27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4771 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

100. mál, einkasala á áfengi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við fyrri hluta þessarar umr. gerði jeg grein fyrir brtt. nefndarinnar. En út af brtt. hv. þm. Snæf. vil jeg segja örfá orð.

Um a-lið brtt. á þskj. 591 vil jeg taka það fram, að jeg sje ekki ástæðu til annars en samþykkja hann. Jeg skal játa það, að jeg er ekki svo fróður í þessu, að jeg geti sagt um, hvort nafn það, sem við höfum valið, sje notað rjett. Eftir skýringu hans höfum við meint það sama. En úr því að „lyfjaskrá“ hefir aðra þýðingu, þá er sjálfsagt að taka brtt. hans til greina.

Viðvíkjandi b-liðnum, þá sje jeg ekki, að ástæða sje til að fella niður þetta ákvæði 4. gr. samkvæmt brtt. nefndarinnar, um að sjúkrahúsum megi ekki selja vín nje ómengaðan spíritus. Jeg sje ekki ástæðu til að veita þeim, sem hafa á hendi forstöðu sjúkrahúsanna, spítalahöldurum svo nefndum, heimild til að fá vín. Jeg sje heldur ekki, að þetta sje mikill galli, því sjúkrahúslæknirinn á kost á að fá vín það, sem á þarf að halda, með sömu kjörum og aðrir læknar. Jeg er því á móti b-liðnum.

Hvað snertir brtt. á þskj. 593, þá kannast jeg við, að það sje rjettmætt, að sjúkrahús njóti sömu kjara og læknar og fái lyf frá lyfjaversluninni án álagningar. Jeg er því með því, að hún verði samþykt.

Jeg sje ekki ástæðu til að. fara fleiri orðum um þessar brtt. Jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn hafi áttað sig á þeim og tekið afstöðu til þeirra.