10.04.1928
Neðri deild: 67. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4634 í B-deild Alþingistíðinda. (3869)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jóhann Jósefsson:

* Það voru fá atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem komu nálægt því, sem kalla mætti röksemdaleiðslu. En þótt þau væru fá, mega þau ekki ómótmælt standa.

Jeg kippi mjer ekki upp við það, þótt hv. frsm, segði, að jeg og flokksbræður mínir vildum tefja málið með málrófi. Jeg veit, að röksemdafærsla okkar hefir komið honum og fylgismönnum frv. illa.

Hann vildi halda því fram, að það væri misskilningur, að nokkur hætta væri á ferðum, þótt dregið væri úr stofnfje bankans. Hann taldi, að mest væri undir því komið, hvernig stjórn bankans væri. Úr því að hann ljet sjer svo tíðrætt um stjórn bankans, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp umsögn bankastjórnar Landsbankans í brjefi til fjhn. Ed., dags. 28. febr. þ. á.; þar segir svo um Landsbankanefndina m. a.:

„Oss virðist þó eigi ólíklegt, að slíkt fyrirkomulag muni verða allþunglamalegt og eigi sjeð, að með því sje öruggar búið um stjórn bankans en nú er.“

Þegar aðgætt er, frá hverjum þetta brjef kemur, og það, að alt brjefið er mjög varlega orðað, þá er ljóst, að núverandi bankastjórn lítur svo á, að síður en svo sje öruggar búið um stjórn bankans, þótt frv. verði að lögum, og því er ekki hægt að halda því fram, að frv. bæti stjórn bankans að neinu leyti. Alt, sem fram kemur frá sjerfróðum mönnum, mælir á móti frv.

Hv. frsm. talaði mikið um, að vel færi á því, að menn stæðu við skuldbindingar sínar og væri nauðsynlegt og affarasælast að hafa það hugfast í þessum málum sem öðrum. Þetta getum við fallist á, — en er þá ekki nauðsynlegt og affarasælt, að þingið standi við skuldbindingar sínar gagnvart Seðlabankanum? Þessi röksemdafærsla hv. frsm. meiri hl. er öll málstað okkar í vil, þegar hún er krufin til mergjar. Við teljum einmitt hættulegt að hrófla við skuldbindingum síðasta þings.

Út af ummælum hans um það, að stofnfje bankans væri ekki rýrt með frv. og að hann taldi það misskilning hjá mjer, að svo væri, vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp umsögn bankastjórnarinnar um það atriði úr sama brjefi og áður. Þar segir svo:

„Nú þegar sett hafa verið lög um seðlaútgáfuna, má eigi víkja frá þeirri kröfu bankans, sem fer með seðlaútgáfuna, að hann fullnægi ákvæðum laganna. Þá er brostið það aðhald að stjórn bankans, sem er tilgangur laganna, og þá eru horfin þau skýru merki, sem eiga að sýna þingi og þjóð, hversu heilsufarið er í fjármálunum. Fái bankinn ekki nýtt stofnfje, þá er að vísu til önnur leið til þess að fullnægja ákvæðum laganna. Hún er sú, að draga þegar svo mikið úr notkun lánstrausts erlendis, að ákvæðum laganna verði fullnægt. Þessa leið álítum vjer ekki færa, eins og ástatt er; og reynslan hefir sýnt, að ávalt má búast við miklum áramun í viðskiftunum við útlönd og þar af leiðandi verður seðlabankinn að vera viðbúinn að fullnægja óvenjulegri eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri; álítum vjer því ókleift að minka lánsnotkunina skyndilega svo mikið, að með þeim hætti verði ákvæðunum um seðlaútgáfuna fullnægt til frambúðar.“

Bankastjórnin bendir á, hver afleiðingin geti orðið af því að minka stofnfjeð, og bendir á þá leið að minka notkun erlends lánstrausts. Allir geta sjeð, hvað það hefir að, þýða fyrir atvinnuvegina. Hjer tala þeir menn, sem mesta þekkingu og reynslu hafa í þessum málum, og hafa án efa lagt rækilega niður fyrir sjer, hvaða leið yrði að fara, ef bankinn er sviftur stofnfjenu. Því var haldið fram af andstæðingum Landsbankalaganna, að seðlabankinn yrði að dragast saman, svo að ógagni yrði fyrir atvinnurekstur landsmanna, jafnvel þó stofnfjeð væri 5 miljónir kr., og þá er ljóst, hvaða hætta er á ferðum, ef dregið er úr þessari upphæð.

Hv. frsm. meiri hl. taldi ágætt, að þing væri haldið á hverju ári til að hægt væri að breyta lögum sem oftast. Jeg hefi áður látið í ljós álit mitt um breytingar á seðlabankanum og sýnt fram á, að þær eru til tjóns. Ef rökrjett ályktun er dregin af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, sannar það alt mál mitt og annara andstæðinga frv.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.