12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4652 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. verður auðvitað sjálfur að gera það upp við samvisku sína, hvort hann treystir yfirlýsingum mínum eða ekki. Jeg skal ekki ræða neitt um það. En hann verður að vita, að hann á ekki einn að dæma um það, hve lengi á að ræða málin. Annars getur hæstv. ráðh. áreiðanlega ekki sagt, að jeg hafi beitt neinu málþófi eða tafið þingstörfin með löngum ræðum. En mjer virðist eðlilegt, að framsögumenn þurfi stundum að tala nokkuð mikið. — Jeg skil vel þá tilhneigingu hæstv. ráðh., að vilja hafa sem stystar umræður, en hann má þó ekki gera tilraun til að taka af mönnum rjettinn til að segja skoðun sína. Jeg get sagt honum það, að hann gerir hvorki þessu máli nje öðrum nokkurn greiða með því að sýna þá ósanngirni, sem hann hefir sýnt í dag. Það getur komið honum sjálfum í koll. En út af orðum hans get jeg lýst yfir því, að í Íhaldsflokknum er engin samþykt í þá átt að tefja framgang þessa eða nokkurs annars máls.