12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4739 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir í raun rjettri sagt flest af því, sem segja þarf frá sjónarmiði þeirra, er vilja, að frv. gangi fram. Mál þetta er, eins og hann sagði, tvíhliða. Annarsvegar er það sparnaðarmál, en það er jafnframt endurbótarmál. Skal jeg fyrst ræða þá hlið málsins, sem jeg tel til endurbóta. Það er kunnugt, að bæjarfógetinn í Reykjavík dæmir flesta dóma allra íslenskra dómara og hefir því mjög mikið að gera. En auk þeirra dóma, sem eðlilega hljóta að fylgja embætti bæjarfógetans, dæmir hann marga, sem miklu eðlilegra væri í sjálfu sjer, að lögreglustjóri dæmdi. Enda er það álit margra, sem vit hafa á, að tvískifting ýmissa mála milli þessara tveggja embættismanna verði mjög oft til óþæginda. Vegna formsatriða verða embættin miður rækt en verða mætti. Ágæt dæmi eru til úr áfengismálunum. Þegar þurft hefir að gera húsrannsókn hjá einhverjum, hefir lögregluþjónninn fyrst orðið að sannfæra húsbónda sinn um þörfina á henni, og hann síðan bæjarfógeta. Hann lætur svo framkvæma rannsóknina. Þetta er óeðlilegur krókavegur, og nú stendur til að gera verkaskiftingu þessara manna eðlilegri. — Hv. frsm. meiri hl. útskýrði, hve örðugt er að fá menn, sem hæfir eru bæði til lögreglu- og tollstjórnar. Núverandi lögreglustjóri er t. d. mjög duglegur tollstjóri. En hæfileikar hans til lögreglustjórnar eru af ýmsum dregnir í efa. Í svona stórum bæ getur þetta haft mikla þýðingu. Eins og hv. 1. þm. Skagf. tók fram, hafa sum árin gengið gegnum lögreglustjóraskrifstofuna um sex miljónir króna; og þá er ekki nema eðlilegt, að reynt sje að gera það sem tryggilegast úr garði, að í þessu mikilsvarðandi embætti verði altaf maður, sem sje vel hæfur tollstjóri. Í þessu embætti ríður ávalt mjög á því, að innheimta sje í góðu lagi.

Jeg held, að það geti þess vegna ekki verið blöðum um það að fletta, að þessi skipulagsbreyting á að geta trygt starfræksluna betur en nú er gert. Er jeg með þessum orðum alls ekki að lasta þá menn, sem í embættinu hafa verið; bendi aðeins á gallana á formi, sem þeir eru ekki valdir að.

Hv. 1. þm. Skagf. þykir ólíklegt, að þessi tvö embætti geti kostað 120 þús. Jeg tel það reyndar ekki fulla sönnun, þó að aðalritstjóri málgagns Íhaldsflokksins hafi þráfaldlega haldið því fram, eða gert ráð fyrir því. Sá maður setti þetta fram í sambandi við hugmynd um bókaútgáfu, sem nú komst inn í þingið, og taldi, að einhverju af slíku fje væri betur varið til hennar. En þó að þessi maður hafi ekki haft nána þekkingu á því, hvað þessi embætti kostuðu, þá hefir hann verið málpípa fyrir skoðanir fjölda manns í bænum. Og eitt er víst: þeir, sem hafa allra besta þekkingu í þessu efni, hafa allra ákveðnasta skoðun um það, hvað þessi embætti hafi verið fjesæl á undanförnum árum.

Jeg ætla aðeins að nefna eitt dæmi, að annar þessi maður, sem hefir hærri launin, hefir einu sinni orðið að borga 9500 kr. í útsvar. Það er hámark venjulegra embættislauna í Reykjavík, og fjöldinn allur af starfsmönnum í bænum hefir ekki meira en sem svarar 1/3 af þessu eina útsvari í laun. Þessi embættismaður kærði ekki útsvarið, og það tel jeg sönnun þess, að hann hafi ekki álitið sjer geri rangt til. Bendir þetta einnig á, að skattanefndinni hefir verið vel kunnugt um tekjur hans.

Annar af þessum mönnum, hv. þm. Seyðf., gat þess í hv. Ed. við umræður, að tekjur sínar hefðu stundum verið 25 þús. kr.; og eftir þeim útreikningi, sem gerður var af einum samherja hv. 1. þm. Skagf., kom í ljós, að tekjur þessa embættis geta í meðalárum yfirleitt ekki verið minni en þetta. Þær geta náttúrlega verið meiri, þó að jeg óski ekki að fara nú út í það, því að þessu embætti fylgja svo margháttaðar aukatekjur, sem ekki er þægilegt að gera grein fyrir í stuttu máli. Jeg skal aðeins nefna það, að það er siður sumra bæjarfógeta og sýslumanna, að þeir álíta sjer rjettmætt að hafa einhvern arð af geymslufje dánarbúa og þrotabúa, sem þeir hafa undir hendi. Um það er deilt, hvort þetta sje rjett eða ekki: en jeg vil benda hv. þm. á það, að það er beint tekið fram í frv., að hver, sem hefir á hendi það starf í Reykjavík, á ekkert fyrir það að hafa. Jeg vil nefna eitt dæmi hjá einum dugandi sýslumanni á landinu. Hjá honum kom til skifta bú efnaðs manns, sem átti 30 þús. kr. í sparisjóðsbók. Sýslumaður tæmdi bókina og lagði inn á sinn reikning. Fjeð var á hans reikningi í heilt ár og gaf í hreina vexti 1300 kr. til skiftaráðanda. Einn af erfingjunum mótmælti, en sýslumaðurinn kvaðst hafa rjett til þessa. Menn sögðu því í „Spaugi“ að sýslumaður væri stærsti erfingi að búinu.

