14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4680 í B-deild Alþingistíðinda. (3917)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jóhannes Jóhannesson:

Eins og hv. 5. landsk. gat um, var hjer í deildinni samþ. brtt. um það, að fjehirðir Landsbankans hjeldi stöðu sinni á meðan hans nyti við, þrátt fyrir breytingar þær, sem gerðar hafa verið á Landsbankalögunum. Og þetta var samþ. með það fyrir augum, að gera fjehirði jafnhátt undir höfði og aðalfjehirði og aðalbókara. Og þessari hv. deild fanst þá ekki nema eðlilegt, að sama væri látið gilda um þessa þrjá núverandi föstu starfsmenn bankans.

En hv. Nd. var á annari skoðun. Hún feldi fjehirðinn niður, en ljet hina tvo standa, og því hefi jeg leyft mjer að bera fram þessa brtt., til þess að koma í veg fyrir, að þessi starfsmaður bankans verði beittur misrjetti. Vona jeg því, að hv. deild haldi fast við sína fyrri skoðun og fallist á þessa brtt. mína. Að öðrum kosti fæ jeg ekki betur sjeð en að settur sje blettur á fjehirði og gefið í skyn, að hann hafi eitthvað til saka unnið, eða þá að hann hafi ekki rækt starf sitt sem skyldi. En mjer vitanlega er engu slíku til að dreifa.

Hv. 5. landsk. ljet í veðri vaka, að yrði þessi litla en sjálfsagða brtt. samþ., gæti svo farið, að málið yrði ekki útrætt. En jeg get lofað honum því, að samþ. þessarar brtt, þarf ekki að verða til þess að tefja málið. Jeg hefi fulla vissu fyrir því, að það verður ekki neitað um afbrigði í hv. Nd., og þá getur málið komið þar til einnar umr. á þriðjudag, og munu engar umr. verða um það af hálfu stjórnarandstæðinga. Mjer finst ekki nema sjálfsagt, að þessi starfsmaður bankans sje jafnhár hinum tveimur, sem frv. undanskilur. Með því að taka hann út úr er settur á hann ómaklegur blettur, sem mjer finst ekki vansalaust fyrir þingið.