21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

6. mál, laun embættismanna

Magnús Jónsson:

Jeg ætla ekki að fara út í þetta mál eins nákvæmlega og gæti verið ástæða til. Það tæki of langan tíma, jafnvel þó að ekki væri farið út í einstök atriði.

Jeg býst við, að ýmsum starfsmönnum ríkisins þyki það vonbrigði, að mál þetta skuli ekki vera meira undirbúið en raun er á. Það er öllum kunnugt, að mjög sterklega rökstuddar óskir embættismanna, er lágu fyrir þinginu í fyrra, voru kveðnar niður með þeirri röksemd, að endurskoðun launalaganna lægi við borð. Jeg hugsa, að þessi klögumál eða hróp embættismannanna í fyrra hafi helst þaggast niður af því, að nú höfðu þeir von um, að lögin yrðu endurskoðuð. Það er alveg rjett hjá hæstv. fjmrh., að mál þetta er nokkuð þungt í vöfunum fyrir þingnefnd. Það þarf ekki aðeins smábóta við, heldur gagngerðra breytinga. Og einmitt þess vegna þurfti það að fá undirbúning stjórnar. En fyrst stj. hefir ekki undirbúið málið til fulls, þá verður fyrst um sinn að hverfa að því að lappa upp á dýrtíðaruppbótina. Hv. þm. geta skorið úr því með atkv. sínu, hvort þeim þyki rjettmætt að draga 1/3 frá dýrtíðaruppbótinni, eins og nú er gert. Það er mjög einfalt mál.

Jeg vil leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh., hvort nokkurt erindi hefir borist stj. frá starfsmönnum ríkisins um launamálið. Hann mintist á milliþinganefnd í þessu máli, sem jeg get fallist á, að yrði erfitt að koma í kring. Þrátt fyrir það, að launanefndin hjerna um árið yrði einhver sú óvinsælasta milliþinganefnd — (Einhver: Af embættismönnum). Af öllum, svo að altaf er vitnað í hana, þegar verið er að standa á móti kröfum um milliþinganefndir, — þá býst jeg við samt sem áður, að þetta verði kannske ekki vel unnið nema milliþinganefnd komi til.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. stj., hvort stj. ætlar þá að bera fram till. um milliþinganefnd á þessu þingi.