12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4650 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Guðmundsson:

Mjer sýnist svipað og hv. 2. þm. Rang., að ómögulegt sje að segja, að umræður hafi dregist úr hófi fram, og því er vafamál, hvort hjer er hægt að nota 37. gr. þingskapanna. Annars vildi jeg mega spyrja hæstv. forsrh., hvort hann gæti ekki sætt sig við að taka málið af dagskrá til morguns. Hann má reiða sig á, að ekki verða langar umræður, ef brtt. fá að komast að. Ef hæstv. forsrh. hefði leyft afbrigðin í dag, er jeg sannfærður um, að umræðum væri þegar lokið. En með ofríki dugir alls ekki að taka af minni hlutanum þann eina rjett, sem hann hefir, þann, að gera tillögur og tala um málin. Enda er það svo, að tveir hv. þm. hafa kvatt Sjer hljóðs, og hefir hæstv. forseti úrskurðað, að þeir fái að halda ræður sínar. Er ekki gott að vita, hve lengi þeir tala, ef umræður verða að öðru leyti skornar niður. Það er spá mín, að málinu verði flýtt en ekki seinkað með því að taka það út af dagskrá.