21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

6. mál, laun embættismanna

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) byrjaði ræðu sína með því að láta í ljós, að honum og að líkindum flestum af starfsmönnum ríkisins mundi verða nokkur vonbrigði, að málið kom hjer fram í þeirri mynd sem það er komið. Jeg verð að segja, að jeg álít þvert á móti, að þeim muni ekki geta orðið það mikil vonbrigði.

Viðvíkjandi spurningu hv. þm. um það, hvort nokkuð lægi fyrir frá stjórn Sambands starfsmanna ríkisins, er það að segja, að jeg bjóst við, að tilefni gæfist að upplýsa það, þótt jeg nefndi það ekki í fyrstu. Það er einmitt svo, að skjal liggur fyrir frá stjórn Sambandsins. Og eftir því, sem jeg skil það, er það einmitt ósk Sambandsins, að málið yrði ekki afráðið á annan hátt en þann, að milliþinganefnd yrði skipuð, einmitt þar sem Sambandið hefði tækifæri til þess að koma að áhrifum sínum gegnum sinn eiginn fulltrúa. Svo að þess vegna hygg jeg, að öllu athuguðu, að það hafi ekki eiginlega verið hægt að fara neina leið, sem nær gæti komið vilja hlutaðeigandi embættismanna, nema því aðeins, að rokið væri í það umsvifalaust, undirbúningslaust og hugsunarlítið að hækka laun þeirra svo að verulega miklu nemi.

En nú er því svo varið, að fjárhagur ríkisins hefir reynst erfiðari en við var búist, þannig að útkoma þessa síðasta reikningsárs verður talsvert bágbornari en menn höfðu búist við. Það er meðfram af þessari ástæðu, að það virðist ekki rjett að hrapa svo mjög að þessu. Jeg hygg það sje rjetta leiðin, að þingið fyrst og fremst fái að athuga málið.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. (MJ: Hæstv. ráðherra á eftir að svara spurningu minni). Jeg vil ekki svara þessari spurningu afdráttarlaust, því að það hlýtur að hafa mjög mikil áhrif, hvernig sú þingnefnd snýr sjer í málinu, sem fær það til meðferðar. Er því að minni hyggju ótímabært að svara þessari spurningu afdráttarlaust.