaða þessarar skoðunar, en fjekk ekkert svar. Hæstv. fjmrh. hefir að vísu síðan sagt mjer persónulega um niðurstöðuna. En jeg skal ekki skýra frá því hjer, því að jeg var ekki á því hreina með það, hvort hann ætlaðist til, að það skyldi opinskátt, er hann skýrði mjer frá. Þó að jeg viti þannig um niðurstöðuna af rannsókn á hag bankans, þá er mjer kunnugt um, að ýmsir í mínum flokki vita ekkert um hana. Jeg tel það mjög óheppilegt, að þingmönnum skuli ekki einu sinni vera skýrt frá niðurstöðunni. Það gæti orðið til þess að koma í veg fyrir getgátur og misskilning, ef það væri gert. Jeg hjó t. d. eftir því, að hv. 2. þm. Rang. sagði, að bankinn væri „vitanlega insolvent“. Það er ekki gott að heyra slíkt sagt í þingdeildinni og vita kannske ekki sjálfur hið sanna. (GunnS: Bankinn gefur það upp sjálfur, að hann sje eignalaus). Já, að hann standi á núlli, en það stendur hvergi, að hann sje „insolvent“ fyrir því. Og ef dæma má eftir framkomu hæstv. stjórnar, má ætla, að það sje ekki álit hennar, að svo illa sje komið fyrir bankanum, því að frv. hæstv. stjórnar, sem kalla má svo, gefur aðeins heimild til þess að greiða bankanum viðbótarstofnfje. Ef svo væri, að bankinn væri í svo sárri nauð sem hv. 2. þm. Rang. gefur í skyn, þá vildi jeg að minsta kosti mega ganga út frá því, að hæstv. stjórn væri fús til þess að hlaupa undir bagga.

Maður gæti hugsað sjer, að það kynni að vera eitthvað verra en þetta, af því að nú er stungið upp á ótakmarkaðri ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum bankans.

Jeg skil ekki í, að það geti verið neitt kappsmál að koma þessu frv. fram á þessu þingi. Málið hefði gott af því að bíða til ræsta þings, ef ske kynni, að það yrði þá betur undirbúið. Jeg skil ekki, að það hafi neitt að segja fyrir bankann, þótt það dragist um eitt ár að koma þessum breytingum í kring. Það væri ekki nema gott að lofa landsmönnum að átta sig á því, hvort það er yfirleitt holt fyrir ríkið að taka ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Þótt undan sjeu teknar í frv. útlendar skuldbindingar, þá er vitanlega altaf hægt að breyta þeim í innlendar.

Út af 1. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að bankinn taki lán án tryggingar í eignum sjálfs sín, þá verð jeg að benda á, að mjer er ekki ljóst, hverskonar lán það geta verið. Jeg veit ekki betur en það sjeu lög í landi hjer og alstaðar þar, sem jeg þekki til, að taki maður lán, þá sje eign hans öll trygging fyrir láninu, hvort sem það er tiltekið sjerstaklega eða ekki. Ef maður lánar öðrum, þá hefir maður altaf tryggingu í eignum þess, er lánið þiggur. Jeg fæ ekki skilið, hval þetta ákvæði felur í sjer, nema vera kynni, að „trygging“ eigi hjer að þýða sama og „veð“ í ákveðnum eignum bankans. Ef það er, þá er greinin í meira lagi undarlega orðuð og nær ekki þeirri hugsun, sem bak við það kynni að liggja.

Því hefir verið haldið fram, að það væri siðferðislega rangt að hafa ekki ríkissjóðsábyrgð á bankanum. En er þá ekki eins um erlendar skuldbindingar bankans og innlendar? Hvers vegna eiga aðrar siðareglur að gilda gagnvart erlendum skuldunautum og skiftavinum? Ef það er siðferðislega rangt gagnvart innlendum viðskiftamönnum, að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á fje því, er þeir fela bankanum, þá hlýtur það líka að gilda gagnvart útlendingum. Siðferðismunur á innlendum og útlendum skuldbindingum getur ekki verið til. Annað mál er það, að jeg sje ekki þetta siðferðislega ranga við það að hafa ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans. Það er fullkomlega rjettmætt að taka ákveðinn hluta eigna sinna og setja í ákveðið fyrirtæki og láta það síðan ráða sjer sjálft án þess að hafa á því nokkra frekari ábyrgð. Þetta kemur fram bæði í hlutafjelagalögunum og hjá einstökum mönnum. Landsbankanum hefir verið fengið fje, sem hann á að ráða yfir í ákveðnum tilgangi. Og eins og hann á að njóta þess, er starfsemin gengur vel, svo á hann að bera skakkaföllin, en á ekki heimting á, að ríkið hlaupi undir bagga, hvenær sem á bjátar. Hitt er aftur á móti álitamál, hvað hyggilegt þykir að gera á hverjum tíma um stuðning við bankann, en að gefa slíkt loforð um ótakmarkaða ábyrgð fyrirfram er óvarlegt, undarlegt og óþarft.

