12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4652 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. annara minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg er neyddur til að bera af mjer sakir. Hæstv. forsrh. sagði, að jeg hefði „nálega altaf“ beðið um, að þetta mál væri tekið út af dagskrá, þegar það hefir átt að koma fyrir. Jeg held, að þetta sje„nálega alt“ ósannindi. Jeg hefi aldrei farið þess á leit, að þetta mál væri tekið út. Og þegar hæstv. ráðh. hallmælir mjer fyrir að bera fram skriflega brtt. á síðustu stundu, þá er það aðeins til þess að auka óþarft málæði. Hæstv. ráðh. veit ósköp vel, hvernig á því stendur, að tillagan kom ekki fyr fram. Jeg hafði leitað hófanna fyrir 2. umr. um slíka brtt., bæði hjá hæstv. forsrh. og fleirum, en fengið mjög daufar undirtektir. En við 2. umr. komu fram ummæli, sem knúðu mig til að reyna til hins ítrasta að koma þessari breytingu fram.

En hæstv. forsrh. skal vita, að hann flýtir ekkert fyrir þingstörfum með því að beita ofbeldi. Og það situr síst á hæstv. ráðh. að vilja varna mönnum máls, honum, sem verið hefir þektasti málskúmur Alþingis. (Forseti hringir). Það er óþarfi fyrir hæstv. forseta að hringja, því að jeg meina ekkert ljótt með þessu orði, og jeg veit ekki betur en að það sje venja okkar hæstv. ráðh. árum saman að nota þetta orð hvor um annan. Hæstv. ráðh. talaði bæði oft og mikið meðan hann var stjórnarandstæðingur, og situr manna verst á honum að finna að slíku hjá öðrum. Jeg geri ráð fyrir, að það valdi, að öllum stjórnum finst andstæðingarnir tala óþarflega mikið. En þetta álit er algerlega rangt á okkur íhaldsmönnum.