10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4624 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg hafði í fyrstu ræðu minni kvartað yfir því, að hæstv. fjmrh. skyldi ekki hafa tíma til þess að vera viðstaddur umræðurnar um þetta mál, svo að hann gæti skýrt þetta afarmikilvæga mál fyrir okkur hinum óbreyttu þm. En nú varð jeg fyrir því láni, að hann kom inn í deildina rjett í því að jeg var að ljúka máli mínu, og þótt hann hefði ekki heyrt nema síðustu orð mín og engin meginatriði ræðu minnar, þá vjek hann að mjer allmörgum orðum, og ekki öllum vingjarnlegum. Hann kvaðst hafa rætt mikið um þetta mál, og gæti hver þm. lesið það í handritum þingtíðindanna, er frammi lægju í lestrarsal. Hæstv. ráðh. veit þó, að svo mikið hefir verið að gera á þessu þingi, að þm. hafa haft annað að gera en að lesa alt, sem sagt hefir verið í umræðum í annari deild, og því fremur ætti hann að vita það, þar sem hann veit, að við sitjum hjer oft 12–18 tíma á þingfundum, og þar sem hann veit ennfremur vel, að við höfum fleira að gera en það, því að við verðum auk þess að vinna að nefndarstörfum.

Hæstv. ráðh. kvaðst hafa skilið mig svo, að jeg áliti, að afgreiðsla mála á þessu þingi væri til skammar, og þá um leið sjálfum mjer til skammar. — Þetta er rjett; jeg álít, að svo sje. En jeg reyndi að bera í bætifláka fyrir hv. þm. með því, að málin, sem fyrir þessu þingi hafa legið, hafa verið svo mörg og stór, að ekki hefir verið hægt að vinna að þeim svo sem þurft hefði og sjálfsagt væri. Ábyrgðina á því bera svo, eftir mínum dómi, þeir, sem flest frv. flytja, en það eru, eins og hv. 1. þm. Skagf. sagði í sinni ræðu og sannaði stjórnarflokkarnir, því að þeir hafa flutt nokkuð á annað hundrað frv., en andstæðingar þeirra aðeins 12, og auk þess 9 frv. í sameiningu við hina.

Jeg hafði haldið því fram í viðurvist hæstv. ráðh., að þessar tíðu breytingar á löggjöfinni væru óviðeigandi. Hæstv. ráðh. taldi þær bera vott um öra framþróun, en jeg hygg það rangt vera; hitt mun sanni nær, að þær beri vott um það, sem jeg einmitt var að segja, að það sje ekki svo vandað til starfa þingsins sem skyldi, og því er það löngum svo, að það þarf ár eftir ár að vera að lappa upp á það, sem fyrri þing hafa gert, og hygg jeg, að það verði aldrei talin nein þingprýði. Vil jeg svo aðeins, í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði í minn garð, beina frá mjer þeim ásökunum, að jeg væri í fremstu röð þeirra manna, sem tefja þingið með óþörfum umræðum. Það er að vísu satt, að jeg hefi talað í allmörgum málum, en þó lítið í öðrum en þeim, sem jeg hefi sjálfur borið fram eða verið frsm. að, eða þeim, sem jeg þá hefi búist við að verða frsm. að, en sem ekki hafa komið frá nefnd, enda tel jeg skyldu mína að gera svo. Annars er það víst löngum svo, að stjórnarflokkurinn, hver sem hann er, er yfirleitt hneigður til að líta svo á, að andstæðingarnir sjeu altaf með óþarfa málalengingar, þegar þeir eru að gagnrýna aðgerðir stjórnarinnar. En jeg hjelt, að svo þingvanur maður sem hæstv. ráðh. myndi ekki telja það nema rjett, að þeir vildu ekki láta málin ganga fram án þess að segja álit sitt um þau, enda er það skylda flokkanna. Þeir verða að bera fram rök sín í málunum, og svo sker stjórnarflokkurinn úr um það, hver rök hann tekur til greina hjá andstæðingunum.

