12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4670 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

103. mál, Landsbanki Íslands

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. þm. Barð. komst þannig að orði, að hann mundi „bera af sjer sakir, eða með öðrum orðum bera sakir á hæstv. forsrh.“ Jeg hygg, að mörgum hv. þdm. hafi þótt þessi orð einkennileg, en hv. þm. hagaði sjer eftir þeim og bar sínar eigin sakir á hæstv. forsrh. (HK: Slúður!). En jeg vil spyrja: Hvers vegna ljet hv. þm. Barð. sig vanta, er greidd voru atkv. um málið við 2. umr.? Jeg er hræddur um, að honum sárni nú meir vegna þess, að hann kennir sjálfum sjer um afglöpin. Nú ber hann fram brtt., sem feld var hjer við 2. umr., og fæ jeg ekki betur sjeð en að það sje þvert á móti því, sem þingsköp kveða skýrt á um. Jeg tek aðeins hjer til máls til þess að það heyrist, að hv. þm. Barð. veltir ekki af sjer neinum sökum með slíkum ókvæðisorðum um hæstv. forsrh. Reiði hans er einangruð við aðra brtt., sem leitað var afbrigða um, en snertir ekki hina, sem miklu er stórvægilegri. Hann er ekki sá áhugamaður, að reiði hans sje þung. Og það hefir heldur engin áhrif á okkur hjer á þingi, þó hann miklist yfir því, að hann hafi hótað einhverjum sveinstaula vestur á Barðaströnd með flengingu. Hann getur ekki búist við, að þingmannsheiður hans vaxi mjög af slíku.

Í sambandi við hina brtt., frá hv. 2. þm. G.-K., vil jeg þó taka fram, að hefði hún komið til atkv., mundi jeg hafa fylgt henni. Umrót á yfirstjórn bankans við meirihlutaskifti á Alþingi eru hættuleg; öryggi og festu er best borgið með því að nýir meirihlutar nenni að bíða síns tíma, þegar um þjóðbanka er að ræða. Jeg er samþ. frv. að öðru leyti en ákvæði 23. gr., þó jeg að vísu hefði heldur kosið, að núverandi lánum Landsbankans, sem eru á ríkisábyrgð, hefði verið breytt í stofnfje, heldur en að breyta stofnfjárákvæði gildandi laga. Því er jeg mótfallinn. En þar sem brtt. þessi kemur ekki til atkv., vildi jeg þá láta getið í umr. afstöðu minnar til hennar. (MJ: Þarna er kannske ástæðan fyrir synjun hæstv. forsrh.?).