12.04.1928
Efri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4780 í B-deild Alþingistíðinda. (4003)

153. mál, Seðlainndráttur Íslandsbanka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Háttv. 3. landsk. þm. þurfti ekki að vera að leiðrjetta mig. Ummæli mín voru aðeins varnaðarorð, ekki síst til þeirra, sem eiga að gæta hinna dönsku hagsmuna bankans, af því að sú leið, sem nú er farin, er ófær til lengdar. Það má segja, að frestun inndráttarskyldunnar hafi undanfarið verið borin fram af stjórnunum og nú af hæstv. forsrh., en jeg lít á það sem bráðabirgðaskipun. Meiri hl. bankaráðsins er í náinni samvinnu við hluthafana, sem hafa vald til að hafa einn bankastjóra með 40 þús. kr. launum, sem er í ósamræmi við allar aðrar opinberar launagreiðslur, sem kunnugt er um, og sannkallað fjármálafurðuverk. Þó að bankinn sje vesall, hefir ekki tekist að hnekkja þessu. Jeg vil nú skýra frá því, að þegar hinir tveir framsóknarmenn í bankaráðinu, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., vildu koma fram lögun á þessum óhæfilegu launakjörum, stóðu þeir á móti, sem fara með vald hluthafanna í bankanum. Þó fjekst nokkur lækkun fram. Jeg vil benda fulltrúa hinna erlendu hluthafa í bankaráðinu á það, að þingið hefir hingað til orðið fullkomlega vart við hluthafavaldið, og ætti að vera búið að fá nóg af því. Þótt þetta frv. verði nú samþ., til þess að firra bankann vandræðum, er ekki ósennilegt, að það sje í síðasta sinn, sem þessi leikur er leikinn.