14.04.1928
Efri deild: 71. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4683 í B-deild Alþingistíðinda. (3919)

103. mál, Landsbanki Íslands

Ingvar Pálmason:

Jeg vil að síðustu fara örfáum orðum um þetta mál. Um brtt. hefi jeg lítið að segja, sem ekki er áður fram tekið. Að vísu hafa tveir hv. stjórnarandstæðingar gefið yfirlýsingu um, að þær skuli ekki valda töfum. Jeg hefi enga ástæðu til að vjefengja, að báðir þessir hv. þm. vilji gera það, sem þeir geta, til þess. En þetta er síðasta umræða í þessari deild, svo að þeim gefst ekki færi á að sýna sinn góða vilja í verki. Nú er þingtíminn á enda og hver smátöf getur hindrað framgang frv. Og jeg verð að segja það, að eftir framkomu stjórnarandstæðinga í Nd. undanfarna daga, yrði jeg að fá þeirra eigin orð, ef jeg ætti að treysta þeim til að greiða fyrir fljótri afgreiðslu málsins. Annars er jeg persónulega mótfallinn þessum brtt. og mun þegar af þeirri ástæðu greiða atkvæði gegn þeim.

Jeg sje ekki ástæðu til að halda langa ræðu nú. En þar sem hv. 3. landsk. hjelt því fram, að brotin væru lög á núv. bankaráðsmönnum með samþykt frv., verð jeg að segja, að jeg er á gagnstæðri skoðun. Jeg sje ekki, að hjer sjeum embætti að ræða í venjulegum skilningi. Hjer er aðeins að ræða um trúnaðarstöður, sem löggjafarvaldið hefir falið þessum mönnum, og jeg ætla það hafi vald til að skifta um trúnaðarmenn. Og jeg segi það eins og er, að jeg hefi ekkert á móti því, að reynt sje, hve haldgóð er staðhæfing hv. 3. landsk. o. fl. um rjettinn til skaðabóta. Tel jeg ekki óviðeigandi, að um hana verði nú feldur úrskurður, svo að menn þurfi ekki lengur að vera í vafa, þegar samskonar tilfelli koma fyrir.

Aðalorsökin til þess, að jeg stóð upp, var annars sú, að mig minnir, að ekki hafi verið tekið fram í umr., að við fjárhagsnefndarmenn lítum svo á, að 23. gr. frv. taki skýrt fram, að bankanefndina eigi að kjósa á þessu þingi, og svo kveðji sá, sem flest atkvæði fær, nefndina á fund. Ákvæði 12. gr. um fundarboð á ekki við í þetta sinn. Hugsum við okkur, að strax þegar búið er að afgr. lögin sje kosið í nefndina, og þegar staðfesting konungs er fengin, komi hún saman í fyrsta sinn. Það ætti að geta orðið áður en þingmenn fara heim af þingi.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, með því að frsm. meiri hl. hefir talað um breytingar Nd. á frv. og afstöðu okkar meirihlutamanna til þeirra.