10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4607 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. Skagf., að umræður þessar sjeu þegar orðnar óþarflega langar, og jeg efast líka um, að þær sjeu í alvöru, því að það lítur helst út fyrir, að andstæðingarnir hafi komið sjer saman um að halda uppi nokkru málrófi, því að þeir hafa staðið upp hver eftir annan og tekið upp sömu ástæðurnar. Það virðist því alveg bert, að þetta hafi verið ákveðið fyrirfram. Sömuleiðis hafa þeir leitt umræðurnar langt út fyrir efnið, með því t. d. að halda langa fyrir lestra um bankamál alment. Líka hafa þeir verið að tala um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar, sem gert var út um í fyrra og liggur því ekki fyrir nú. Það hefir því svo farið, að andstæðingar málsins hafa ekki orðið málstað sínum að því liði, sem þeir ætluðu, þar sem rök þeirra, ef einhver hafa verið, hafa kafnað í orðaflaumi. Það lítur því helst út fyrir, að þeir telji málstað sinn ekki svo góðan, að hann sje þess verður að rökræðast, og hafa því tekið þann kostinn að kæfa alt í orðaglamri. Og dettur mjer í því sambandi í hug gamli málshátturinn: „Altaf í þynnra að þynnra þynkuna allra hinna“.

Hæstv. fjmrh. hefir svarað öllu því, sem fram hefir komið hjá andstæðingunum snertandi þetta mál, sem nokkru máli skiftir, því að þó langt sje síðan hann talaði, var þá alt komið fram, sem heitið geta ástæður, af því, sem þeir höfðu fram að bera. Get jeg því verið stuttorður. Og jeg mun halda mjer að nál. minni hl., því að engar ástæður hafa komið fram gegn frv., hvorki hjá hv. frsm. eða öðrum, sem ekki eru nefndar þar, og jeg mun alls ekki leggja út í það að fara að svara þessum löngu umræðum orði til orðs, heldur halda mjer við þau atriði, sem snerta málið sjálft, og svara því engu þeim atriðum, sem ekki snerta efni frv., eða útþynningunum.

Jeg skal þá strax skilja frá seðlaútgáfuna, því að hún liggur fyrir utan þetta mál nú. Þó vil jeg benda á, að með bankalögunum í fyrra var bankanum skift í þrjár deildir, aðskildar um rekstur og reikningshald, sem mjög auðvelt er að skilja í sundur, og það fljótlega, ef fyrirkomulagið þætti ekki reynast vel.

Það, sem mjer virtist vera aðalatriðið í ræðum hv. 1. minni hl. (ÓTh), var það, að honum þótti varhugavert að breyta svo fljótt Landsbankalögunum, sem samþ. voru í fyrra. En mjer finst það ekki nema eðlileg afleiðing af þeim skoðanamun, sem þá kom fram. Breytingin er gerð nú til þess að láta það fyrirkomulag, sem núverandi þingmeirihluti barðist fyrir í fyrra, fylgja bankanum frá upphafi, því að lögin frá í fyrra eru — svo að segja — ekki komin til framkvæmda enn. Þá er látið svo, sem breytingar þessar gætu frekar komið til mála síðar, t. d. eftir 3–4 ár, en þá ber þess að gæta, að slíkur tími væri þó of stuttur til að gefa nokkra ábyggilega reynslu.

Annara er það einn af höfuðkostum þess, að hafa þing á hverju ári, hve fljótlega þá er hægt að breyta um, ef mistekst með löggjafaratriði.