Jeg veit, að hv. 1. þm. Skagf. er það ljóst, að þegar óteljandi aukatekjur fylgja svona umsvifamiklu starfi, þá er ómögulegt fyrir nokkurn mann að segja nákvæmlega, hve miklu þær nema. Þess vegna er ekkert ráð við því annað en segja hreint og beint: Við borgum fullkomin embættislaun, en svo fær landið allar aukatekjur, hverju nafni sem nefnast. — Þetta, sem á hjer að gera, er ekki miðað við þá menn, sem nú eru, fremur en menn yfirleitt, sem koma kunnar síðar í þessi störf.

Annar möguleiki, sem mundi með núverandi fyrirkomulagi geta gefið eftirmönnum þeirra verulegar aukatekjur, eru vextir af innheimtufje. Náttúrlega er ætlast til, að þetta sje geymt á „konto“ landsins, en því hefir ekki verið skarpt framfylgt; og það er kunnugt, eins og um dánarbúin, að innheimtumenn álíta sjer leyfilegt að hafa slíka geymslu.

Í stuttu máli: Það liggur fyrir bein yfirlýsing frá öðrum þessara starfsmanna, að hans tekjur hafi orðið 25 þús. kr., og vitanlegt er, að hinn hefir meira. Þegar almannarómurinn hefir verið að skifta milli þessara manna, hafa öðrum verið ætlaðar 40 þús., en hinum 80 þús. Og það er það, sem áður nefndur blaðamaður sveigði að. Það má vitanlega deila um þetta; frá öðrum þeirra liggur fyrir lægri tala eins og nú stendur; en þetta fer vitanlega nokkuð eftir árferði, og sum árin hefir það verið hærra en nú. En um það verður ekki deilt, að þessi embætti eru í ósamræmi við önnur bæjarfógeta- og sýslumannaembætti á landinu.

Jeg held því fram, að embættin sjeu það tekjuhá, að það hafi beinlínis spillandi áhrif á aðstöðu embættismanna í landinu; því að þegar sumir embættismenn eru teknir út úr og settir miklu hærri en aðrir, þá kviknar óánægja af samanburðinum.

Sú röksemd hv. 1. þm. Skagf., að nýja fyrirkomulagið yrði dýrara, byggist á þeirri fullyrðingu hans, að ekki nema annar þessara manna muni óska að vera í embættinu áfram. Um þetta get jeg ekki sagt; en í hv. Ed. benti jeg á það, að þegar landritaraembættið var lagt niður, þá sárleiddist landritara að sitja á biðlaunum á eftir. Og jeg get vel trúað því a. m. k. um annan þessara manna, að hann vildi töluvert heldur halda áfram líku starfi og hann hefir haft en að vera iðjulaus, þó að hann hefði nóga peninga. En þetta er nokkuð, sem komið er undir mönnunum sjálfum og því ekki ástæða til að deila um nú. En jeg þykist vita, að allir skilji, að til þess hægt yrði að framkvæma þann sparnað, sem hjer er um að ræða, varð að leggja embættin niður. Það er rjett hjá hv. 1. þm. Skagf., að þeir eiga rjett á biðlaunum og síðar eftirlaunum; og þess vegna er það samkomulagsatriði fyrir þeim, hvorn kostinn þeir taka.

Jeg get ekki gengið inn á það, sem háttv. 1. þm. Skagf. hjelt fram, að kostnaður mundi aukast nokkuð verulega af því að þessar skrifstofur eru orðnar svo stórar hvor fyrir sig, að þessir menn báðir hafa aðstoðarmenn, sem verður að borga töluvert hátt af landsfje. Jeg vil t. d. benda á, að þar sem lögreglustjóri hefir að minsta kosti einn löglærðan fulltrúa, þá er óhugsandi, að tollstjóri hafi nokkra þörf fyrir slíkan fulltrúa. Lögfræðingur í hans stað verður lögreglustjóri, og þá er það aðeins sá litli launamunur, sem kemur til greina.

Viðvíkjandi till. hv. þm. Barð. um að fresta framkvæmd laganna þangað til þeir menn hættu, sem nú eru í starfinu, þá ber þetta að vísu vott um það milda og ljúfa hugarfar, sem jeg og allir vinir þessa hv. þm. vita, að hann hefir; því að þessi ráðstöfun miðar að því að setja hagsmuni þessara manna því hærra heldur en þá almennu hagsmuni, að umbótin, þó að hún annars sje nauðsynleg, megi ekki koma til framkvæmda fyr en hlutaðeigandi menn af frjálsum vilja eða við dauðsfall hverfa frá starfi. Þessi milda lund er ákaflega almenn, og hún byggist á því, að mönnum finst starfið og launin vera til vegna starfsmannanna. Þau lög, sem fjalla um þá menn, er fara úr embætti vegna lagabreytinga, miða að því að koma fram rjetti þjóðfjelagsins, ef það sjer sjer hag í breytingunni, þó að það hinsvegar viðurkenni, að hjálpa beri starfsmönnunum nokkuð yfir erfiðleikana, þegar þeir tapa embætti.

Ef till. hv. þm. Barð. gengur fram, þá er óþarfi að samþykkja frv., því að þá er ómögulegt að breyta embættunum í tíð þeirra manna, sem í þeim eru nú, hvorki með tilliti til launa eða að öðru leyti. Jeg verð að bæta því við, sem jeg hygg, að hvorki hv. þm. Barð. nje hv. 1. þm. Skagf. muni neita, að bak við þetta frv. er svo að segja óskift samúð allra þeirra manna, sem kunnugir eru málavöxtum.