Svo vil jeg víkja nokkrum orðum að hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar, en þau verða ekki mörg, vegna þess að hann svaraði í rauninni heldur fáu af því, sem jeg hafði talað um í minni framsöguræðu. Jeg hafði bent á, að það væri skaðlegt, að ríkissjóður tæki ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans, svo sem nú er ætlast til samkvæmt því frv., sem hjer liggur fyrir. Jeg hafði talið það skaðlegt vegna þess, að það myndi draga úr starfsemi annara sparisjóða í landinu, en jafnframt er seðlabanka enginn hagur að því, að í hann streymi sparifje landsmanna. Jeg hafði leitt rök að þessu undir fyrri umræðum um málið, og hirði nú ekki að fara að endurtaka þau, en vil aðeins andmæla því, sem hv. frsm. sagði um þetta. Hann taldi nefnilega, að vegna þess að sparisjóðirnir hefðu alveg víst og ákveðið hlutverk að vinna, hver í sínu hjeraði, þá væri þar með trygt, að eigendur sparifjár myndu ekki taka fje sitt úr þeim til þess að leggja það í Landsbankann, þótt sparisjóðirnir yrðu sjálfir og einir að bera ábyrgð á því fje, sem þeir hefðu, en ríkið annars bæri ábyrgð á því sparifje, sem ávaxtað væri í Landsbankanum. Jeg er samþykkur hv. frsm. meiri hl. um það, að menn muni nokkuð líta svo á sem hann segir, en hitt er aftur víst, að ef það kemur oft fyrir, að menn tapi fje sínu í sparisjóðunum, eins og átti sjer stað um sparisjóðinn á Eyrarbakka fyrir nokkru, og sem getur komið fyrir oftar og annarsstaðar, þá er það víst, að menn fara eingöngu að ávaxta fje sitt í Landsbankanum, þar sem þeir hafa ábyrgð ríkissjóðs á því.

Mjer skildist, að hv. frsm. meiri hl. væri enn að tala um það, að ríkissjóðs ábyrgð á Landsbankanum væri alveg eðlileg og nauðsynleg til þess að málið stæði á siðferðislegum grundvelli, og að fyrir honum vekti það, að best væri, að menn stæðu við sínar skuldbindingar. Við erum alveg sammála um það, að sjálfsagt sje, að hver og einn standi við sínar skuldbindingar, en einmitt sá, sem viðurkennir þetta, á líka að geta fundið, að það er best að fara varlega um skuldbindingar. Og hvað snertir siðferðisgrundvöllinn, þá er honum ekki raskað, hvor leiðin sem farin er, því ef ríkissjóður leggur Landsbankanum stofnfje og tilkynnir svo alþjóð manna, að þessi ábyrgð sje aðeins við það fje bundin, þá eru engin svik höfð í tafli. Það veit jeg, að hv. þm. viðurkennir.

Jeg hafði sagt, að það væri mjög illa ráðið að ætla nú að vinda bráðan bug að því að breyta stjórn bankans með þeim hætti, sem frv. tilgreinir, nefnilega með því að víkja hinu nýskipaða bankaráði frá þegar í stað og velja annað í staðinn, og jeg hafði sagt, að í mínum augum væri þetta aðeins svívirðileg tilraun til þess að ná völdum í bankanum. Við þessi ummæli ætla jeg að standa, því að þetta er mín skoðun og jeg er alveg sannfærður um það, að þeir, sem ekki samsinna mjer um þetta, þeir munu þó flestir hafa grun um, að tilgangurinn sje sá, að ná völdum í bankaráðinu. Og ef menn vilja hafa þetta ámæli af sjer, þá er leiðin sú, að láta ekki þessa breytingu koma til framkvæmda fyr en kjörtímabil bankaráðsmannanna er á enda. Ef það er breytingin sjálf, sem máli skiftir, þá er það ekki svo mikilsvert, hvort hún kemur til greina nokkrum árum fyr eða síðar, en ef um völdin er að ræða, þá er það annað mál, og af því að meiri hl. þingsins stendur svo fast að því, að þetta komist til framkvæmda strax, höfum við mótstöðumenn frv. fulla ástæðu til að halda því fram, að auðsjeð sje, hvað vaki fyrir stuðningsmönnum þess.

Hv. frsm. sagði, að jeg hefði haft í hótunum um það, að ef þessu yrði breytt þannig nú, þá myndi því strax verða breytt aftur, þegar annar þingmeirihluti kæmist til valda. Jeg hafði engar hótanir í frammi, sagði aðeins, að mjer þætti ekki ólíklegt, að uppskeran yrði eftir því, sem sáð hefði verið, en hjer er því sáð, að eðlilegt mætti virðast, að þingmeirihlutinn krefðist þess á hverjum tíma, að bankaráðið væri rjett spegilmynd af honum. Jeg óttast að þetta verði svo, en þetta voru engar hótanir frá minni hendi, heldur aðeins gagnrýning á því, sem hjer væri verið að stofna til, og látinn í ljós ótti við það, hvaða afleiðingar þetta tilræði hefði. Það er ekki nema eðlilegt, þegar hnefinn er reiddur að einhverjum, að hann vilji, þegar andstæðingurinn snýr vel við höggi, reiða sinn hnefa aftur að honum, og hverjum væntanlegum þingmeirihluta er það vorkunn, þótt hann gæti ekki stillingar, þegar hann tekur við völdum, en fylgi því fordæmi á einn eða annan hátt, sem þegar á að gefa, að bankaráðið skuli vera spegilmynd af þingmeirihlutanum.