Þessu fylgdi sú ásökun hjá háttv. þm. (ÓTh), að þetta væri svívirðileg tilraun til þess að ná tökum á bankanum. Út af þessum ummælum skal jeg taka það fram, að allir hv. þm., sem um málið hafa talað, hafa talað um það með fullri kurteisi, nema þessi eini þingmaður. Þessi gífuryrði hv. frsm. eru ekkert annað en rökvilla, sem hittir engan, nema þá helst hann sjálfan og þá flokksbræður hans, sem málinu fylgdu í fyrra. Skal að því vikið síðar. Einnig sagði hv. þm., að ef lögum þessum væri breytt nú, mætti búast við, að þeim yrði breytt aftur, í hvert sinn er skifti um meiri hl. í þinginu. Hann var því að hóta að gera slíkt hið sama og hann sjálfur telur svívirðilegt hjá öðrum. Annars má í þessu sambandi segja það, að þótt látið væri vera að breyta nú, þá er það engin trygging fyrir framtíðina, því að meiri hl. þings lætur aldrei binda sig — og á ekki að láta binda sig — í málum, sem hann telur mikilsverð.

Þá kem jeg að aðalatriði frv., ábyrgð ríkissjóðs á bankanum. Það kom fram hjá þessum hv. þm. o. fl., að þeir skilja ekki, hvað siðferðisleg ábyrgð er. Menn þessir virðast alveg gagnteknir af þeirri hugsun gróðafjelaganna, að hirða gróða þegar hann er að fá, en hlaupa svo frá öllum skuldbindingum þegar ver gengur og tap er. Það mætti láta sjer detta í hug, hvort hin miklu töp bankanna eigi ekki einmitt rót sína að rekja til svona hugsanagangs. Nei, það verður áreiðanlega altaf traustara, að menn byggi á þeim grundvelli, að standa við skuldbindingar sínar, eins og við ætlumst til, að gert verði með Landsbankann. Þetta hafa hv. andmælendur líka viðurkent, því að þeir hafa haft þau ummæli, að ef til kæmi, þá myndi ríkissjóður verða að hlaupa undir bagga með bankanum, svo hann bæri ekki upp á sker. Hví þá ekki að játa þetta undanbragðalaust? Þetta er reynslan líka búin að margsanna, þar sem ríkissjóður hefir hvað eftir annað hlaupið undir bagga með jafnvel einkabanka, sem áreiðanlega væri margfarinn um koll, ef ríkið hefði ekki styrkt hann.

Þá er það eitt höfuðatriðið í röksemdafærslu hv. andmælenda gegn ábyrgð ríkissjóðs á bankanum, að hún yrði til þess að draga fje frá sparisjóðum úti um land. Þeir, sem setið hafa á fyrri þingum, munu kannast við þessa röksemdaleiðslu. Menn hafa sem sje óttast, að einkabankar gætu ekki starfað, ef ríkisbankanum væru veitt einhver forrjettindi framyfir þá. Hvað snertir hættu þá, sem sparisjóðunum hefir verið talin stafa af ábyrgð ríkissjóðs á Sparisjóði Landsbankans, þá held jeg, að ekkert þurfi að óttast. Til sparisjóðastarfseminnar úti um land liggja aðrar og dýpri ástæður en aðeins þær, að geyma sparifjeð tryggilega. Menn hafa stofnað þá til þess að bæta úr peningaþörf hjeraðanna, og sá hugsunarháttur hefir gripið svo fast inn í meðvitund manna, að hann mun ekki þoka fyrir annari eins hugsun og þessari. Menn úti um land, sem lagt hafa fje sitt í Sparisjóðina, þekkja ekki slíkan hugsunarhátt sem þennan. Reynslan er líka margbúin að sýna, að sparisjóðir úti um land eru tryggar stofnanir, þó að þeir hafi ekki ábyrgð ríkissjóðs. Þeir hafa tryggingu í sparisjóðslögunum og sínum varlegu starfsvenjum, og auk þess er fyrir þeim sjerstök ábyrgð. Það er alveg rjett, að ef svo færi, að einhver sparisjóður lenti í kreppu, þá er líklegt, að það myndi draga frá honum. En slíkt myndi jafnt verða, hvort sem frv. þetta yrði samþ. eða ekki, því að það eru fleiri tryggar leiðir til að ávaxta fje en að ávaxta það með sparisjóðskjörum, t. d. að kaupa vaxtabrjef veðdeildar eða ræktunarsjóðs.

