02.04.1928
Efri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4776 í B-deild Alþingistíðinda. (3996)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg skildi ummæli hv. 5. landsk. á þann veg, að hann óskaði eftir að fá upplýsingar um það, hvort stjórnin hefði hugsað fyrir því, hve lengi núverandi ástand ætti að haldast. Þessu er mjög vandsvarað, því að hagur Íslandsbanka er þannig, að hann má varla við því að draga inn svo nokkru nemi af sínum seðlum. Og þótt margir telji ríkinu vandgerðara við Landsbankann, sem er að vísu rjett, þá álít jeg, að hagur Íslandsbanka sje svo samtvinnaður hag ríkisins og almennings, að gæta verði allrar varúðar um það, að gera ekkert það, er hnekt geti viðgangi stofnunarinnar.

Ef jeg man rjett, er gert ráð fyrir því, að seðlainndrættinum verði lokið 1933. Mun þá nægur tími til þess, að þessu ákvæði verði fullnægt, og því tel jeg ekkert athugavett við það, þótt þessi framlenging, sem nú er farið fram á, eigi sjer stað. Í næsta sinn, sem slík málaleitun kæmi fram, yrði annaðhvort að breyta kröfunni til bankans eða halda henni fast fram samkvæmt núgildandi lögum.

Jeg vil geta þess, að ríkissjóður hefir einhverjar lítilsháttar tekjur af seðlunum, og þótt það sje ekki beinlínis af þeim seðlum, sem Landsbankinn hefir í umferð, mun það koma fram í arði, en annars er það fremur óverulegt hvort heldur sem er. Vil jeg geta þess jafnframt, að Landsbankinn hefir skilið bankalögin frá síðasta þingi þannig, að hann sje algerlega leystur frá þeirri skyldu sinni að greiða nokkurt seðlagjald. Jeg hygg því, að öllu athuguðu, að sjálfsagt sje að verða við því að veita undanþáguna nú í bili, þar sem ekki er ólíklegt, að hagur Íslandsbanka kunni að batna svo á yfirstandandi ári, að ekki þurfi að gera ráð fyrir samskonar málaleitun á næsta ári. Því tel jeg þetta alveg áhættulaust og álít það eina af þeim ráðstöfunum, sem telja verður sjálfsagðar til þess að bankanum sje gert fært að gegna skyldum sínum um greiðslur á afborgunum og vöxtum á þeim lánum, er bankinn hefir tekið erlendis. Eftir mínu áliti gæti neitun um þessa undanþágu ekki leitt til annars en að bankinn yrði neyddur til að ganga harðar að sínum viðskiftamönnum. Það gæti frekar komið til mála síðari hluta ársins, ef framhald verður á því, að afkoma sjávarútvegsins verði eins góð og nú er útlit fyrir, því að þá eru meiri líkur til þess, að menn verði færari að inna af hendi greiðslur sínar til bankans. Það er ekki sökum þess, að fjárhagur bankans sje svo sjerstaklega bágborinn, heldur vegna þess, að bankinn á svo mikið útistandandi fje, að beita verður mjög mikilli varúð við innheimtuna, og því álít jeg, að öllu þessu athuguðu, að það sje rjett að veita undanþáguna að þessu sinni.