12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4757 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

72. mál, dómsmálastarf, lögreglustjórn, gjaldheimta o.fl. í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki að svara hv. frsm. minni hl. mjög ítarlega, því að það, sem hann tók fram, voru mest endurtekningar frá því, sem hann hefir áður sagt. En eitt verð jeg að leiðrjetta hjá hv. frsm., því að annaðhvort hefir hann misskilið eina mótröksemd mína, eða hann hefir fært hana viljandi til lakari vegar. Hann hjelt því fram, að jeg hefði hörfað frá þeirri skoðun minni, að af frv. þessu leiddi sparnað fyrir ríkið. Háttv. frsm. hefir þarna blandað orðum mínum saman við það, sem hann hefir sjálfur reynt að sýna fram á, að þegar skrifstofurnar yrðu 3, leiddi af því aukið mannahald. Jeg hefi nú sýnt fram á, að samt af starfsfólkinu sparast, en þó er það ekki aðalatriðið, heldur aukatekjur þær, sem þessum embættum fylgja nú. — Þessu hefi jeg ávalt haldið fram, og hefir hv. frsm. enga ástæðu til þess að túlka það sínum málstað í hag.

Mjer getur ekki blandast hugur um það af ræðum hv. 1. þm. Reykv., hv. þm. Barð. og hv. frsm. minni hl., að þeim finst menn þeir, er nú gegna embættunum, muni ver settir, ef þeir fara á biðlaun eða lægri laun. Jeg vil enn einu sinni taka það fram, að frv. þetta er ekki fram borið viðkomandi mönnum til ógagns, heldur til þess að leiðrjetta þann ágalla, sem verið hefir á embættaskipuninni. Það, sem okkur ber á milli, er það, hvort þjóðfjelagshagsmunir eða einstaklingshagsmunir eigi að ráða. Það er aðalatriðið hjá andstæðingum mínum í þessu máli, að þeir láta umhyggju fyrir þeim einstaklingum, er hjer eiga hlut að máli, hafa of mikil áhrif á afstöðu sína. Jeg vona, að hv. 1. þm. Skagf. viðurkenni, að þegar bæjarfógetaembættinu var skift, þá hafi fyrir slysni orðið til þessar feikna tekjur embættanna, og sjálfsagt sje að bæta fyrir það slys. Og einmitt þetta slys landsins varð til hagsbóta fyrir þessa menn um 10 ára skeið, enda viðurkendi háttv. 1. þm. Reykv., að núverandi lögreglustjóri hefði safnað sjer talsverðum eignum.

En hv. þm. segir, að lögreglustjóri hafi safnað sjer þessum eignum meðan hann starfaði í stjórnarráðinu. Jeg leyfi mjer að draga þetta í efa, þegar tekið er tillit til þess útsvars, er þessi maður greiddi þá. Meðan þessi maður var starfandi í stjórnarráðinu, greiddi hann 250 kr. í útsvar, og verður það að teljast mjög lágt. Nú er niðurjöfnunarnefnd kunnugt um tekjur og eignir svo áberandi manna, og þegar útsvarið hækkar á fám árum úr 250 kr. upp í 9000 kr., þá hlýtur það að vera sökum þess, að á þessum árum hafa borist að þessum manni mjög vaxandi tekjur.

Jeg hefði að sjálfsögðu ekki farið að rekja þetta, ef ekki hefði verið reynt að gera það ósennilegt, að þessi embættismaður hefði svo háar tekjur.

Því hefir verið haldið fram, að það væri ógætilegt af mjer, sem hefi samið þetta frv., að fá ekki að vita með vissu, hve háar tekjur væru af þessum embættum, en þess þurfti ekki með, þegar öllum borgurum bæjarins er það kunnugt. Í svona litlum bæ vita menn hver um annan og almannaróminum skjátlast ekki í þessum efnum. Auk þess hafa margir embættismenn minst á þetta og áfelt þingið fyrir það, að um leið og það klípur af hinum litlu tekjum annara embættismanna, þá hefir einn maður jafnháar tekjur og heil stjett þarf til viðurværis annarsstaðar. Er ekki þörf á nánari „statistik“ í þessu efni en hinni rótgrónu skoðun manna, hve mikið happ hafi fylgt þessum embættum, svo og því, að skattanefnd, sem veit um tekjur manna, leggur 9 þús. kr. útsvar á annan þessara manna án þess að það hafi verið kært. Jeg hefi ekkert samviskubit gagnvart þessum mönnum, sem svo vel hefir verið við gert og raun ber vitni um, þegar þeir eiga kost á biðlaunum, jafnháum embættislaunum þeirra, og eins ef þeir vildu gegna embættunum framvegis, þá væri mjög vel við þá gert eigi að síður.

Jeg býst við því, að mörgum embættismanninum, sem hefir 3000–4000 kr. árslaun og veit oft ekki, hvernig fullnægt verður brýnustu þörfum, fyndist það undarlegt, ef þingið synjaði þeim fyrst um launabót og sæi sjer síðan ekki fært að lækka laun þeirra tveggja embættismanna, sem hjer er um að ræða, frá því, sem verið hefir.