Samkvæmt stjórnarskrá vorri er reglan sú, að enginn getur ráðið yfir fje ríkissjóðs nema Alþingi og stjórn landsins, en verði frv. þetta samþ., þá ræður stjórn Landsbankans óbeinlínis yfir því líka, þar sem tveir bankastjórar Landsbankans geta skuldbundið ríkissjóð. Þetta kemur óneitanlega dálítið undarlega fyrir, þegar þess er gætt, að hversu smávægileg fjárveiting, sem til umræðu er hjer á Alþingi, verður hún venjulega að ganga gegnum þrjár umr. í hvorri deild. Að ganga inn á þessa braut, að aðrir en þing og stjórn geti bundið ríkissjóði fjárhagslega bagga, er því tvílnælalaust á móti anda stjórnarskrárinnar, enda þótt svo kunni að vera, að það sje ekki beint á móti orðum hennar.

Annars fæ jeg ekki sjeð, að það sje verra að hafa takmarkaða ábyrgð á Landsbankanum en öllum sparisjóðum og fjölda sjóða, sem ríkið hefir stofnað, eins og t. d. Brunabótasjóð Íslands. Þar hefir ríkissjóður ábyrgð að upphæð alt að 800 þús. kr., og er ekki ábyrgur gagnvart sjóðnum fyrir hærri upphæð. Sama er að segja um samábyrgð íslenskra fiskiskipa; þar er ábyrgð ríkissjóðs líka takmörkuð. Það á sjer því hvergi stað, að farið sje fram á jafntakmarkalausa ábyrgð ríkissjóðs eins og hjer er gert. Og hættan af þessu er auðsæ, því að bankastarfsemi er yfirleitt mjög áhættusöm, og það hefir reynslan líka sýnt okkur, eins og mörgum öðrum þjóðum, þar sem bankar okkar hafa tapað ca. 20 milj. króna á síðustu 10–15 árum. Það fer vitanlega eftir árferði, hve mikið tap bankanna er. Það er því mjög hæpið að ganga út frá því, að þessi skilyrðislausa ábyrgð á Landsbankanum geti ekki orðið hættuleg fyrir ríkissjóðinn. Mitt álit er því, að bankinn eigi að eiga sig sjálfur, vera sjálfstæð stofnun, sem standi á sínum eigin fótum. Geti hann það ekki nú, á að setja undir hann fæturna og láta hann svo eiga sig sjálfan.

Um 15 manna bankanefndina þarf jeg ekki að vera margorður. Um hana hefir svo mikið verið sagt. En jeg skal ítreka það, sem jeg hefi áður sagt, að mjer finst það höfuð, sem á bankanum er nú, vera nægilega stórt, enda er starf þessarar nefndar ekki annað en það, að kjósa bankaráðið, og þá sje jeg ekki annað en að Alþingi geti alveg eins kosið bankaráðið eins og að fela það starf 15 manna óþörfum millilið.

Þá get jeg ekki annað en tekið undir það, sem ýmsir aðrir hafa haldið fram, að það sje fyllilega óviðfeldið, og jafnvel hættulegt gagnvart öðrum peningastofnunum, að láta ríkissjóð bera ótakmarkaða ábyrgð á öllu sparisjóðsfje í Landsbankanum. Sjerstaklega getur það orðið hættulegt fyrir Sparisjóði úti um land. Og jeg tel Landsbankann ekki hafa gert svo mikið fyrir sveitir landsins, að neitt rjettlæti geti verið í því að styðja hann til þess að soga til sín sparifje þeirra, sem þær annars gætu notað til útlána innan hjeraða. Jeg hjó eftir því, að háttv. 1. þm. Reykv. ljeti orð falla í þá átt, að hann teldi ekki óeðlilegt, þó að ríkið bæri ábyrgð á seðlaútgáfu bankans. En þar er jeg ekki á sama máli. Jeg held, að slíkt gæti orðið talsvert dýrt fyrir ríkissjóð, því að það mundi geta haft það í för með sjer, að bankinn væri skyldur að innleysa seðla sína á hverjum tíma fyrir nafnverð (pari). En slíka ábyrgð hafa engar þjóðir þorað að taka á sig. Hvað áhættuna snertir þarf ekki að minna á annað en hvernig fór á stríðsárunum, þegar gengismunurinn kom til sögunnar.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að jeg býst alls ekki við, að þessi breyting á bankalögunum verði til þess að skapa ró um bankann, en hún er honum nauðsynleg, eins og öðrum peningastofnunum. Og því til sönnunar þarf ekki annað en benda á, hvernig gekk með Íslandsbanka meðan óróin var um hann. Þá gekk honum altaf ver og ver, en nú síðan friður varð um hann, hefi jeg fyrir satt, að honum sje farið að ganga miklu betur. Það sýnir best, hve nauðsynlegt það er, að ró sje um bankana.