21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

6. mál, laun embættismanna

Magnús Jónsson:

Mjer fanst það liggja í róminum hjá hæstv. fjmrh., þegar hann talaði um erindi stjórnar starfsmannasambandsins, að það væri í raun rjettri ekki mikið mark á því takandi. Þessi fjelagsstjórn yrði auðvitað að standa vel í ístaðinu fyrir sína menn, en slíkt mætti ekki taka of alvarlega.

Út af þessu vil jeg segja það, að erindið var ákaflega sterklega rökstutt. Það var fjarri því, að það væri sett fram sem málamyndarkrafa; og jeg held meira að segja, að allir hv. þm. hafi orðið að hallast að þeim rökum, sem færð voru fyrir því, að starfsmenn ríkisins hefðu of lág laun, en það sje bara getuleysi, sem geri það að verkum, að menn skoða huga sinn um það, hvort eigi úr því að bæta.

Auðvitað er tíminn stuttur fyrir stj. að undirbúa mál. En það lá mjög skýrt fyrir t. d. að hækka dýrtíðaruppbótina, þannig að hún sje reiknuð af öllum laununum, en ekki 2/3. Og það er svo einfalt, að það þurfti ekki þrjá mánuði eða þrjár vikur eða þrjá daga, — ekki nema þrjá klukkutíma fyrir stj. til þess að setja í launalögin ákvæði um þetta, ef hún áleit það rjett. Og það getur verið alveg eins mikil ástæða til að setja milliþinganefnd í launamálinu, þótt stj. hefði borið fram þessa breytingu.

Af því að þetta á að vera aðeins stutt aths., ætla jeg ekki að lengja umr., en mjer skildist hæstv. ráðherra taka orð mín svo, að jeg færi fram á, að stj. sjálf breytti launalögunum. Mjer datt vitaskuld ekki í hug annað en það mál kæmi í frv.-formi fyrir þingið.

Jeg fjölyrði svo ekki um málið, en vil fyrir mitt leyti fela það þeirri nefnd, sem fær það til fyrirgreiðslu. Það, sem farið er fram á af hálfu starfsmanna ríkisins, er ákaflega einfalt; aðeins er það að athuga, hvort hægt sje vegna fjárhags ríkissjóðs að verða við kröfum þeirra eða ekki.