12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4666 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

103. mál, Landsbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Það er nú í raun og veru farið að fyrnast nokkuð yfir þau eindæma ósköp, sem hjer hafa gerst. En einhverntíma hefir það verið sagt, að einsdæmin væru verst. Það hefir nú gerst það, sem fæstir mundu hafa trúað á hæstv. forsrh., að hann hefir beitt því ofríki hjer í hv. deild, að leyfa ekki þessum litlu brtt. að komast að, og fara nú að tíðkast hin breiðu spjótin.

Um þetta tiltæki má segja, að það minni á söguna um Gladstone og kúna, sem rjeðist á hann og lagði hann undir og hafði nærri gengið af honum dauðum, en Matthías orti um. Vitsmunirnir eru ekki altaf meiri, þar sem valdið er meira. Mjer finst, að þessi viðburður, sem hjer hefir orðið, sýni það svart á hvítu, að „glögt er það enn, hvað þeir vilja“ í þessu máli. Jeg hafði grun um það, þegar er frv. kom fyrir þingið, að það væri ekki annað en umbúðir utan um alveg sjerstakan tilgang, nefnilega þann, að ná yfirstjórn bankans í hendur ákveðins flokks. En til þess að hylja þetta hafa þeir tekið ýms aukaatriði og vafið þennan fallega kjarna inn í þau sem umbúðir. Þetta verður enn ljósara af því, að þeir hafa ekki fengist um það, þó að frv. væri breytt í stórum atriðum, eins og átti sjer stað í hv. Ed. að því er snertir ákvæðin um stofnfje bankans, en undireins og hreyft er við þessu eina atriði, þá er beitt ofríki. Það er þá auðsjeð, að þetta er aðalatriðið, að ná þessum tilgangi, og sjá nú allir, hve mikil umbótaviðleitni hefir valdið um flutning þessa máls.

Nú sjá menn, hvernig stendur á því, að hæstv. fjmrh. var á þönum út um hvippinn og hvappinn að leita að röksemdum fyrir því, að þetta frumvarp er fram borið, eins og það, að hjer sje verið að færa málið í það horf, sem milliþinganefndin hafði lagt til. Um leið hafa þeir haft ánægju af því að gefa „selbita“ einum starfsmanni bankans, sem þeir vissu, að var þeim andstæður í stjórnmálum. Í sambandi við það var borin fram hjer brtt. Hvers vegna mátti hún ekki koma til atkv.? Mjer hefir nú reyndar dottið í hug, að það er hægt að láta þessa brtt. koma til atkv. Það þarf ekki annað en að málið verði ekki afgr. á þessum fundi. Og það væri ósköp vel hægt að tala um þetta mál til kl. 6 í fyrramálið, og þyrfti þá engin afbrigði. En jeg mun nú ekki hverfa að því ráði og skal verða mjög stuttorður.

Þegar jeg bað um orðið, hjelt jeg, að brtt. mundu komast að, og ætlaði aðeins að tala um þær báðar. Ef svo hefði verið, væri nú búið að afgreiða málið.

Jeg vil leggja áherslu á það hjer, að það eru ekki þesskonar atvik, svo sem það, hvort þm. senda brtt. sínar einni stundu fyr eða síðar til prentunar, sem eiga að ráða úrslitum um afgreiðslu þingsins á stórmálum þjóðarinnar. Nú stóð líka svo á, að málið þurfti að fara aftur til hv. Ed., svo að það var þess vegna engin hætta á að samþykkja brtt.

Jeg hefði tæplega trúað því um hæstv. forsrh., að hann ætti það til að misbeita svo því synjunarvaldi, sem honum er veitt með formi þingskapanna. Jeg held það fari að eiga hjer við, sem Ívar á Vors sagði: „Ekki er sjá þó sæmilegur í öndveginu, tötrabassinn.“ Mjer finst hæstv. forsrh. varla hafa verið sæmilegur í öndveginu að þessu sinni. Það er sama að segja um þetta vald og forsetavaldið, að alt er undir því komið, að því sje beitt með fullkomnu rjettlæti; annað er óþolandi. En þó kastaði fyrst tólfunum, þegar átti að skera umr. niður, þegar málið er til 3. umr., og því borið við, að óhæfilegar málalengingar hafi átt sjer stað, og umr. hafði þá aðeins staðið um hálfa stund.

Annars verð jeg að segja, að meðferð þingmeirihl. á þessu mikla máli hafi verið því algerlega ósamboðin. Það var byrjað með að taka það til 1. umr. hjer í hv. deild um miðnætti, og var það afsakað með því, að umr. mættu bíða til 2. umr. Til 2. umr. er málið svo tekið á laugardaginn fyrir páska, þegar nokkrir þm. eru fjarverandi með forsetaleyfi, og nú á að klykkja út með því að skera niður umr., þegar málið er við 3. umr. Slíkum aðförum vil jeg algerlega mótmæla hjer á þingi.

Ef einhverjum finst langar ræður hafa verið haldnar hjer í þessu máli, þá vil jeg leyfa mjer að benda þeim hv. þm. á ræðu þá, sem hæstv. dómsmrh. hjelt í bankamáli fyrir nokkrum árum, jeg ætla það væri 1923, og biðja menn að bera hana saman við þessar ræður nú.

En þó fanst mjer skörin færast upp í bekkinn, þegar sjálfur postuli frjálslyndisins, hv. 2. þm. Reykv., ekki aðeins skrifar undir áskorun um að skera niður umr., heldur lætur sjer sæma að víta hæstv. forseta fyrir að leyfa mönnum að tala um þingsköp.

Jeg skal svo ekki teygja málið meira, en óska hæstv. stj. til hamingju með þessar breytingar á lögunum um aðalpeningastofnun landsins: að taka ábyrgð á öllum þessum tugum miljóna, en svifta bankann því afli, sem hann hefir til þess að inna hlutverk sitt af hendi, og að hringla með yfirstjórn bankans í augsýn alls heimsins.

Að lokum vildi jeg óska málinu þess, að betur rættist úr þessu bankans vegna en til er stofnað.