12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4648 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annars minni hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg vil minna hæstv. forsrh. á, að hjer er ekki um neitt smámál að ræða. Hjer er verið að tala um, hvort taka eigi ríkisábyrgð á Landsbankanum, og fleiri stórvægilegar breytingar. Jeg veit ekki, hvaða innanlandsmál fyrir hinu háa Alþingi liggur stærra en þetta. Jeg mótmæli þessari misbeitingu á ákvæðum þingskapanna af því, að jeg álít hjer lagt inn á ósæmilega braut. Jeg er sannfærður um það, að ef hinn almáttugi meiri hluti ætlar að fara að beita valdi sínu á þennan hátt, hlýtur það að vekja óhug um land alt. Hv. meiri hluti og hæstv. stjórn skulu hugsa til þess, að það kemur dagur eftir þennan dag. Jeg segi fyrir mig, sem stend á grundvelli hinnar frjálslyndu stefnu, að jeg fyllist óhug yfir þeirri kúgun, sem hjer fer fram í dag. Fyrst er synjað afbrigða um brtt. af hæstv. forsrh. og þar með farið inn á alveg nýja braut. (HjV: Það var einnig gert í fyrra!). Hafi það átt sjer stað í fyrra, leyfi jeg mjer einnig að víta þá, er þá hafa staðið fyrir því. Hv. meiri hluti má vita, að hann græðir ekki á slíkri harðstjórn. Svo mikill kraftur og festa er enn í þjóðinni, að hún hlýtur að standa á móti þessu.