12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4747 í B-deild Alþingistíðinda. (3956)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki fara mikið inn á þær rökræður, sem farið hafa hjer fram um þetta mál, en vil þó lítilsháttar fara inn á frv. sjálft, af því að jeg mun greiða atkvæði á móti því, enda þótt jeg sje hlyntur þeirri grundvallarhugsun, sem hæstv. ráðherra sagði, að lægi til grundvallar fyrir því, sem sje að koma í veg fyrir, að óhæfilega miklar aukatekjur rynnu til einstakra embætta. Þessi hugsun álít jeg, að sje alveg rjett og þörf á, að þetta sje vel athugað, þegar launamálin eru tekin til meðferðar. Jeg hefi heyrt, að þessum tveim embættum fylgi háar aukatekjur. Það er alveg rjett. En mjer finst það alveg óhæfileg undirbygging undir stjfrv., hvað blaðrað er á götunni. Um þetta þyrfti að fara fram rækileg rannsókn, sem eitthvað mætti byggja á. Hitt tel jeg, að ætti að vera undir virðingu hæstv. stj., að fara eftir söguburði einum um slíkt.

Jeg er á þeirri skoðun, að það þurfi að endurskoða launalögin mjög bráðlega, og jeg harma það, að ekki skuli hafa náðst samkomulag um milliþinganefnd í það mál nú á þessu þingi. Þegar að því kemur, hygg jeg, að ekki verði hjá því komist að gera allverulegar hækkanir. En einmitt upp í þessar hækkanir á að fá fje með því að girða fyrir, að til einstakra embætta fljóti óhóflegar aukatekjur. Jeg veit, að það er svo um sum læknisembættin, að þeim fylgja svo miklar aukatekjur, að þær eru helmingi eða jafnvel þrefalt meiri en hæstu embættislaun.

Það sýnist nokkuð einhliða, að á sama tíma og verið er að gæta þess, að enginn hafi of mikið í föst laun, þá er þess ekki gætt, að sumir hafa aukatekjur, sem beint leiða af embættinu, sem nema ef til vill helmingi meiru en launin sjálf. Svo er til dæmis um laun prófessoranna við háskólann, að þar er ekki um neitt samræmi að ræða. Prófessorunum í læknisfræði eru með nafninu einu skapaðar miklar aukatekjur, svo að heildarlaun þeirra verða miklu meiri en annara háskólakennara. Vil jeg þar til nefna prófessorinn í skurðlækningum, sem er langbest settur. — Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta, en af því að hæstv. dómsmrh. mælti þannig fyrir málinu, þá vildi jeg ekki láta andstöðu mína gegn þessu frv. skiljast svo, að jeg væri á móti þessu í sjálfu sjer.

Það er eins og á stundum skjóti einhverju ljósi upp í huga hæstv. dómsmrh., en honum verður því miður of oft á að demba svo og svo mörgum mælikerum yfir þetta ljós. — Það er til dæmis undirbúningsleysi þessa máls. Að það skuli vera hægt að deila um það nú, hvort hjer sje um að ræða 80 þús. króna hagnað eða 10 þús. kr. tap fyrir ríkissjóðinn. Maður skyldi halda, að sú ljósglæta væri nú komin yfir þetta mál, að ekki væri hægt að deila um slíkt.

Jeg get alls ekki fallist á þá hugsun að leggja þessi embætti niður og víkja þessum embættismönnum burtu. Slíkar breytingar sem þessi eiga að eiga sjer svo langan aldur, að þær komi til framkvæmda jafnóðum og embættin losna, nema þá að um hrein umskifti sje að ræða, sem krefji snöggra breytinga.

Jeg skal heldur ekki segja um það, hversu vel muni sjeð fyrir því með frv., sem á að vera aðalatriðið, að embættismennirnir hafi fastákveðin laun, en engar óákveðnar aukatekjur. Að því leyti mætti endurbæta frv. nokkuð með því að samþ. brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 676. Jeg mun greiða þeim mitt atkv., en þó ekki frv. þó að þær verði samþ. Jeg tel mjer ekki fært að fylgja máli, sem svo mikil óvissa fylgir sem þessu, þó að eitthvað nýtilegt mætti finna í því.