Þá lagði hv. frsm. 2. minni hl. (SE) áherslu á, að það væri hættulegt fyrir „kredit“ landsins, að bankinn mætti taka lán erlendis gegn veði í sjálfs sín eignum. En þetta hefir alls enga þýðingu, þegar bankinn er eign ríkisins og gengið er út frá, að það beri ábyrgð á honum.

Þá var þessi hv. þm. að tala um, að þetta fyrirkomulag á bankanum myndi koma nærri stjórnarskránni. Með stjórnarskránni væru settar strangar reglur um veitingu fjár úr ríkissjóði, en hjer væri verið að efna til þess, að væru eins og tveir ríkissjóðir, hinn minni — hinn eiginlegi ríkissjóður — og hinn stærri — bankinn. Svona tal hlýtur að koma af því, að menn skilja ekki muninn á fjárveitingum úr ríkissjóði og úr bankanum. Það fje, sem veitt er úr ríkissjóði, er venjulega ekki afturkræft, en það, sem veitt er úr bönkum, er afturkræft, enda lánað gegn tryggingum. Þessi munur ætti öllum að vera ljós. Svo er ábyrgð ríkissjóðs til frekari tryggingar, að bankinn verði ekki fyrir tjóni, ef eitthvað ber út af.

Ein ástæðan, sem færð hefir verið fram gegn frv., er sú, að með því eigi að draga frá bankanum nauðsynlegt stofnfje. Þetta er alls ekki rjett. Enda er það af flestum hv. andstæðingum játað, að ekki sje verulegur munur á frv. og gildandi lögum um þetta efni. Í öðru tilfelli er heimilað að leggja fram fje strax, en í hinu er gert ráð fyrir, að það verði gert þegar og ef með þarf. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram, mun það mikið spursmál, hvort það er ekki einmitt betra fyrir bankann. Hann fer þá vel og varlega með það, sem hann hefir, og á hitt til vara, ef hann þarf með. Hitt ætla jeg að varði meiru, að bankanum sje vel og hyggilega stjórnað, en það, þó að hann fengi nú þegar einhverja viðbót við stofnfje sitt, þó það væru 3 miljónir. Því að ef litið er á það, hve miklu bankinn hefir tapað á undanförnum árum, þá hygg jeg, að jafnvel 3 miljónir mundu hrökkva skamt til að vega á móti því. Þess má líka geta, að ef honum er vel og gætilega stjórnað, svo að komist verði hjá töpum, mundi hann geta safnað sjer varasjóði allmiklum á jafnvel fáum árum, og um það er betur búið í frv. og betur fyrir því sjeð, að hann fái að njóta þess.

Þeir hv. þdm., sem verið hafa á fyrri þingum, kannast við, að fyrv. fjmrh. (JÞ) gat þess í umr. um bankamálið, að hentast mundi að leggja stofnfjeð til á þann hátt, að ríkið tæki að sjer eitthvað af þeim lánum, sem það hvort sem er stendur í ábyrgð fyrir. Ef svo væri að farið, þá yrði ríkissjóður auðvitað að standa straum af vöxtunum, en það er ekki það aðalatriði, sem skiftir verulegu máli um afkomu bankans á svo stórkostlegri veltu sem hann hefir.

Þá var það breytingin á stjórnarfyrirkomulagi bankans. Um hana hafa komið fram nokkuð skiftar skoðanir. Sumir hafa talið hana til spillis, en aðrir ekki. Álit hv. andstæðinga okkar hefir ekki fallið á eina leið um það. Nú hafa þeir tekið það fram, að mest riði á því að skapa sem mesta ró um bankann. Þessi breyting lýtur nú einmitt að því að gera nokkurskonar skjólgarð um bankann, svo að hann verði sem minst háður tíðum skoðanaskiftum þings og stj., svo að hann geti starfað sem óháðastur. Það er því hvað á móti öðru að halda því fram að nauðsynlegt sje að skapa ró um þessa stofnun, sem allir eru sammála um, og svo að vera á móti þessari breytingu, sem einmitt á að tryggja hana. Því verður ekki neitað, að það er ekki hægt að hafa eins snögg áhrif á stjórn bankans gegnum nefndina eins og gegnum þingið. Þetta með landsbankanefndina var líka ein af þeim till., sem milliþinganefndin lagði mesta áherslu á, einmitt út frá þeim forsendum, sem jeg nú hefi lýst.