Jeg tók það fram í minni ræðu, að þótt það fyrirkomulag, sem farið er fram á í frv., næði, fram að ganga, þá óttaðist jeg ekki þar fyrir, að neinir bófar myndu veljast í bankaráðið, heldur taldi jeg það fordæmi mjög hættulegt, að slík stofnun sem seðlabanki ríkisins skyldi vera háður slíku umróti, því að honum er ekkert hættulegra en það, ef á að gera hann að leiksoppi í höndum stjórnmálaflokkanna. Slík stofnun á að geta verið fullviss um velvild og styrk stjórnarinnar á hverjum tíma, hver sem meiri hl. er og hvernig sem hann er.

Hv. frsm. meiri hl. spurði mig, hvort andstaða mín og annara. andmælenda frv. væri sprottin af því, að við óttuðumst að missa völdin í bankanum. Nei, það er af óttanum við afleiðingarnar af þessu fordæmi; það er sú raunverulega ástæða, og hún er líka alveg tæmandi.

Jeg er einn þeirra manna, sem bent hafa á það, að þegar taka á þær ákvarðanir, sem frv. fer fram á að teknar sjeu, þá sje nauðsynlegt fyrir löggjafann að vita niðurstöðu þess mats, sem fram hefir farið á bankanum, og það vakir fyrir mjer, þegar jeg óska eftir að fá að vita um þessa niðurstöðu, að ef niðurstaða matsins sýnir, að hagur bankans er verri en þingið 1927 gerði ráð fyrir, þá verður að leggja bankanum fje í viðbót við það stofnfje, sem honum er ætlað með lögunum frá 1927. Það sjá allir, að ef bankinn skyldi vera ver stæður en ætlað var, og heimildin um viðbótarstofnfje yrði svo ekki notuð, þá er bankinn orðinn alt annar en honum var ætlað að vera, þegar honum var falið erfitt hlutverk á þinginu 1927. Þá litu þingmenn svo á, og voru margir framsóknarmenn í þeim hópi, að ef bankinn ætti að geta int af hendi það hlutverk, sem honum var ætlað með lögunum frá 1927, þá þyrfti stofnsjóður hans að vera svo og svo mikill; en nú er okkur ætlað að draga úr tryggingunni um upphæð stofnsjóðsins, en um leið er verið að hvísla ýmsum orðrómi um það, að bankinn sje ver stæður en ráð var fyrir gert. Það er ekki hægt að ætlast til, að þingið samþykki slíkar breytingar, því að stofnun eins og seðlabanki verður að vera svo úr garði gerð frá upphafi, að hún geti int af hendi skyldur sínar. Svo skal jeg fúslega játa það, sem hv. frsm. sagði, að nauðsynlegt sje, að slíkri stofnun verði vel stjórnað, en hv. frsm. veit það líka, að það er ekki nóg, að henni sje vel stjórnað, heldur verður stjórn hennar líka að fá þau nauðsynlegu frumskilyrði, sem ekki verður framhjá gengið, en þær línu voru skýrt dregnar með lögunum frá 1927. En þegar á að breyta þeim línum, þá verðum við að fá að vita, á hverju þær óskir eru bygðar, en okkur hefir alveg verið synjað um svar í þeim efnum.

Um matið sagði hv. frsm. meiri hl., að væri þýðingarlaust að vera að deila, því að ríkið æfti hvort sem væri að bera ábyrgðina. En jeg er nú þannig skapi farinn, að jeg vil gjarnan vita fyrir mitt leyti, á hverju jeg á að bera ábyrgð, og svo varfærinn er hv. frsm. meiri hl. sjálfur, að jeg hygg, að hann myndi spyrja, ef hann ætti sjálfur að bera slíka ábyrgð. Og það er þeim mun meiri ástæða til að spyrja um ábyrgðina, ef ætlast er til, að ríkið beri ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans.

Jeg hirði nú ekki að vera að tína upp hin minni atriði úr ræðu hv. frsm. meiri hl., enda mun nú ráðið um afdrif málsins. Þótt stjórnarliðið hafi ekki getað lagt til rök í málinu, þá getur það þó lagt því til atkvæði. (Fjmrh. MK: Það getur hvorttveggja). Ja, jeg hefi nú, sannast að segja, oft heyrt hæstv. ráðh. færa betri rök fyrir máli sínu heldur en nú hefir átt sjer stað, en ef til vill hefir hæstv. ráðh. oftekið sig á rökfærslunni í Ed.