12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4745 í B-deild Alþingistíðinda. (3955)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Jeg ætla þá fyrst að minnast lítilsháttar á hinar smávægilegu brtt., sem meiri hl. allshn. flytur við frv. þetta á þskj. 649. Fyrsta brtt. er leiðrjetting, að í 3. gr. frv. komi orðið „atvinnubóka“ í stað „atvinnubóta.“ Önnur brtt. er við 4. gr., að í staðinn fyrir orðið „aðalinnheimtu“ komi „innheimtu“. Þessa breytingu verð jeg að telja til bóta, því að hún kveður skýrar á um, að tollstjóri eigi að hafa forstjórn á allri innheimtu á tollum og sköttum til ríkissjóðs, sem undir embætti hans heyra. — Þá er 3. brtt.; hún er við 6. gr. frv. og kveður svo á, að 6. gr, skuli orðast svo: „Verslunarstaðirnir Skildinganes við Skerjafjörð og Viðey heyra að öllu leyti undir umdæmi Reykjavíkur um tollgæslu og lögreglustjórn.“ Þarna er Viðey bætt við það, sem er í frv., því að meiri hl. lítur svo á, að það eigi betur við, að hún heyri undir lögreglustjórann hjer heldur en undir lögreglustjórann í Hafnarfirði, eins og verið hefir. Leggjum við meirihl.menn svo til, að frv. verði samþykt með þessum breytingum. Það ræður því af líkum, að við getum ekki gengið inn á brtt. hv. þm. Barð., því að við leggjum áherslu á, að frv. þetta nái fram að ganga, þar sem við teljum það bæta mikið úr því ástandi, sem nú er. Og jeg skal taka það fram fyrir mína hönd persónulega, að jeg tel sjerstaka ástæðu til að skilja tollgæsluna frá lögreglustjórninni, af því að hæfileikar til þessara tveggja starfa, sem svo mjög eru óskyldir, felast ekki í einum og sama manni. En það, sem sjerstaklega vakir fyrir mjer, er að bæta lögregluna, og vænti jeg því, að þeir, sem eru fylgjandi ríkislögregluhugmyndinni, geti fylgt þessari breytingu, því að það verður að teljast ólíkt heppilegra að vinna að umbótum á lögreglumálunum á þennan hátt en með því að setja á stofn heilan her. Jeg hafði jafnvel hugsað mjer að koma með brtt. um að hafa líka sjerstakan uppboðshaldara; það er alstaðar í nágrannalöndunum sjerstakt embætti, og væri full þörf á, að svo væri einnig hjer í Reykjavík. Um nauðsyn slíks embættis vil jeg bera fyrir mig álit stjettarbræðra minna, lögfræðinganna, hjer í bænum. Þeir kvarta mjög undan því, að þeir geti oft ekki fengið uppboð framkvæmd eins fljótt og skyldi vegna anna hjá bæjarfógetanum.

Háttv. 1. þm. Skagf. talaði mjög rólega um málið og lagði mest upp úr því, að hjer kæmu 3 embætti í staðinn fyrir tvö. Þetta er rjett. En þess ber að gæta, að kostnaður við embættin verður ekkert meiri fyrir það. Annars ætla jeg ekki að fara að blanda mjer frekar inn í deilur um kostnaðarhlið þessa máls. Um það læt jeg þennan hv. þm. og hæstv. dómsmrh. deila.

Þá gat hv. 1. þm. Skagf. þess, að tollstjórinn þyrfti að hafa eitthvað fyrir áhættu, sem fylgdi hinni miklu skattheimtu. Þetta má vel vera, að sje sanngjarnt, og jeg fyrir mitt leyti væri því ekki mótfallinn, þó að honum væri ætluð einhver upphæð í þessu skyni, enda þótt sú aðferð, sem núverandi tollstjóri hefir tekið upp, að láta ekki af hendi skjöl nema borgun fylgdi, hafi dregið töluvert úr áhættu af innheimtunni.

Hvort báðir þessir menn, sem hjer eiga hlut að máli, láti af embætti og fari á biðlaun, skal jeg ekkert fullyrða um, en mjer þykir næsta ólíklegt, að svo muni verða, að minsta kosti að því er snertir tollstjórann, því að hann er ennþá tillölulega ungur maður.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.