Það var álitamál á sínum tíma, hvort það væri rjett að láta Landsbankann hafa seðlaútgáfuna, og þetta var ein af þeim varúðarráðstöfunum, sem talið var nauðsynlegt að gera til þess að það gæti talist óhætt.

Það kom berlega fram hjá hv. 1. þm. Reykv., hve auðvelt menn eiga með að skifta um skoðun, því að um leið og hann lýsti því, hve hættulegt það væri að láta stofnun eins og Landsbankann vera háða tíðum skoðanaskiftum, þá gekk mikill hluti af ræðu þessa bankaráðsmanns í það að afsaka sín eigin skoðanaskifti, að hann nú er á móti því, sem hann fylgdi meðan hann starfaði í milliþinganefndinni. Hv. 2. þm. G.-K. vildi nú setja þetta í samband við þá „svívirðilegu“ tilraun andstæðinga sinna til að ná tökum á bankanum. Jeg hefi nú talað um þetta áður. En jeg vil nú spyrja hv. þm., hvort andstaða flokksbræðra hans gegn þessu máli er sprottin af því, að þeir finni nú, að þeir sjeu að missa tökin á bankanum og málefnum hans. Ef hv. þm. vill halda slíku fram, að þessar hvatir ráði afstöðu okkar til málsins, þá verður hann líka að láta sjer lynda, að dæminu sje snúið við og þetta heimfært upp á hann og hans skoðanabræður. Jeg vil ekkert um það segja. Jeg læt hann um það, hvort hann vill halda þessu fram eða ekki.

Jeg hefi þá minst á allar þær höfuðmótbárur, sem hv. andstæðingar hafa fært fram gegn málinu.

Þá er eitt atriði, sem jeg vil minnast á nokkuð, þótt mjer beri ekki fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar að svara til þess, og það eru þau ámæli, sem hæstv. stj. hefir hlotið fyrir að hafa ekki gert heyrinkunnugt mat það, sem fram hefir farið á Landsbankanum. — Við, sem vorum í minni hl. í fyrra, viðurkendum ekki þetta mat og álitum það þýðingarlaust, og það er það að vísu. Það verða allir að viðurkenna, að mat á slíkri stofnun getur aldrei orðið ábyggilegt til þess að byggja neitt á fyrir framtíðina. Enda er mat ekki annað en áætlun, sem er breytileg, eftir því á hvaða tíma hún er gerð. Ef mat væri framkvæmt árlega á bankanum, þá mundi það sýna sig, að niðurstöðurnar yrðu breytilegar. Það er álitið, að hagur bankans hafi batnað á síðasta ári, og ef vel gengi, má gera ráð fyrir, að útkoman yrði alt önnur að ári liðnu. Það er líka ástæðulaust að kippa sjer upp, þó að miður vegni eitt árið en annað. En svo er annað, sem sýnir, hvað þýðingarlítið þetta er. Það er það, að ríkið ber ábyrgð á öllu hvort sem er. Hvað þýðir þá að vera að búa sjer til tölur, sem ekkert er á að byggja í raun og veru? — Jeg vildi aðeins láta þessa athugasemd fylgja um þetta atriði.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala meira um þetta mál að svo stöddu. Jeg býst reyndar við, að andstæðingarnir rísi nú aftur upp í keðju til að „fá að tala um málið“. En jeg mun ekki skifta mjer mikið af því, að minsta kosti ekki við þessa umr. Jeg sje ekki ástæðu til að skemta — jeg vil ekki segja skrattanum — með því að gefa þeim kærkomið tilefni til að hafa eitthvað til að tala um. Jeg mun því hjer eftir láta þá tala við sjálfa sig við þessa umr.